Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:26:54 (3049)

1999-12-15 23:26:54# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það var nú óþarfa skógarferð hjá hæstv. samgrh. að vera að lesa út úr þessum spurningum undir lok 3. umr. fjárlaga einhverja sérstaka stuðningsyfirlýsingu eða ánægju mína með fjárlögin. Ég hefði kosið að hæstv. samgrh. hefði notað báðar mínúturnar til að svara spurningunum en sleppt því að eyða fyrri mínútunni í slíkan útúrdúr.

Að spyrja um þetta, herra forseti, er ekki smámál í mínum huga. Hér er ekki á ferðinni mál sem ég tel vera léttvægt og tilefni til að líta á sem smámál í fjárlagaumræðunni. Mér er ekki sama um hvernig náttúruperlum eins og Málmey á Skagafirði er ráðstafað. Ég segi alveg eins og er að mig furðar að heyra þann málflutning að vegna þess að þetta heyri kannski undir vita- og hafnamál eða Landssímann þá sé aflað heimilda til að selja úr eigu ríkisins viðkomandi jörð. Það eru engin rök, herra forseti. Þetta er ríkiseign eftir sem áður --- enn þá a.m.k. meðan ríkið á Landssímann 100%, og við getum ákveðið að gera það við þessar ríkiseigur sem við viljum.

Það eru heldur ekki rök að einhverjar eyjar séu í niðurníðslu. Í hvaða skilningi eru þær það? Þó þær séu óbyggðar og grói upp eða nálgist sitt upprunalega horf þarf það ekki endilega að vera skaði fyrir komandi kynslóðir að geta notið þeirra sem slíkra þegar frá líður. Ég spyr því, í hvaða skilningi er þá talað?

Herra forseti. Ég get ekki lýst sérstakri ánægju með þessi svör, hvorki landbrh. né hæstv. samgrh., því miður. Mér finnst það ekki fullnægjandi að segja: Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvernig á að ráðstafa Málmey á Skagafirði en leitað er heimildar til að selja hana. Bíðum þá með heimildina. Fáum botn í það hvað menn hugsa sér að gera með eyjuna og svo getur Alþingi velt því fyrir sér hvort það er skynsamleg ráðstöfun að afhenda, láta frá okkur heimild til að selja þessa náttúruperlu þegar við vitum hvað á gera með hana og hver á að fá hana? En ekki fyrr. (Gripið fram í: Hvar er Jón á Hóli?)