Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:16:14 (3044)

1999-12-15 23:16:14# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. snarpa ræðu. Ég get tekið undir margt sem hv. þm. sagði. Ég er sannfærður um það sem landbrh. að landið verður dýrara, sveitirnar munu vaxa í verði á nýrri öld og jarðir verða eftirsóttari. Okkur ber því að fara varlega í öllum þeim efnum.

Ég vil gleðja hv. þm., sem er síðasti ríkiskapítalistinn á Íslandi, að hann minntist ekki á jörðina sem hér er beðið um að fá að kaupa, þ.e. Hrafnhól í Skagafirði í Hjaltadal, --- sem gleður hér samflokksmann hans, hv. þm. Jón Bjarnason, og kinkar hann kolli.

Hv. þm. minntist á margt í ræðu sinni. Hann minntist á samning við sauðfjárbændur. Hann var eitt sinn landbrh., hæstv. forseti. Hv. þm. var sá landbrh. sem gerði fyrsta samninginn við sauðfjárbændur. Það var að vísu hnífsbragð þá þegar útflutningsbætur voru skornar af með einu hnífsbragði, en ég ætla ekki að fara út í það. Ég vona að okkur takist sem fyrst að gera nýjan samning við sauðfjárbændur sem komi til framkvæmda á næsta ári og skili þeim því að greinin muni standa betur eftir en áður. Ekki er talin, hvorki af ríkinu né sauðfjárbændum, þörf á því að það skili sér inn á þau fjárlög sem nú eru til umræðu.

Ég vil segja við hv. þm. að sú heimild sem fengin er til að selja þessar jarðir byggist fyrst og fremst á þeim rökum sem hv. þm. minntist á. Hann minntist á 60 ríkisjarðir. Hv. þm., sem fyrrum var landbrh., þekkir reglurnar að eftir tíu ára ábúð á margt þetta blessaða fólk kauprétt á jörðum sínum eftir lögum sem Alþingi hefur sett. Þetta er hluti af þeim jörðum og það eru allir sáttir við það. Það verða engar jarðir seldar af hálfu ríkisins hvorki eyðijarðir né aðrar jarðir sem ekki er með kauprétt öðruvísi en þær verði auglýstar. Hér er ekki mikið af eyðijörðum, ég tel að það beri að spara þær og fara vel með þær og marka þar skýrari stefnu en nú er fyrir hendi.