Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:23:35 (3032)

1999-12-15 21:23:35# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Það er rétt, herra forseti, eins og ég hef sagt tvívegis í dag úr þessum ræðustóli að lagaákvæði eru býsna skýr um þessi atriði. Eigi að síður, m.a. vegna vangaveltna í fjárln. og vegna þeirrar stöðu sem upp hefur komið, hefur verið talið rétt að ítreka þetta með sérstökum verklagsreglum sem munu þá gilda um rekstur og stjórnun ríkisstofnana með tilliti til framkvæmdar fjárlaga. Þar yrði fyrst og fremst um það að ræða að hnykkja á þessum atriðum og útlista í smáatriðum hvernig menn eigi að bregðast við séu þeir að fara fram úr. Það hjálpar stjórnendunum. Þannig yrði skýrt fyrir þeim hvenær þeir eigi að leita til ráðuneytis síns, hvenær viðkomandi ráðuneyti á að leita til fjmrn., þ.e. hvenær á að grípa til aðgerða.

Ég held að öllum sé hollt að farið sé yfir þetta. Ég tel góðar horfur á því að það takist að halda ríkisstofnunum, helst öllum, innan fjárlaga næsta árs. Ég held að enginn kæri sig að fara aftur í gegnum það sem við höfum gert undanfarnar vikur í sambandi við þetta.