Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 21:24:53 (3033)

1999-12-15 21:24:53# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[21:24]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki komu skýr svör frá hæstv. ráðherra um hvort minni líkur væru á að endurtekning yrði á því sem gerðist þetta árið, eingöngu að hann treysti því að enginn hefði áhuga á að endurtaka leikinn.

Varðandi umræðu hæstv. ráðherra um að fjarstæðukennt væri að ríkisstjórnin væri í pattstöðu í lánamálum þá var samt ekki hægt að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að í raun væri þar alger pattstaða. Hann taldi það hlutlausa aðgerð að greiða niður innlendar skuldir og það væri ekki hægt að greiða niður erlendar skuldir vegna stöðu gjaldeyrismálanna. Hann sagði einnig, hæstv. ráðherra, að miklu frekar ætti að draga fjármagn úr umferð vegna þess að ella yrði ekki dregið úr þenslunni. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt taldi hann það nauðsynlegt og deilir þeim áhyggjum með mörgum okkar, að nauðsynlegt sé að reyna að draga úr þenslu og hraða verðbólgunnar. Og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er það ekki rétt að ríkisstjórnin er í pattstöðu í lánamálum?