Fjárlög 2000

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 11:52:04 (3090)

1999-12-16 11:52:04# 125. lþ. 47.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÞBack (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum mótmælt skerðingu á Framkvæmdasjóði aldraðra af þeirri ástæðu helst að kostnaður heilbrigðiskerfisins er óþarflega mikill af því m.a. að margir sjúkir aldraðir liggja inni á dýrum heilbrigðisstofnunum, sem gætu eða ættu frekar að fá þjónustu á hjúkrunarheimilum, og þjóðin er að eldast. Þessi tillaga var felld. Eftir stendur að til Framkvæmdasjóðs aldraðra eiga að fara 550 millj. og við leggjum til að bundinn verði í framlögum sá kostnaður sem á að fara til reksturs og sá kostnaður sem á að fara til stofnkostnaðar og endurbóta á húsnæði til þess að koma til móts við þær þarfir sem þegar eru í þjóðfélaginu um áframhaldandi uppbyggingu á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum og til að mæta vanda framtíðarinnar.