Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 11:50:14 (3089)

1999-12-16 11:50:14# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÁRJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[11:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að leggja til að sjúkradagpeningar almannatrygginga, greiðslur til þeirra sem misst hafa heilsuna og eiga ekki rétt í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna, verði þeir sömu og fæðingardagpeningar, þ.e. dagpeningar úr almannatryggingum til þeirra sem eru í fæðingarorlofi. Sjúkradagpeningar eru skammarlega lágir. Þeir eru fyrir neðan allir hellur. Það er ekki boðlegt að bjóða fólki upp á það að lifa á 20 þús. kr. á mánuði þegar það er búið að missa heilsuna og hefur ekkert annað fyrir sig að leggja.

Herra forseti. Þetta er líka til samræmingar við það sem menn telja að þurfi til framfærslu þeirra sem eru frá vinnu vegna þess að þeir eru í fæðingarorlofi. Því leggjum við þingmenn Samfylkingarinnar til að 190 millj. kr. fari í að leiðrétta þann smánarblett á almannatryggingunum sem sjúkradagpeningarnir eru. Ég segi já.