Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:13:34 (3023)

1999-12-15 21:13:34# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er þakkarvert af hæstv. ráðherra að koma hér og taka þátt í umræðunum. En ég vil þó segja og vara við því að hæstv. ráðherra ætti að gleðjast hóflega yfir þeim árangri eða afrekum sem hann telur sig vera að vinna.

Herra forseti. Það er ekki hægt að fjalla um afkomu og stöðu ríkissjóðs sem einangrað fyrirbæri í íslenskum efnahagsmálum. Þó ég nefni aðeins tvennt sem hæstv. ráðherra verður að hafa í huga og það fyrra er hvernig afgangurinn er til kominn, hvaðan tekjuaukinn er sprottinn. Hann er sprottinn af verulegri verðbólgu og viðskiptahalla að nokkru leyti og að hinu leytinu af sölu eigna. Að ganga á eigur sínar er ekki aflafé og það er ekki sambærilegt við aðrar tekjur.

Hið seinna er svo afkoma annarra aðila í þjóðfélaginu. Það verður líka að taka með í reikninginn, afkomu annarra aðila, sveitarfélaga, heimila og atvinnulífs. Þegar hæstv. ráðherra setur árangurinn innan gæsalappa í þetta samhengi er myndin auðvitað öðruvísi en sú einhliða, jákvæða sem hæstv. ráðherra hefur tíundað hér.