Gjaldeyrismál

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:21:33 (3128)

1999-12-16 14:21:33# 125. lþ. 47.7 fundur 162. mál: #A gjaldeyrismál# (EES-reglur) frv. 128/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ugglaust alveg rétt greining hjá hv. þm. að fyrstu árin eftir að EES-samningurinn tók hér gildi þá voru menn auðvitað mjög uppteknir af því að vinna þar upp langa hala og taka upp réttinn sem fyrir lá í þungum og miklum bunkum af pappír. Það var kannski bæði seinagangur eða bara hreinlega afköst við þýðingar og annað slíkt sem orsökuðu það að þar var mikil töf sem þurfti að vinna upp.

Þegar EES-samningurinn var gerður lá líka fyrir að væntanlegir voru miklir pakkar sem þá þegar höfðu verið unnir en voru á leiðinni eða í pípunum ef svo má segja. Þar af leiðandi er vissulega rétt að nú ættu að vera betri aðstæður til þess að við fylgdumst betur með og værum tímanlegar inni í málum þegar nýir hlutir eru í undirbúningi. Til þess þurfum við þó að skipuleggja okkar störf með tilliti til þess. Þetta mun kosta talsverðan tíma og talsverða athygli og talsverða orku af hálfu Alþingis.

Það geta hreinlega komið upp að mínu mati spurningar eins og þessi: Á Alþingi sjálft að vera með mannskap eða aðstöðu til þess að fylgjast með t.d. í Brussel o.s.frv.? Ég held menn verði ósköp einfaldlega að horfast í augu við það hvað sem líður afstöðu manna til þessara hluta hér og hvort sem menn eru meira eða minna fylgjandi EES-samningnum eða þess þá heldur hvort menn eru sammála um framhaldið, aðild eða ekki aðild, þá erum við í tiltekinni stöðu í þessum efnum og verðum auðvitað að vinna út frá því.

Ég er hins vegar að nokkru leyti ósammála túlkun manna á því hvað felist í neyðarvaldinu, bremsunni. Ég hef litið svo á að þessi samningur sé að formi til samningur hvers einstaks ríkis við Evrópusambandið. Og þó að auðvitað sé ljóst að afleiðing af beitingu réttarins hefur áhrif í þeim skilningi að það stoppar af setningu reglunnar fyrir allt svæðið þá eru það í raun nýjar fréttir fyrir mér, sem ráða mátti af ummælum hæstv. utanrrh. og kannski einnig af ummælum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, að refsiákvæðin gætu bitnað á öðrum en þeim sem grípur til neyðarréttarins. Ég hafði skilið það svo að það væri fyrst og fremst viðkomandi ríki sem ætti þá hluti á hættu.