Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 20:38:16 (3019)

1999-12-15 20:38:16# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[20:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og viðbrögð við því sem ég spurði hann um og vænti þess í ræðu hans hér á eftir að hann svari þeim tveimur eða þremur spurningum öðrum sem ég beindi til hans.

Hæstv. ráðherra virðist greinilega vera búinn að láta kanna málið af hálfu ráðuneytisins þar sem hann telur að ekki sé um brot á stjórnarskránni að ræða. Það er því greinlegt að lögfræðilegt álit sem Félag eldri borgara hefur gert og það álit sem ráðherrann hæstv. setur fram í þessu efni stangast á.

Þegar ég hlýddi á þessa frétt frá Félagi eldri borgara fannst mér að félagið væri að fara fram með mjög sanngjarna kröfu og biðja um sátt við fjmrh. hæstv. í þessu máli.

Þegar við tölum um fjármagnstekjur annars vegar, hvernig þær eru skattlagðar, og þegar það er viðurkennt að 2/3 hlutar af þessum lífeyrisgreiðslum eru ekkert annað en vextir og verðbætur hljóta menn að staldra við og bera þetta saman og spyrja af hverju sá hluti sem aldraðir fá úr lífeyrisjóðunum beri 40% skatt meðan fjármagneigendur greiða ekki nema 10% skatt af þeim tekjum sem þeir fá af sínu fjármagni. Þess vegna finnst mér þessi krafa eðlileg og tel að hæstv. ráðherra eigi nú að skoða það með opnum huga að verða við þessari sanngjörnu ósk lífeyrisþega. Ég minni á í leiðinni að ef leið okkar í Samfylkingunni hefði verið farin varðandi framkvæmd á fjármagnstekjuskattinum hefði verulega stór hluti fjármagnstekna verið undir ákveðnu frítekjumarki sem við vildum hafa og tel ég að það mætti skoða í þessu sambandi.

En aðalatriðið finnst mér að hæstv. ráðherra skoði það með opnum huga að leita sátta við Félag eldri borgara í þessu máli.