Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 20:42:25 (3021)

1999-12-15 20:42:25# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[20:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alveg óþarfi hjá hæstv. ráðherra að vera að skattyrðast út í það þó að þetta mál sé sérstaklega tekið upp í tengslum við fjárlagafrv. Við erum mörg hér inni sem höfum verulegar áhyggjur af kjörum aldraðra, það endurspeglast í þeim brtt. sem hafa verið fluttar sem fjárlagafrv. greinilega ætlar að skammta mjög á næsta ári. Þau ákvæði sem koma þar fram gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni og lýsa því að stjórnarmeirihlutinn ætlar að hækka bætur almannatrygginga að öllu óbreyttu um 1.400 kr. á mánuði sem er auðvitað nánast ekki neitt. Ef maður sá einhverja glufu þarna sem gæti bætt stöðu gamla fólksins eða aldraðra með því að hæstv. fjmrh. næði einhverri sátt við Félag eldri borgara um þær körfur sem þeir setja fram og réttmætar tillögur hefði hann kannski verið sáttari í þessu máli að því er varðar stöðu og hag eldri borgara. Því er ekkert óeðlilegt þótt þetta sé tekið upp í umræðunni.

Það er alveg ljóst að lögfræðilegur ágreiningur er um þetta mál. Mér finnst mjög eðlilegt að Félag eldri borgara bendi á jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði í stjórnarskránni máli sínu til stuðnings. Þetta hefur verið ein af stóru kröfunum sem aldraðir og hagsmunasamtök þeirra hafa sett fram og þeir hljóta að hafa leitað ráðgjafar og álits í því efni, m.a. lögfræðilegs, hver staða þeirra er þegar þeim finnst þeir búa við þessa mismunun. Þetta er niðurstaða þeirra og ég hvet hæstv. ráðherrann enn og aftur til að skoða málið með opnum hug og reyna að koma til móts við þessar sanngjörnu óskir Félags eldri borgara.