Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 22:43:49 (3043)

1999-12-15 22:43:49# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[22:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef ekki þörf fyrir að hafa sérstaklega langt mál nú við 3. umr. fjárlaga. Hér hafa talað á undan mér þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og mælt fyrir brtt. okkar og rökstutt afstöðu okkar í þessum efnum, fyrst og fremst fulltrúi okkar í fjárln., hv. þm. Jón Bjarnason, en einnig hafa hv. þm. Ögmundur Jónasson og Kolbrún Halldórsdóttir þegar talað.

Það eru aðeins nokkur atriði sem ég vil koma inn á og ég vil beina spurningum til hæstv. ráðherra landbúnaðar og samgöngumála af vissu tilefni. Ég hef gert viðvart um að ég óski nærveru þeirra og hygg að þeir séu báðir hér í húsi og ég er þakklátur fyrir það.

[22:45]

Herra forseti. Fyrst þá held ég að með sanni megi færa fyrir því nokkur rök að þau fjárlög sem við erum að afgreiða hér séu að ýmsu leyti óvissufjárlög, þau séu meiri óvissu undirorpin en stundum endranær og talsvert meiri óvissu undirorpin en við hefðum getað vænst í kjölfar margrómaðs stöðugleika og sæmilega stöðugra forsendna í efnahagsmálum á undangengnum árum.

Auðvitað er aldrei á vísan að róa, eins og sagt er á íslensku og á enn við um ýmsa þætti í okkar efnahagsbúskap. Það hefur stundum verið sagt til að reyna að útskýra fyrir útlendingum hversu sérstakt íslenskt efnahagslíf er að þess séu fá dæmi um efnahagslegar undirstöður í þjóðarbúskap ríkja að þær geti tekið til fótanna og synt í burtu. En það á auðvitað við um Ísland og hefur svo sem gerst í Íslandssögunni að þessar undirstöður efnahagslífsins hafa greitt atkvæði með sporðinum og horfið, verið veiddar upp eða annað í þeim dúr.

Við byggjum á áhættusömum og sveiflukenndum atvinnurekstri að þó nokkru leyti enn þá í okkar þjóðarbúskap. Efnahagslíf okkar er lítið og sérhæft og oft verðum við fyrir búsifjum vegna þess að við höfum ekki þá breidd eða stærð til að bera sem getur jafnað út sveiflur eins og hjá ýmsum öðrum þjóðum. Þetta vitum við og þekkjum en ég held, herra forseti, að ástæða sé til að staldra við breytingar sem þrátt fyrir allt hafa einnig orðið að þessu leyti. Ég er ekki viss um að menn muni upplifa hræringar í íslensku efnahagslífi, fari þær af stað fyrir alvöru t.d. á næstu missirum, á alveg sama hátt og menn hafa gert áður. Þar koma m.a. til, herra forseti, breytingar sem hér hafa verið gerðar markvisst og af pólitískum ástæðum í sambandi við skipulag efnahagslífsins. Þar á ég t.d. við einkavæðinguna en ég á þó einkum og sér í lagi við þá þróun sem hér hefur orðið á hlutabréfamarkaði, þ.e. að hér er komið Kaupþing og hlutabréfamarkaður og menn eru farnir að vakna og sofna til þess hvernig gengið á vísitölunum er þennan eða hinn daginn. Það held ég að eigi eftir að reynast Íslendingum ný upplifun ef hér syrtir í álinn í efnahagsmálum að allt í einu er komin þarna viðbótarbreyta inn í okkar efnahagslega samhengi sem getur verið mjög næm fyrir ýmsu ójafnvægi og utanaðkomandi aðstæðum eða jafnvel innri hlutum sem þar valda breytingum.

Herra forseti. Það gætu með öðrum orðum verið komnir þeir tímar að við förum að eignast okkar svörtu októberdaga eins og aðrar þjóðir. Ég hef reyndar af því þó nokkrar áhyggjur að hluti af þenslunni og spennunni í þjóðfélaginu sé uppskrúfað gengi á hlutabréfamarkaði, að hálfgerð blöðruáhrif séu þar í gangi eins og stundum er sagt og talið er nú reyndar að séu einkenni á mörkuðunum bæði austan hafs og vestan um þessar mundir. Menn vita hvað gerist ef blásið er mjög miklu lofti í blöðru. Þá þarf ekki nema að stinga á henni og þá getur það farið mjög hratt út eða hún sprungið.

Hættumerkin blasa við okkur, herra forseti. Á það hefur verið bent í umræðunum og ég ætla ekki að endurtaka það. Verðbólga og viðskiptahalli eru þar alvarlegustu hætturnar. Ég segi það aftur, sem ég hygg ég hafi komið aðeins inn á í umræðum um fjáraukalög, að ég held þó að menn gætu verið að vanmeta einn áhættuþáttinn enn og það er staðan í sjávarútveginum og ósköp einfaldlega afkoma útflutningsatvinnugreinanna á tímum hækkandi raungengis, mjög hárra vaxta og þeirra aðstæðna sem við þekkjum.

Enn er það svo að sjávarútvegurinn íslenski stendur fyrir meira en helmingnum af heildarútflutningnstekjum þjóðarinnar, hvort heldur mælt er í verðmæti vöru eða þjónustuviðskipta, og er á milli 70% og 80% af vöruútflutningnum. Næst kemur ferðaþjónustan og það er kannski ástæða til að minna á þá staðreynd hér þegar menn tala eins og það eina sem geti orðið landinu til bjargar séu erlendar málmbræðslur --- það er nú ekki svo --- að næsta stóriðja Íslands, stóriðja Íslands númer tvö á eftir sjávarútveginum, er ferðaþjónustan. Hún er komin fram úr iðnaðinum sem gjaldeyrisatvinnuvegur fyrir þjóðina.

Herra forseti. Ég ætla að nefna lauslega nokkrar af brtt. okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það er ekki svo, eins og halda mætti af umfjöllun ríkissjónvarpsins, að aðeins einn flokkur á þingi hafi lagt fram brtt. Þvert á móti er það þannig að bæði við 2. umr. og svo aftur núna við 3. umr. höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þingmenn fleiri flokka, þingmenn Frjálslynda flokksins, lagt fram ítarlegar brtt. og tekið efnislega afstöðu til þessa fjárlagafrv. sem er kannski meira en hægt er að segja um suma aðra. Við greiddum atkvæði ýmist með brtt. meiri hlutans, sátum hjá eða vorum á móti þeim eftir efni máls við 2. umr. og munum gera það aftur við 3. umr. Við fluttum fjölmargar brtt. við 2. umr., þar á meðal tekjuöflunartillögur til þess að mæta að verulegu leyti okkar útgjöldum. Við kölluðum sumar af okkar brtt. við 2. umr. aftur til 3. umr. eins og iðulega er gert ef menn vilja ekki láta þær koma til atkvæða við 2. umr., annaðhvort vegna þess að málum er ekki lokið í fjárln. eða þeir binda vonir við að lagfæringar fáist. Við endurvekjum nú flestar þessara tillagna við 3. umr. enda standa þær að fullu fyrir sínu.

Ég vil fyrst nefna tillögu sem hv. þm. Jón Bjarnason hefur gerst meðflutningsmaður að og var flutt við 2. umr. og nú aftur við 3. umr. af þingmönnum Frjálslynda flokksins, hv. þm. Gunnari Inga Gunnarssyni og Guðjóni A Kristjánssyni. Við tókum undir þessa tillögu við 2. umr. og lýstum okkur stuðningsmenn hennar. Hún var mjög í anda þeirrar tillögugerðar sem við höfðum hugsað okkur að flytja hvað varðar útgjöld til lífeyristrygginga og sjúkratrygginga. Það varð því niðurstaðan að við 3. umr. gerðist fulltrúi okkar í fjárln. meðflutningsmaður að þessari tillögu hv. þingmanna Frjálslynda flokksins. Ég læt þess getið að hv. þm. Ögmundi Jónassyni láðist að geta þess þegar hann ræddi um þessa tillögu og hann bað mig að koma því hér á framfæri.

Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að verulega verði bætt í upphæðir tekjutryggingar ellilífeyrisþega, tekjutryggingar örorkulífeyrisþega og sjúkratryggingar hvað varðar sjúkradagpeninga. Með því móti teljum við að við mundum lyfta þessum liðum þannig að það væri a.m.k. veruleg viðleitni í þá átt að skila þessum hópum einhverju af því góðæri sem þeir hafa sannanlega farið á mis við umfram marga aðra.

Herra forseti. Ég vil í öðru lagi nefna tillögu sem við fluttum reyndar við 2. umr. en kölluðum aftur til 3. umr. og varðar greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu, þ.e. stuðning við sauðfjárbændur og styrkingu dreifikerfis í sveitum. Er ég þá kominn að öðru því tilefni sem ég ætlaði að ræða við hæstv. landbrh.

Herra forseti. Það eru mér gríðarleg vonbrigði, satt best að segja skil ég það eiginlega ekki, að menn skuli ætla að loka fjárlögunum án þess að sýna nokkra viðleitni í þá átt að koma til móts við þá stétt sem ég fullyrði að hefur orðið fyrir meira tekjutapi og meira áfalli en nokkur önnur í landinu núna milli ára, þ.e. sauðfjárbændur. Bændur sem hafa sent mér skrifleg erindi eða haft við mig símsamband hafa sýnt mér fram á nokkur dæmi um 30--40% tekjufall nú á milli ára. Sauðfjárbændur og fjölskyldur sauðfjárbænda sem ekki hafa aðrar tekjur en þær sem koma frá búinu standa í mörgum tilvikum frammi fyrir þessari stöðu. Þetta stafar af því að á milli ára hefur orðið algjört verðhrun á ull og gærum. Það hefur verið stórhækkuð útflutningsskylda sem þýðir mun lægra verð og í raun og veru hverfandi lítið til bændanna í kjölfar lægra verðs og óhagstæðari útflutningsskilyrða að ýmsu leyti. Þetta þýðir í mörgum tilvikum að drjúgur hluti framleiðslu viðkomandi bænda, þau 20% eða hvað það nú er sem útflutningsskyldan er plús jafnvel það sem menn hafa verið að reyna að auka framleiðslu sína um undanfarin ár til að afla einhverra viðbótartekna með útflutningi, fer nú í raun tekjulaust frá búinu og er frekar baggi á bændum en hitt. Þar er því kannski farinn fimmtungur og upp í fjórðungur eða jafnvel þriðjungur af framleiðslunni fyrir ekki neitt. Eftir stendur afgangurinn og á hann kemur þetta mikla tekjufall vegna verðhruns á ull og gærum og fleiri þátta.

Er það þá niðurstaðan, herra forseti, að þannig sé í pottinn búið hér í miðju góðærinu að menn ætli að standa algjörlega aðgerðalausir gagnvart því að ein stétt verður fyrir þvílíku hruni sem þarna er á ferðinni í tekjum, og það stétt sem er í samningsbundnum viðskiptum við ríkisvaldið um sína framleiðslu og um sín tekjumál eins og bændur?

Herra forseti. Ég minni á að þegar aðrar atvinnugreinar, sem landbúnaðurinn og sauðfjárframleiðsla auðvitað eru, hafa orðið fyrir búsifjum af þessu tagi þá hefur iðulega verið farið í miklar ráðstafanir og jöfnunaraðgerðir þeim til handa. Hvað er uppbót til rækjuiðnaðarins og rækjusjómanna þegar innfjarðarrækja bregst annað en sambærileg aðgerð, þegar þá er allt í einu gripið til þess að færa yfir til þeirrar greinar sjávarútvegsins veruleg verðmæti í formi kvótaúthlutunar í öðrum tegundum? Hvað var uppbót til loðnuflotans á sínum tíma þegar loðnubrestur varð annað en sambærileg aðgerð til að mæta því tekjufalli sem greinin var að taka á sig? Ætla menn þá að segja að ekki séu bæði fordæmi fyrir því og öll efnisleg rök og sanngirnisrök fyrir því að koma til móts við bændur á einhvern hátt?

Herra forseti. Er hægt að kanna hvar hæstv. landbrh. er, af því að ég hafði gert sérstakar ráðstafanir til þess að hann yrði hér?

(Forseti (HBl): Ég skal gera ráðstafanir til þess að hæstv. landbrh. komi í salinn. Ég hélt satt að segja að hann vissi af ósk hv. þm.)

Það hélt ég satt að segja líka, herra forseti, og er þess vegna undrandi á því að hæstv. ráðherra skuli ekki koma í leitirnar.

Ég vil óska eftir því, herra forseti, að hæstv. landbrh. tjái sig, taki afstöðu til þessarar brtt. okkar um að hér verði aukið við fjármunum til þess að hægt sé að koma til móts við landbúnaðinn, bændur og alveg sérstaklega sauðfjárbændur í þessum efnum. Ætlar hæstv. ráðherra að byrja feril sinn í embætti með því að fara í gegnum fjárlagaafgreiðsluna án þess að sýna vott af viðleitni til þess að taka á þessum erfiðleikum? Ég fullyrði að það mun ekki valda hæstv. landbrh. neinum pólitískum erfiðleikum að skapa samstöðu um það hér að koma nokkuð til móts við þessa stétt manna sem þarna hefur sannanlega --- ég vona að ég þurfi ekki að endurtaka það og að hæstv. landbrh. hafi heyrt hvað ég var að fara hér með --- orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli milli ára svo nemur í mörgum tilvikum 30--40%. Ég fullyrði að óvíða í landinu, herra forseti, er við erfiðari aðstæður að etja en á mörgum sveitaheimilum þar sem menn hafa tekjur og framfærslu eingöngu af sauðfjárrækt.

Á sömu brtt. er liðurinn Ýmis orkumál, styrking dreifikerfis í sveitum. Það verkefni fær hraksmánarlega útreið hjá hæstv. ríkisstjórn sem í miðju góðærinu lætur sér sæma að skera niður þennan lið sem ég hélt að allir hugsandi menn og þeir sem eitthvað hafa fylgst með vandamálum landsbyggðarinnar og strjálbýlisins vissu að er einn sá sem stendur mönnum hvað mest fyrir þrifum, þ.e. lélegt dreifikerfi raforku. Það er skortur á þrífösun rafmagns sem veldur mönnum miklum erfiðleikum og miklum kostnaðarauka. Ég nefni sem dæmi uppbyggingu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Það fullyrða margir menn við mig að þetta eitt og sér geri það að verkum að í raun fái þeir engan botn í það að ráðast í fjárfestingu, t.d. í uppbyggingu heimagistingar eða minni veitingastaða eða annarra slíkra hluta þar sem menn þurfa að nota orku, rafmagnstæki og slíkt, nóg sé að standa frammi fyrir þeim stutta nýtingartíma sem oftast er á þessum mannvirkjum, borga af þeim full fasteignagjöld eins og verið hefur hingað til eftir sem áður miðað við markaðsverð í Reykjavík og búa svo við það að þurfa að kaupa margfalt dýrari rafmagnstæki og ná 20--40% minni nýtingu út úr orkunni. En það er það sem gerist, herra forseti, ef menn neyðast til þess að búa við þessar frumstæðu aðstæður.

Og þá, einmitt þá og við þessar aðstæður á árinu 1999, þegar menn monta sig af 16--17 milljarða afgangi á fjárlögum, láta menn sér sæma að krukka í þennan lið og skera hann niður þó að um samningsbundinn og eyrnamerktan tekjustofn í formi arðgreiðslna Rafmagnsveitna ríkisins í þessu skyni sé að ræða. En um það var samið á sínum tíma að tveir þriðju af tekjuafgangi eða arðgreiðslum Rafmagnsveitnanna gengju til þess að fjármagna átak í þessu verkefni. Þetta er skammarlegt, herra forseti, og það væri gaman að heyra hvað þessir ráðherrar, hæstv. samgrh. og hæstv. landbrh. sem ættu að láta sig málið varða sem ráðherra ferðamála og ráðherra landbúnaðarins og sveitanna í raun og veru, sem landbrh. auðvitað er í miklum mæli, segja um þetta mál.

Herra forseti. Að lokum er ég þá kominn að því sem ég ætlaði alveg sérstaklega að ræða við þessa tvo hæstv. ráðherra og það er stefna ríkisstjórnarinnar og þeirra hvað varðar meðferð á jarðeignum ríkisins sem undir þá heyra.

[23:00]

Ég er satt best að segja, herra forseti, sleginn og undrandi yfir þeim fréttum sem hafa verið að koma fram um meðferð stjórnvalda á þeim málum. Ég á þá ekki við ýmsar einstakar afgreiðslur þeirra mála sem kunna að orka tvímælis og jafnvel rúmlega það. Ég ætla ekki að segja meira um þau mál. Ég hef ekki gaman af því að velta mér upp úr slíku og vona bara að þau mál komist á hreint hvernig að því hefur verið staðið.

En ég ætla að segja hitt, að ég varð forundrandi þegar ég heyrði að ríkið hefði á skömmum tíma, nánast án þess að nokkur umræða hefði farið fram um það, selt einar 60 ríkisjarðir og þar af tugi án þess að þær hefðu nokkurs staðar verið auglýstar eða jafnvel án þess að ábúendum eða ábúendum á nágrannajörðum hefði gefist nokkur kostur á að bjóða í þær jarðir. Þær eru seldar jafnvel út úr sveitarfélögum til aðkomumanna og án þess að íbúum á viðkomandi svæði, sveitarfélögum eða öðrum, gæfist í raun og veru nokkur kostur á að komast að þessu máli. Þannig er þessu lýst.

Ef það er þá er hér orðin, herra forseti, mikil stefnubreyting í meðferð þessara mála. Ég hef grun um að þessir tveir hæstv. ráðherrar séu aðallega að fá heimildir í 7. gr. fjárlagafrv., sem er heimildargrein, til að kaupa og selja eignir, og svo í brtt. frá meiri hluta fjárln. á þskj. 408 þar sem enn er bætt við þessar heimildir. Fjöldinn allur af ríkisjörðum og einstökum náttúruverðmætum, sem ég er satt best að segja forundrandi á að mönnum skuli yfir höfuð detta í hug að selja. Ég ætla aðeins að vitna í þessi skjöl, herra forseti, með leyfi þínu.

Þar segir t.d. í 7. gr. sjálfs frv. að heimildar er aflað, fjmrh. sé heimilt að gefa eftir gjöld og kaupa og selja eins og þar stendur, og svo kemur hér að sölu lóða og jarða. Þar eru þessir liðir:

,,4.4 Að selja jörðina Hólsland, Eyja- og Miklaholtshreppi, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

4.5 Að selja jörðina Framnes, Kaldrananeshreppi, Strandasýslu.

4.6 Að selja jörðina Lyngholt, Bæjarhreppi, Strandasýslu.

4.7 Að selja jörðina Geitafell, Húnaþingi-Vestra, Vestur-Húnavatnssýslu.

4.8 Að selja jörðina Nýrækt, Skagafirði, Skagafjarðarsýslu.

4.9 Að selja jörðina Þverá, Ólafsfirði, Eyjafjarðarsýslu.

4.10 Að selja lóðina Glerá 3, Akureyri.

4.11 Að selja jörðina Stóru-Tungu, Bárðdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.

4.12 Að selja jörðina Blábjörg, Djúpavogshreppi, Suður-Múlasýslu.

4.13 Að selja jörðina Krók, Austur-Skaftafellssýslu.

4.14 Að selja jörðina Digurholt, Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu.

4.15 Að selja jörðina Ytri-Lyngar II, Skaftárhreppi, Vestur-Skaftafellssýslu.

4.16 Að selja jörðina Kotmúla, Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu.``

Síðan eru taldar upp hvorki meira né minna en ellefu jarðir eða jarðarhlutar í Árnessýslu sem á að selja: Hluta af jörðinni Björnskot, hluta af jörðinni Norðurgarður, hluta af jörðinni Norður-Garðar, jörðin Gufudalur, jörðin Gufudalur II, hluti af jörðinni Kröggólfsstaðir, jörðina Reykjakot, hluta af jörðinni Skriðufell, eignarhluta ríkisins í jörðinni Vestra-Stokkseyrarsel, hluta af jörðinni Þúfu, jörðina Minni-Ólafsvellir og prestssetursjörðina Hraungerði í Árnesprófastsdæmi.

En þetta er ekki nóg heldur er í brtt. meiri hlutans bætt við heimildum. Það er prestssetrið í Þykkvabæ, það er reyndar einnig flugafgreiðslan á Kópaskersflugvelli, flugafgreiðslan á Borgarfirði eystra og flugafgreiðslan á Breiðdalsvíkurflugvelli. Ég spyr hæstv. samgrh., herra forseti, með leyfi: Hvað í ósköpunum á nú að gera með það að fara að selja flugafgreiðslurnar á þessum flugvöllum? Þó að þetta séu kannski ekki lengur áætlunarflugvellir er það þá sérstök framför í því að ríkið láti frá sér þá aðstöðu sem þó er þarna til staðar ef á þarf að halda fyrir leiguflug, fyrir sjúkraflug og fyrir aðra slíka hluti? Hvað á að gera með þessar eignir? Í hvaða skyni er verið að láta þær ganga undan ríkinu, þennan hluta af samgöngukerfi landsins sem þarna á í hlut? Ég vil fá skýringar á því.

En svo á að gera meira, herra forseti, og þá kemur nú að hlutum sem mig undrar nokkuð. Það á að selja Elliðaey á Breiðafirði. Hverjum á að selja Elliðaey á Breiðafirði? Ekki er ábúandi þar. Er jörðin í ábúð? Ekki veit ég til þess. Er það þá skynsamleg ráðstöfun að vera að selja eina af perlum Breiðafjarðar einkaaðilum?

Það á að gera meira, herra forseti, og þá tekur nú steininn úr að mínu mati. Það á að selja Málmey á Skagafirði. Hverjum á að selja Málmey á Skagafirði? Er hún í ábúð? Ekki hef ég orðið var við það. Hvers vegna í ósköpunum er ríkið að selja eina af perlum Skagafjarðar, Málmey á Skagafirði? Er ekki gáfulegra að þjóðin eigi hana saman áfram? Hvaða tilgangi þjónar svona lagað? Er þetta innlegg í þá umræðu sem varð í fyrra og hittiðfyrra um þjóðlendur, um sameign þjóðarinnar á hluta af landinu og um náttúruperlur sem við ættum öll að varðveita og eiga aðgang að saman, að selja einkaaðilum Málmey á Skagafirði? Ég bið um skýringar, herra forseti.

Ég ætla ekki að greiða þessari heimild atkvæði ef á bak við það á að vera möguleg sala til einhvers einkaaðila sem getur lokað Málmey á Skagafirði af og víggirt hana. Væri um að ræða ábúendur eða sveitarfélagið eða einhverja slíka aðila sem væru sannanlega vel að því komnir að halda eyjuna og nýta hana kæmi slíkt kannski til greina. En ekki ef um er að ræða að taka þessa eyju úr almannaeign og færa hana einkaaðilum. Það er ekki framför hvað varðar sameiginleg afnot þjóðarinnar af landinu. Í reynd er það svo, herra forseti, svo ég skjóti því að, að ræðumaður er því algjörlega andvígur að jarðnæði gangi úr opinberri eigu, þ.e. ríkisins eða sveitarfélaganna, nema í því eina tilviki að það séu notendur landsins og ábúendur sem séu þá að kaupa það til að þeir standi þá jafnfætis öðrum slíkum sem eiga sitt land. Það er fullgilt sjónarmið og reyndar samkvæmt lögum að ábúendur eigi slíkan rétt eftir tíu ára búsetu á jörðunum og ég geri ekki athugasemdir við það t.d. að hæstv. landbrh. verði við óskum ábúenda ef þær koma fram um slík kaup. En ég er algjörlega andvígur því að slíkar jarðir séu seldar einkaaðilum sem hafa ekki einhver slík bein afnotatengd eða búsetutengd tengsl við landið. Lágmark er að það sé þá í einhverjum slíkum tilgangi að bæta búskaparskilyrði á nálægum jörðum eða opna upp fyrir almenningi, t.d. með því að um sveitarfélag eða félagasamtök eða aðra slíka aðila sé að ræða. Þá geta svoleiðis hlutir að sjálfsögðu komið vel til greina, allt með fyrirvörum þó.

En ég þekki allt of mörg dæmi þess, herra forseti, að í því sé fólgin svo stórfelld afturför fyrir íbúa viðkomandi svæðis og jafnvel landsmenn alla að land hverfi úr opinberri eigu og í einkaeign að ég get ekki mælt með slíku, fyrir utan að það stríðir gegn grundvallarviðhorfum mínum til þess að að breyttu breytanda eigi slíkir hlutir að vera í sameign. Ég þekki fjölmörg dæmi þess að land sem hefur lent úr höndum ábúenda, eða þeirra sem nýta jarðirnar, til einkaaðila sem hafa önnur afnot og aðra hluti í huga en þá sem fyrir voru, sé lokað af, girt af, jafnvel þannig að menn komast ekki hefðbundnar reiðleiðir innan sveitar eða á milli sveita, og vegum er lokað og á hengd skiltin ,,einkavegur`` o.s.frv.

Út af fyrir sig er það alveg skiljanlegt og ég held að við getum t.d. alveg skilið þá streituhlöðnu þéttbýlisbúa sem eru að leita sér að afdrepi að þeir vilji fá að vera í friði þegar þeir loksins sleppa héðan úr ósköpunum og stressinu, þá vilji þeir frið og ró í paradís sinni og þeir girða sig af, loka veginum, setja upp skiltið ,,einkavegur, einkalóð, bannað að ganga á grasinu`` o.s.frv. og niðurstaðan er oftar en ekki sú að þetta land er lokað af, jafnvel þannig að það hverfa af því nytjar sem menn hafa haft.

Ég held að það sé miklu betri lausn á eðlilegri þörf þéttbýlisbúanna til að geta umgengist og komið út á landið að ríkið eigi það, að við eigum það saman og opnum það upp, ekki fyrir fáeinum útvöldum sem hafa peninga til að kaupa það heldur fyrir öllum fjöldanum. Ríkisjarðnæðið er einmitt tæki til þess að gera þjóðinni allri auðveldara um vik að njóta landsins saman. Þessar 700, 800 jarðir sem voru í landbrn., a.m.k. þegar ég þekkti vel til þar, eru auðvitað heilmikill stofn í slíkt og sérstaklega vegna þess, því miður, að ýmsar þeirra hafa verið að fara úr ábúð á undanförnum árum, en það er stórfelld afturför í því að tína út úr þessum sameiginlega jarðnæðisstokki landsmanna allra jarðir og jafnvel rúsínurnar og selja þær einkaaðilum sem loka þær af fyrir sig. Auk þess sem það er algerlega fráleitt að mínu mati að ríkið sé að selja náttúruperlur eins og Málmey eða þess vegna Elliðaey á Breiðafirði.

Ég var reyndar ekki búinn með allar jarðirnar, herra forseti, ég gleymdi að nefna hið fornfræga setur prestssetursjörðina Bergþórshvol í Vestur-Landeyjum og það má nú ekki ljúka svo lestrinum að það komist ekki til skila. Hverjum á að selja hana? Er það ábúandinn? Gott og vel en ef það er ekki svo þá vil ég fá skýringar á því.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherrar geri okkur grein fyrir því og helst í meiru en andsvari eða símskeytastíl hver er sú stefna sem hér er lögð til grundvallar. Hvað segir hæstv. landbrh. varðandi það? Er hann með það í huga að selja ríkisjarðir öðrum en ábúendum? Ef svo er þá hverjum og í hvaða tilvikum? Hvað er hæstv. samgrh. að fara með því að fara fram á heimild Alþingis til þess að fá að selja Málmey á Skagafirði? Hverjum á að selja Málmey? Það er algjörlega skylt að hæstv. ráðherra svari því áður en hann getur ætlast til þess að honum sé færð þessi heimild. Ég vil fá skýr svör, herra forseti, og sé það svo sem ég hef vissan beyg af að þær undarlegu og óvæntu fréttir, a.m.k. fyrir ræðumann sem taldi sig þó fylgjast sæmilega með þessum málum, að þessi stórfellda jarðasala hafi farið fram nánast í kyrrþey á undanförnum missirum. Er meiningin að halda þeirri stefnu áfram? Hvers vegna kom það þá ekki fram, t.d. í umræðum um hálendismál og þjóðlendufrv. að það væri stjórnarstefna að losa um eignarhald ríkisins á þó því landi sem þjóðin á saman? Var það ekki einmitt gagnrýnispunkturinn að allt of mikið af landinu væri í einkaeign og ekki aðgengilegt þar af leiðandi öllum almenningi?

Ég var að vísu ekki einn af þeim, herra forseti, sem fóru hamförum í þeim ýkta málflutningi sem var á köflum hafður hér uppi að verið væri að ræna miðhálendinu af þjóðinni, það var auðvitað ekki svo. Þar var um skipulagslegt og stjórnsýslulegt ágreiningsmál að ræða. Engu að síður skil ég vel þau sjónarmið almennings í þéttbýli og þau eru eðlileg og réttmæt og þau eru jákvæð, að menn vilji eiga aðgang að landinu og njóta þess og það eigum við að reyna að gera öll saman eftir því sem kostur er.

Ég þóttist sjá það einhvers staðar að hæstv. landbrh. væri að reyna að slá sér upp á því að hann vildi opna upp ríkisjarðir fyrir veiðimenn. Gott mál hjá hæstv. landbrh., hvort sem það voru nú rjúpnaskyttur eða einhverjir aðrir. Eitthvað sá ég um þetta einhvers staðar. Sjálfur hafði ég svipaðar hugmyndir. Mig dreymdi t.d. um það að fá þjóðina til þess að taka ríkisjarðir í fóstur og til skógræktar í stórum stíl á þeim svæðum þar sem annaðhvort var þörf fyrir átak í uppgræðslu lands eða voru skilyrði til að planta skógi. Ég held að miklir möguleikar séu til slíkra hluta ef við mótum um það skynsamlega stefnu og náum góðri sátt um meðferð þeirra mála. En þeir möguleikar spillast og þeir takmarkast með því landi sem gengur undan ríkinu, það er ljóst.

Allra síðast, herra forseti, þá er ég langhrifnastur af því fyrirkomulagi sem er á Grænlandi og er ekki að ástæðulausu og er ekki tilviljun að þar getur enginn einstaklingur átt land. Grænlenska þjóðin á Grænland saman. Af hverju er það? Jú, það er af því að þúsund ára lífsreynsla hefur kennt grænlensku þjóðinni að hún komist best af í landinu ef hún á landið og veiðistofnana saman og það getur enginn tekið neitt frá fyrir sig og sína og haldið öðrum þar utan við í því fyrirkomulagi. Menn geta leigt lóðir, byggt hús sín og haft þau réttindi sem þeir þurfa í 99 ár o.s.frv. en grundvallarskipulagið er þetta að grænlenska þjóðin á Grænland saman og þar getur enginn einstaklingur átt land og það sé best að hafa það þannig.

En við höfum byggt á öðru kerfi og það er helgað af hefðum og siðum um árhundruða skeið og ég er ekki með neinar kröfur um að því sé kollvarpað eða því breytt, það er ekki svo. Að mörgu leyti eru líka rök fyrir því að þeir sem búa á landinu og nytja það eins og bændur séu góðir vörslumenn þess og vel að því komnir að halda það. Má þá einu gilda í raun hvort um er að ræða formlegt eignarhald eða ábúðarrétt og afnotarétt sem er í raun og veru jafngildur að öllu öðru leyti en því að menn geta ekki þá ekki selt það frá sér.

En mergurinn málsins er þessi, herra forseti, að ég sé enga framför í því fólgna og þvert á móti afturför að fara að losa úr opinberri eigu jarðnæði ríkisins í stórum stíl. Ég minni á það, herra forseti, að það hafa nú oft orðið af því nokkrar deilur á Alþingi. Sú var tíðin að sala á jafnvel eyðijörðum sem átti að fara að selja utanaðkomandi aðilum vakti upp harðar deilur. Eða man einhver lengur þá tíð að hér var u.þ.b. dægurslöng umræða um sölu á jörðinni Streiti eða heitir það Streitishvarf í Breiðdal? Alla vega var þaðan uppfæddur góður stóðhestur, svo mikið man ég. Hér ræddu alþingismenn það svona eins og um dægurskeið. Niðurstaðan varð sú að Alþingi féll frá því að afhenda framkvæmdarvaldinu heimildir til þess að selja jörðina Streiti í Breiðdal. (Gripið fram í.) Ja, hún er vonandi í eigu ríkisins enn þann dag í dag. Nú getur hæstv. landbrh. kannski upplýst það ef hann kann jarðaskrána. Kannski er ekki sanngjarnt að gera þá kröfu til ráðherra í embætti eftir aðeins fáeina mánuði að hann kunni utan að 800 jarða skrá landbrn. en æskilegt væri auðvitað að hafa landbrh. sem væri svo vel að sér.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta. Ég ítreka óskir mínar um að hæstv. ráðherrar veiti skýr svör og lýk máli mínu.