Fjárlög 2000

Miðvikudaginn 15. desember 1999, kl. 23:31:22 (3051)

1999-12-15 23:31:22# 125. lþ. 46.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 125. lþ.

[23:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi megnustu óánægju með stöðu þessara mála. Mér finnst svífa yfir vötnunum einhver einkavæðingar- og söluhugsunarháttur eins og það sé orðið markmið og boðorð í sjálfu sér að selja þessa hluti. Þetta er ekki sambærilegt við húseignir eða hlutabréf í fyrirtækjum. Þetta er landið sjálft, herra forseti, þetta er landið sem þjóðin býr í. Auðvitað eigum við að reyna eftir því sem kostur er að njóta þess öll saman og eiga það saman að svo miklu leyti sem það er ekki þá í því horfi sem raun ber vitni.

Varðandi t.d. eyjar á Breiðafirði er það ekki ríkinu til sóma að láta mannvirki grotna niður. En það er ekki afsökun til þess að selja eyjarnar. Það er hægt að afhenda einhverjum eyjarnar þess vegna til afnota en ríkið getur átt þær áfram. Má ég minna á að við erum að tala um Breiðafjörðinn og perlur hans í nágrenni við næsta fyrirhugaðan þjóðgarð á Íslandi. Það hafa m.a.s. verið uppi hugmyndir um að gera allt svæðið að sérstöku verndarsvæði og þjóðgarði. Er skynsamlegt að ríkið sé að selja úr eigu sinni land á slíkum svæðum? Ég segi nei. Það er heldur ekki gáfulegt að menn selji frá sér Málmey á Skagafirði.

Herra forseti. Ég sætti mig ekki við þessi svör sem fullnægjandi hvað varðar stefnuna og meðferð þessara mála á næstu missirum. Ég hyggst fylgja því eftir með einhverjum hætti eftir áramótina að hafa þessi mál áfram til umfjöllunar.

Ég hefði talið sönnu nær að við værum að móta stefnu um breytta meðferð þessa jarðnæðis þar sem markmiðið væri að auðvelda allri þjóðinni aðgang að því og að njóta þess saman og við gætum hugsanlega verið að bæta jarðnæði t.d. við þjóðlendurnar og gera stærri svæði að almenningum og þjóðlendum eftir því sem forsendur væru til slíks. En þetta, forseti, ofan í vinnubrögðin sem ástunduð hafa verið er þróun í kolöfuga átt.