Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 20:36:05 (3018)

1999-12-15 20:36:05# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[20:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að koma að síðasta atriðinu sem hv. þm. nefndi í lok ræðu sinnar þó að ég telji reyndar að eðlilegra sé að gefa fjmrh. færi á að svara bréfriturum fyrst áður en leitað er svara á Alþingi við því hvernig því bréfi verður svarað sem borist hefur frá Félagi eldri borgara.

En spurt er: Telur fjmrh. að það sé brot á stjórnarskránni að skattleggja tekjur úr lífeyrissjóðum með þeim hætti sem gert er í dag? Svarið við því er að sjálfsögðu nei, það liggur í augum uppi að ég get ekki tekið undir slíkt viðhorf.

Hins vegar vil ég benda á að þetta mál er miklu flóknara en látið hefur verið í veðri vaka. Inn í það spilar m.a. sú staðreynd að lífeyrissjóðir greiða ekki fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum sínum, að innborgarnir í lífeyrissjóði eru skattfrjálsar o.fl. þess háttar. Hins vegar hefur til þessa verið fjallað um þetta mál meira á pólitískum forsendum, en nú er farið að fitja upp á því að þetta sé kannski fyrst og fremst lögfræðilegt álitamál og að því vikið í þessu máli að það sé kannski best að láta á það reyna fyrir dómstólum.

Vera má að svo sé. Ég hef hins vegar fulla trú á því að það form sem er á þessari skattlagningu í dag standist fyllilega allar lögfræðilegar kröfur, það sé ekki vafamál.

Ég bendi á að það getur verið mjög varhugavert að huga eingöngu að uppruna fjármagns, hvaðan það kemur þegar það rennur síðan til annarra þarfa. Það er ekki einhlítur mælikvarði á eðli greiðslna hver uppruni fjármagnsins er áður en til slíkra greiðslna kemur.