Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:22:29 (3047)

1999-12-15 23:22:29# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra verði að þeirri ósk sinni að hann nái að koma á búvörusamningi helst strax í janúar og að sá samningur bæti verulega stöðu sauðfjárbænda, það er svo sannarlega þörf á. Það er alveg ljóst að sú atvinnugrein í heild sinni er í bullandi hættu ef ekki tekst þar mjög vel til og það er að mínu mati engin leið önnur en að bæta verulega rekstrarstöðu og afkomu búanna, það er ekkert annað að gera. Það er ekki hægt að kvelja þetta svona áfram.

Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að menn fylgi þeim reglum sem settar eru. Ég hygg að margt sé skynsamlegra og til bóta í þessum reglum sem settar voru og hefði mátt gerast fyrr og fyrr farið eftir þeim. En það sem ég hefði helst viljað heyra hæstv. ráðherra segja, en kom því miður ekki, var að hæstv. ráðherra ætli ekki að selja jarðir nema í þeim tilvikum að um lögvarinn kauprétt sé að ræða eða ábúendur eigi í hlut. Hvers vegna segir hæstv. landbrh. það ekki? (Landbrh.: Með heimild Alþingis.) Til hvers að selja og auglýsa jarðir ef ekki þarf að selja þær? Ef ráðherra hefur það í valdi sínu hvort yfir höfuð á að koma til sölu eða ekki, þá er það mín ósk að hæstv. ráðherra segi: Þá verður ekki selt. (Landbrh.: Ég þarf heimild Alþingis.) Já, en ég er ekki að tala um ábúendurna, herra forseti. Ég margendurtek, þegar lögvarinn kaupréttur er til staðar þá er það eitt. En svo erum við að ræða um annað þegar engin slík skylda er til sölunnar, þá ber enga nauðsyn til að auglýsa og/eða selja jarðirnar. Og þá er best að sleppa því og gefa út þá skýru línu að ríkið ætli að eiga þær jarðir áfram. Það vil ég að sé gert.

Ég er alveg viss um, herra forseti, að það er yfirgnæfandi meirhlutastuðningur fyrir því með þjóðinni að vera ekki að láta opinbert land hverfa úr opinberri eigu með þeim hætti sem greinilega hefur því miður í nokkrum mæli verið gert að undanförnu.