Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 18:03:15 (3016)

1999-12-15 18:03:15# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[18:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ímynda mér að hv. þm. hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að við munum að öllum líkindum ekki standa í jafndjúpri for í þessum efnum að ári. Ég er sannfærður um það. Eitthvað hljóta menn að hafa lært af þessu og ég vona að hv. þm. sé í þeim hópi.

Hins vegar er ekki rétt hjá honum að verklagsreglurnar séu til í formi laga. Það var hv. þm. sem útskýrði gleggst fyrir okkur að það ætti að setja sérstakar viðmiðunarreglur m.a. um útfærslu samninga við stofnanir og hvað ætti að gera ef þeir gengju ekki eftir. Það var það sem við vildum fá að sjá og það var það sem hv. þm. Hjálmar Jónsson lofaði minni hlutanum að við mundum fá að sjá en það liggur fyrir að svo verður væntanlega ekki vegna þess að hv. þm. hefur ekki pólitískt afl til að standa við þessi orð. Ég verð auðvitað að sætta mig við það en vænti þess a.m.k. að hann sjái sóma sinn í að útvega þetta inn á formlegan fund fjárln.

Ég spurði hann um það hvort hann mundi beita sér fyrir því en svar hans var þess eðlis að ég hef fyllstu ástæðu til að efast um það.