Seðlabanki Íslands

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:32:36 (3117)

1999-12-16 13:32:36# 125. lþ. 47.6 fundur 161. mál: #A Seðlabanki Íslands# (lausafé lánastofnana) frv. 96/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í mars sl. setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um laust fé lánastofnana sem byggjast á núverandi heimildum í gildandi lögum. Eins og fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands um þetta frv. þykir eðlilegt að rekja aðdraganda þess að menn fóru í það að breyta eða gera tillögu um breyttar reglur eða breytt ákvæði þessara laga. Það er ekki síst vegna þess að síðla árs 1998 hóf Seðlabanki Íslands að vara lánastofnanir við miklum útlánavexti og hættum sem honum kynni að vera samfara eins og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

,,Auk þess varaði bankinn sérstaklega við mikilli notkun lánastofnana á erlendum lánum til skamms tíma til að fjármagna útlánavöxt. Viðvörunum sínum kom bankinn á framfæri í haustskýrslu sinni 1998 og á fundi með forsvarsmönnum helstu lánastofnana og í bréfum til þeirra.``

Meginástæður viðvarana bankans voru annars vegar þær að líklegt væri að hröðum vexti útlána fylgdu áhættusamari lánveitingar sem kynnu með tímanum að fela í sér útlánatöf og hins vegar þær að veruleg áhætta væri fólgin í miklum erlendum skammtímalántökum, bæði fyrir einstakar stofnanir og fyrir þjóðarbúið í heild, að þær hefðu þessi þensluhvetjandi áhrif sem svo mikið er búið að ræða á undanförnum dögum.

Þegar í febrúar á þessu ári og þegar ljóst var að viðvaranir bankans höfðu verið hafðar að engu, eins og segir í umsögninni, var tekin sú ákvörðun að setja nýjar reglur, lausafjárreglur, gera harðari kröfur. Við þá athugun kom í ljós að bankinn taldi að þær kvaðir sem eru í gildandi lögum um það hvernig reglurnar skuli vera séu ófullkomnar og allt öðruvísi en þær sem eru í gildi hjá öðrum þjóðum. Þess vegna var farið í þá vinnu. Það kom einnig fram veruleg gagnrýni frá viðskiptabönkunum og lánastofnunum á Seðlabankann og á gildandi reglur um þá möguleika sem Seðlabankinn hafði. Þess vegna var farið í þá vinnu að móta nýjar reglur og jafnframt farið fram á það að frv. til laga um Seðlabanka Íslands yrði breytt þannig að bankinn hefði heimildir til að setja reglur sem væru samsvarandi því sem gildir í nágrannalöndunum. Við samningu reglnanna, en við sáum drög að þessum nýju reglum í efh.- og viðskn., voru þessar BIS-reglur Alþjóðagreiðslubankans í Basel hafðar til hliðsjónar og einnig er sérstaklega getið um að það hefðu tekið þýskar reglur sem bankinn hafði til hliðsjónar.

Við frágang þessara reglna hafði Seðlabankinn samstarf við þá sem hlut áttu að máli. Engu að síður kom fram í athugasemdum frá Sambandi ísl. viðskiptabanka og Sambandi ísl. sparisjóða og einnig frá FBA að þetta væru of víðtækar heimildir og þess vegna var lögð til sú breyting sem nefndin er sammála um að gera á frv. Reyndar var það þannig að Samband ísl. sparisjóða og Samband ísl. viðskiptabanka vildu hafa breytinguna víðtækari og segja til viðbótar við þá breytingu sem við leggjum til að með greiðsluskuldbindingu sé m.a. átt við innlán, gjaldkræfar skuldir við Seðlabanka og fyrirsjáanlegar afborganir af útistandandi skuldum. Þessar skuldbindingar skulu taldar með að fullu leyti eða að hluta eftir eðli þeirra. Eftir viðræður á milli þessara aðila kom mönnum saman um að þessi skilgreining væri of þröng og því var ekki tekið tillit til þeirra athugasemda nema að hluta.

Aðrir sem sendu okkur umsagnir um það voru jákvæðir og ég vil, virðulegi forseti, eins og stundum áður þakka þá vinnu sem við fengum frá viðskrn. og starfsmanni viðskrn. sem starfaði með nefndinni og hefur reynst okkur alldrjúgur í vinnu sinni.