Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 11:02:28 (3062)

1999-12-16 11:02:28# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[11:02]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú háttar svo til að allmörg frumvörp sem eru í raun og veru fylgifrumvörp og forsendur afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni hafa ekki fengið afgreiðslu. Það má t.d. taka frv. sem heimilar skerðingu á tekjustofnum Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem fjárlagafrv. byggir á, en það frv. var til umfjöllunar í félmn. í morgun og bíður 2. umr. Ég tel því, herra forseti, að það væri eðlilegri röð á hlutunum að bíða með 3. umr. og lokaafgreiðslu fjárlagafrv., ljúka umfjöllun um tengd frumvörp sem mynda þann grundvöll ákvarðanatökunnar sem þarf að liggja fyrir.

Á fundi félmn. í morgun komu til að mynda fram ýmsar upplýsingar, herra forseti, um brýna þörf fyrir fjárveitingar í Framkvæmdasjóð fatlaðra og að sjóðurinn muni á næsta ári ekki geta sinnt ýmsum þegar samningsbundnum eða skuldbundnum verkefnum eins og að styrkja frjáls félagasamtök á þessu sviði. Þetta er upplýsingar, herra forseti, sem ég tel eðlilegt að hv. alþm. hefðu fengið og umræður hefðu farið fram um hér í þingsalnum áður en menn greiða endanlega atkvæði um fjárlagafrv. því enn væri tími til þess, svo dæmi sé tekið, að falla frá þeim skerðingum sem þarna eru fyrirhugaðar.

Í ljósi þess, herra forseti, að nú háttar svo til að hér er að koma til lokaafgreiðslu fjárlagafrv. óvenjusnemma og augljóslega nokkrum dögum áður en Alþingi kemur til með að ljúka störfum, þá hefði ég talið, herra forseti, að eðlilegast hefði verið að fresta þessari atkvæðagreiðslu, láta hana bíða. Umræðum um málið er lokið og ekkert eftir nema atkvæðagreiðslan, og eðlilegast hefði verið að atkvæðagreiðslunni hefði verið frestað þangað til umfjöllun um þau frumvörp, nokkur talsins, sem tengjast afgreiðslu fjárlagafrv., er lokið.