Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 13:48:13 (3122)

1999-12-16 13:48:13# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og brtt. efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992.

Frv. þetta snýst fyrst og fremst um að bæta stöðu viðskiptavina banka, bæði hérlendis og erlendis þegar upphæðir eru færðar milli landa. Nokkuð hefur borið á því að sá misbrestur sé á eðlilegri þjónustu við viðskiptavini að þeir séu upplýstir um kostnað. Borið hefur á ónauðsynlegum drætti á því að færa upphæðir á milli reikninga. Þetta vandamál er ekki bundið við viðskipti milli Íslands og annarra landa heldur er þetta vandamál sem er algengt í viðskiptum milli landa. Það er hins vegar sannarlega vandamál í viðskiptum milli Íslands og annarra landa og fjölmargir hafa kvartað undan því að þjónusta væri ekki nógu góð í þessu sambandi. Það væri óljóst hver kostnaður væri við yfirfærslurnar og tímasetningar væru oft á reiki og ýmiss konar ónauðsynlegar hindranir í þessu skyni.

Það mál sem hér er til umræðu er mikið þarfamál og mikið framfaramál fyrir viðskiptavini bankanna. Þetta er mál sem sprettur upp út frá tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins frá 27. jan. 1997. Aðlögun að því sem þar segir átti að vera lokið eigi síðar en 14. ágúst 1999. Við erum því nokkuð seint á ferðinni í þessu máli. Ekki eru lagðar til neinar efnislegar breytingar á frv. í brtt. efh.- og viðskn. Það eru í tveimur liðum tæknilegar orðalagsbreytingar sem hafa ekki neina efnislega þýðingu en eina atriðið sem hefur efnislega þýðingu sem nefndin gerir tillögu um er að gildistími laganna verði frá 1. febr. árið 2000. Ástæða þess er sú að menn eru almennt í viðskiptalífinu nokkuð taugastrekktir vegna dagsetningarinnar 1. jan. 2000. Þess vegna er talið ráðlegt að fresta gildistökunni um einn mánuð þannig að betri tími gefist fyrir viðskiptabankana og sparisjóðina að undirbúa þær breytingar sem frv. hefur í för með sér.