Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:03:20 (3126)

1999-12-16 14:03:20# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Að sjálfsögðu er eðlilegt að við lögum reglur okkar um greiðslumiðlun milli landa að því sem gengur og gerist og við erum samningsbundin til að taka þátt í og ekkert nema gott um það að segja. Hitt er annað og alveg rétt að við þurfum að fylgjast með þeim hlutum sem þar eru að gerast þegar þeir eru í farvatninu þannig að við stöndum ekki eins og illa gerðir hlutir og frammi fyrir algerlega gerðum hlut ef þar er eitthvað það á ferðinni sem við hefðum viljað reyna að hafa einhver áhrif á. Ég tek þar af leiðandi undir þau orðaskipti sem hafa orðið um þau mál og gæti bætt ýmsu við.

Ég held reyndar að það skipulag sem er á þessu í Alþingi sé ekki nógu virkt. Það á að heita svo að utanrmn. fari þar með ákveðið samræmingarhlutverk, getum við sagt, eða yfirhlutverk en staðreyndin er sú að vikum og mánuðum saman ber slík mál alls ekki á góma í þeirri nefnd. Í raun og veru er tæplega hægt að segja að sú vöktun sem þar ætti að vera í gangi og hér af hálfu Alþingis sé á lífi, sé til staðar. Það er ekki nema rétt að nafninu til að hægt sé að segja það. Það er næsta tilviljanakennt af hvaða málum menn frétta og þá á hvaða stigi það er.

Ég tek einnig undir það með hv. ræðumönnum, Margréti Frímannsdóttur og Vilhjálmi Egilssyni, að þörf er á því að hafa upplýsta umræðu um þessi mál í gangi og sömuleiðis þarf Alþingi að taka til skoðunar sitt verklag og skipulag í þessum efnum. Talsverð umræða fór fram um það á sínum tíma þegar menn voru að takast á um Evrópumálin og lögtaka EES-samninginn hvernig væri eðlilegast að standa að þessu í framhaldinu. Rætt var um það hvort koma ætti á fót sérstakri Evrópunefnd sem hefði það hlutverk og það hlutverk eingöngu að fylgjast með þróun réttarins á undirbúningsstigi meðan enn þá væru tækifæri til að koma að einhverjum sjónarmiðum og vera þá í þeirri vöktun með framkvæmdarvaldinu sem er að sjálfsögðu að burðast við að gæta að einhverju leyti hagsmuna sinna með mannahaldi í Brussel o.s.frv. Það er ágætt að fram undan sé ráðstefna til að fara yfir þessi mál.

Það sem ég vil hins vegar aðeins ræða, forseti, er svo efnið sjálft, þ.e. spurningin um fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti milli landa og það sem þar er uppi í Evrópusambandinu því í þeim efnum eru ýmsar blikur á lofti. Það er ekki bara að evran sem slík með tilkomu sinni þýði mjög mikla breytingu því að þar með hverfa þessir hlutir í innbyrðis viðskiptum innan Evrópusambandsríkjanna, þeirra sem tekið hafa upp evruna og eru úr sögunni sem slíkir. Það eru þá ekki lengur gjaldeyrisviðskipti eða fjármagnshreyfingar í hefðbundnum skilningi milli landa nema þá þannig að þær eru í sömu mynt, í sama gjaldmiðli. Hins vegar er líka uppi í Evrópusambandinu mikil umræða um þróunina almennt í þessum efnum og spurninguna um hið óhefta fjármagnsflæði og hið gífurlega magn færslna sem meira og minna rafvædd viðskiptakerfi, sum hálfsjálfvirk, eru farin að bjóða upp á. Þar ber náttúrlega einna hæst umræðuna og deiluna, spurninguna um svonefndan Tobin-skatt eða það hvort eigi að taka slíkt upp í viðskiptum milli landa og á slíkar fjármagnshreyfingar. Þar hafa Frakkar verið í forustu þeirra þjóða innan Evrópusambandsins sem hafa viljað skoða grundvöllinn fyrir því að koma einhverju slíku á. Aðrir berjast hatramlega gegn því og finna því allt til foráttu. Sjálfur er ræðumaður þeirrar skoðunar að óumflýjanlegt sé að reyna að meta hvert þróunin er að bera menn í þessum efnum. Viðvörunarmerkin, sem menn hafa fengið á undanförnum missirum um að þetta kerfi sé að sumu leyti orðið að stjórnlausri ófreskju, sé orðið vettvangur fyrst og fremst spekúlanta og spákaupmennsku, kalli á það að menn setjist yfir þessa hluti. Þá er enginn vafi á því að spurningin um einhverja skattlagningu slíkra viðskipta, þó mjög hófleg væri eins og flestar hugmyndir um Tobin-skatt ganga út á, mundi hafa þarna veruleg bremsuáhrif og gæti þýtt að það auðveldaði mönnum að ná einhverri stjórn á þessum hlutum á nýjan leik.

Varðandi evruna og upptöku hennar hef ég aldrei getað séð að í því væri fólgið neitt einasta vandamál fyrir okkur Íslendinga heldur væri það bara hið besta mál ef þjóðirnar sem eru aðilar að Evrópusambandinu kæmu sér upp þessum sameiginlega gjaldmiðli. Það er alfarið þeirra mál og ef menn eru að stefna þarna á uppbyggingu sambandsríkis sem er nokkuð ljóst að er að gerast, er ekki nema eðlilegt að það nýja ríki, stórríki Evrópu, komi sér upp mynt. En hugmyndir um að aðrir, sem ætla ekki að vera aðilar að ríkinu, geri það einnig eru að mínu mati á misskilningi byggðar. Ég held að línurnar liggi þar að þeir sem ætla að vera með í ríkinu --- nema þá að menn semji sig frá þessu með sérstökum undanþágum eins og einstök lönd hafa gert eða hafa möguleika á að gera --- ráði því sjálfir eftir atvikum hvort þeir vilja vera aðilar að myntinni en aðrir eigi þá fyrst og fremst að líta á þetta sem viðskipti við annað efnahags- og myntsvæði.

Ég held að það sé að mörgu leyti þannig að það einfaldi hlutina fyrir okkur í viðskiptum niðri á meginlandi Evrópu að einstakir gjaldmiðlar þar hverfi og þar verði um eina mynt að ræða og ekki séu í því fólgin nein minnstu rök fyrir okkur til þess hvorki að taka upp evruna né nálgast Evrópusambandið á annan hátt, nema það sé skoðun manna að við eigum að stefna á aðild að Evrópusambandinu. Af þeim ástæðum, herra forseti, er nauðsynlegt að umræðan sé á sæmilega skýrum grundvelli. Það er ekki nóg að ræða þetta og líta á þetta sem einhverja uppfræðslu eða námskeið á grunnskólastigi eða framhaldsskólastigi til að undirbúa menn undir lífið, ef svo má að orði komast, því að við erum komin út í lífið og Ísland stendur þar sem það stendur í þessum efnum. Ég held að það sé ekki mjög skynsamlegt að við látum mikla óvissu vera uppi um það hvernig við ætlum að gæta hagsmuna okkar í framtíðinni, a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð, hvað varðar samskipti við Evrópusambandið. Það er mjög ruglingslegt og eitt af því sem að mínu mati er nauðsynlegt að við getum gefið mjög skýr svör við þegar við erum að eiga samskipti við þessa aðila. Það er hver sé stefna íslenskra stjórnvalda í fyrirsjáanlegri framtíð hvað varðar spurninguna um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu. Það er ákaflega óheppilegt, held ég, að mikil óvissa sé ríkjandi í þeim efnum þegar við getum svarað því skýrt og sagt sem svo: Það er ekki á dagskrá af hálfu íslenskra stjórnvalda að sækja um aðild að Evrópusambandinu, segjum næstu 10 árin, þá hafa menn einhvern grundvöll til að standa á.

Þá kemur næsta spurning: Gott og vel en hvernig ætla menn þá að gæta hagsmuna sinna og þróa þessi samskipti? Þá getum við rætt það í vissu þess að við vitum í grófum dráttum hvernig við stöndum. Er það þróunin á grundvelli EES-samningsins? Eru það breytingar á honum? Eða er um að ræða eitthvert annað form þessara samskipta? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að heppilegast væri að stefna á slíkt, þ.e. einfaldari rammasamninga um viðskipti og samvinnu án þeirrar þungu stofnanauppbyggingar sem EES-samningurinn hefur í för með sér og án þeirrar aðstöðu aðila hvors gagnvart öðrum sem er auðvitað uppi í þeim samningi og verður áfram hvað sem hver segir. Ég trúi því að til þess séu allir möguleikar að þróa samskiptin áfram á góðum grundvelli og í þá veru.

Herra forseti. Þegar menn stilla dæminu þannig upp að við stöndum frammi fyrir einhverjum nauðungarkostum að taka við þessum hlutum alveg eins og þeir koma eða bara vera útskúfuð og útlæg gerð finnst mér það lýsa mjög sérkennilegu viðhorfi til þessa sama Evrópusambands. Nú er ég í sjálfu sér kannski ekki talinn í sérstökum aðdáendaklúbbi þess en ég hef aldrei gefið mér það að þó að við kysum að þróa samskipti okkar á einhverjum öðrum forsendum, sem við teldum okkur sjálfum heppilegust, en þeim að stefna á aðild og heldur en þeim endilega að byggja á jafnþunglamalegu samningsverki og EES-samningurinn er, þá mundi það þýða að við yrðum beittir hörðu og við yrðum bara reknir úr Evrópu eins og mér finnst stundum sumir fjalla um þessi mál.

Auðvitað er margt, herra forseti, sem þetta gefur tilefni til að fara yfir, einnig vegna þeirrar umræðu sem spratt upp áðan milli hv. þingmanna Margrétar Frímannsdóttur og Vilhjálms Egilssonar, en ég fagna því að fram undan sé tilraun til að fara yfir þessi mál af hálfu þeirra nefnda Alþingis sem þarna véla fyrst og fremst um hlutina. Út af fyrir sig væri kannski vel til fundið að hv. efh.- og viðskn. væri aðili að því máli, einnig því að mjög mörg mál, a.m.k. mikið af þessum viðskiptatengdu málum, lenda þangað inn. Það ber að vísu svo vel í veiði að eitthvað af sama mannskapnum mun sitja í báðum ef ekki öllum þessum nefndum, EES/EFTA-nefndinni, utanrmn. og efh.- og viðskn. þannig að það er til þægðarauka. En ég tek svo sannarlega undir það, herra forseti, að ástæða er til að fara yfir þessi mál út frá þessari hlið, þ.e. hvað varðar verklag og skipulag í störfum þingsins. Allt of oft gerist það hér að mál koma hingað inn eiginlega eins og af himnum ofan eða utan úr himinblámanum. Þetta kemur mönnum að óvörum og þá er oftar en ekki viðkvæðið þetta: Ja, þetta er frá Evrópu, þetta er einhver tilskipun og það er ekkert um það að ræða. Þetta verður að samþykkjast eins og það kemur af skepnunni.

Sú var a.m.k. tíðin að menn töluðu mikið um það að við hefðum stöðu til þess að hafa áhrif í þessu ferli og við hefðum jafnvel stöðu til þess að stoppa einstaka hluti af ef við vildum. Það er reyndar þannig að við höfum margfrægt neitunarvald samkvæmt EES-samningnum. En nú sé ég, herra forseti, mér til mikillar furðu að menn eru farnir að fjalla um þá hluti með allt öðrum hætti en áður var gert. Það vill svo til að í fyrramálið verður fundur í utanrmn. þar sem á einmitt að taka til umræðu eitt slíkt tilvik þar sem spurningin kemur upp: Hvaða stöðu hefur eitt EES-land til þess að beita neitunarvaldi gagnvart setningu tilskipunar í Evrópusambandinu þar sem er tilskipun eða reglugerð Evrópusambandsins um aukefni í matvælum? Ýmsar þjóðir bæði innan Evrópusambandsins, eins og Danir og Svíar eftir að þeir urðu aðilar, hafa andæft þeirri tilslökun sem fólgin er í fyrirhugaðri reglusetningu Evrópusambandsins og Norðmenn eru henni mjög andvígir. Þar hefur orðið mikil umræða um það hvort Noregur neyðist ekki til þess að grípa til neitunarvalds í fyrsta sinn og stöðva af á grundvelli neitunarvalds EES-samningsins setningu þessarar reglugerðar.

En þá ber svo undarlega við að ofan frá Íslandi kemur rödd sem telur hið mesta hneyksli að Norðmönnum skuli detta það í hug að beita þessu ákvæði samningsins. Það er hæstv. utanrrh. þjóðarinnar, Halldór Ásgrímsson, sem talar og lýsir því yfir að hann hyggist blanda sér í norsk stjórnmál og reyna að hafa á það áhrif að Norðmenn beiti ekki neitunarvaldinu og talar um að það verði bara stórkostleg katastrófa fyrir hinar samningsþjóðirnar, þ.e. einnig Íslendinga, ef Norðmenn beiti þessum rétti sínum.

Er það þá tilfellið og er það þá niðurstaðan þegar upp er staðið að ef t.d. í þessum reglum frá Evrópusambandinu um tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um peningayfirfærslu á milli landa, eða það frv. sem við ræddum síðast og tengist reglum um skilgreiningu á lausafjárstöðu innlánsstofnana að ef í þessu væru fólgnir hlutir sem mundu koma þungt við okkur Íslendinga í viðskiptalegu tilliti eða kippa fótunum að einhverju leyti undan okkar bankastofnunum, værum við þá í þeirri stöðu sem hæstv. utanrrh. hefur lýst, að í raun og veru þýddi það bara efnahagslega katastrófu ef við reyndum að koma þar einhverjum vörnum við og beittum neitunarvaldi?

Það er ástæða, herra forseti, til þess að ræða þessa hluti vegna þess að við erum með röð af frumvörpum sem eru öll þessu sama marki brennd að þau eru meira og minna sendingar frá Brussel sem við eigum að rúlla í gegnum þingið fyrir jólaleyfið og segja já og amen við. Mér hafa fundist, herra forseti, þessi ummæli hæstv. utanrrh. með þeim merkari og að sumu leyti ískyggilegri sem fallið hafa á haustmánuðum um hluti af þessu tagi. Það veit ekki á gott ef menn nálgast málin með þeim hætti sem raun ber vitni, að okkur séu allar bjargir bannaðar, við séum dæmd til áhrifaleysis í þessu ferli. Ef beita á svo sjálfum neyðarréttinum, sjálfu neitunarvaldinu, sjálfri stóru bremsunni --- handbremsunni held ég að hún hafi einhvern tíma verið kölluð í umræðunum um EES-samninginn á þinginu 1992 til 1993 --- séum við með því í raun og veru að setja okkur sjálf út á guð og gaddinn. Það væri fróðlegt að heyra, herra forseti, hvað hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem er í margföldu hlutverki eins og stundum áður, sem er hér bæði sem formaður og frsm. efh.- og viðskn. en gegnir líka formennsku í EES/EFTA-nefnd Alþingis, hefur að segja um þessi mál og ekki verra tilefni en hvað annað að ræða það í tengslum við þetta frv.