Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:45:22 (3132)

1999-12-16 14:45:22# 125. lþ. 47.8 fundur 200. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# frv. 99/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hið nýja fjármálaeftirlit hafi öruggan rekstrargrundvöll. Eins og segir í greinargerð með frv. er það einn tilgangur þess að treysta hann og jafnframt að þeir tekjustofnar sem Fjármálaeftirlitið byggir starfsemi sína á séu þannig úr garði gerðir og teknanna þannig aflað að það samræmist öllum góðum venjum sem menn vilja nú í heiðri hafa um slíka hluti.

Ég gerði athugasemdir á sínum tíma, herra forseti, við vissa hluti sem lutu að tilurð Fjármálaeftirlitsins þegar það var sameinað úr bankaeftirliti og eftirliti með tryggingastarfsemi, þar á meðal og sérstaklega var það stjórnskipuleg staða eftirlitsins, tengsl við viðskrn. og slíkir hlutir sem ég man kannski ekki alla til að rifja upp en lutu að þeim þáttum. En það breytir engu um að tilvist þess er staðreynd og að sjálfsögðu mikilvægt að því vegni vel í sínum mikilvægu störfum og þar á meðal er traustur fjárhagslegur grundvöllur undir rekstri þess nauðsynlegur. Ég held að ekkert óeðlilegt sé við það að þeir sem eftirlitið er haft með greiði kostnaðinn og því má að sjálfsögðu koma þannig fyrir að um algjörlega sjálfvirka og fastákveðna gjaldtöku sé að ræða, þannig að allir geti sæmilega við unað og gætt sé jafnræðis með aðilum.

Nú er það að vísu svo, herra forseti, þegar maður lítur yfir það hversu ólíkir hinir gjaldskyldu aðilar eru getur verið býsna vandasamt að ákveða hvernig viðmiðanir skuli teknar til að það komi sæmilega út miðað við það umfang sem eftirlit með viðkomandi starfsemi hefur. Hugsunin er að hér sé um að ræða þjónustugjöld eða hvað við getum kallað það, þetta er ekki skattlagning heldur í rauninni gjaldtaka til að mæta þeim kostnaði og við getum sagt í reynd þeirri þjónustu sem eftirlitið með starfseminni er, því auðvitað er eftirlitið á sinn hátt hluti af heildarstarfrækslu á þessu sviði og það má líta á það sem ,,þjónustu``, innan gæsalappa, að Fjármálaeftirlitið er til staðar. Það skapar traust á þeim aðilum sem þarna eru í viðskiptum sem er síðan eitthvað sem þeir aðilar nýta sér út á við og geta bent á og vitnað til, að rekstur þeirra sé í föstum og góðum skorðum og sæti ströngu eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það er enginn vafi á því að aðilar eins og verðbréfafyrirtæki og viðskiptabankar eru mjög háðir því að geta skapað þetta traust og þessa ímynd á sér og rekstri sínum og þjónustu og þá kemur auðvitað Fjármálaeftirlitið til sögunnar með ákveðnum hætti.

Ég var að reyna að leita að því, herra forseti, mér til upprifjunar og fróðleiks í fylgiskjölum með málinu hvað tekjuöflunin væri upp á háar fjárhæðir sem hér er lögð til grundvallar en sá það hvergi, hvorki í frv., grg. með því né í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem er stuttorð og kveður einungis á um þá niðurstöðu ráðuneytisins að þetta verði ekki til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, að sjálfsögðu ekki. En hvað kostar eða hvað er áætlað að rekstur Fjármálaeftirlitsins kosti í heild sinni t.d. á yfirstandandi eða næsta ári, hversu stórt er þetta batterí orðið? Nokkrar umræður urðu hér um það þegar sameiningin átti sér stað hversu mikið bákn þetta yrði á skömmum tíma eða hvort í því gætu falist það miklir möguleikar til hagræðingar að sameina þetta eftirlit, sem ekki að öllu leyti var og er sjálfgefið að gera, þ.e. að því ættu að fylgja möguleikar til að draga úr kostnaði.

Sjálfsagt er það svo, herra forseti, að menn munu neyðast til þess og er kannski ekki nein sérstök nauð, heldur einfaldlega eðlilegur hlutur að menn munu þurfa að vera með álagningarhlutföllin samkvæmt 5. gr. til endurmats með reglubundnu millibili og er ekkert nema gott um það að segja. --- Hér er mér nú rétt hvorki meira né minna en fjárlagafrv., herra forseti, eftir 2. umr., og þar koma þær gagnmerku upplýsingar fram að Fjármálaeftirlitið eigi að velta til almenns rekstrar 234 millj. kr. á næsta ári og þá er þeirri spurningu svarað og ég þakka hv. þm. fyrir. Þar eru sértekjur færðar upp á 9,6 millj. eða tæpar 10 millj. og síðan er innheimt af ríkistekjum, sem eru þá hinar sérmerktu tekjur tekjustofnsins, aðrar en þessar sértekjur geri ég ráð fyrir, upp á 224 millj. þannig að þær skila að mestu leyti því sem rekstur upp á 234 millj. kostar. Ég þakka fyrir þær upplýsingar. Þetta er orðin þá svona stútungsstofnun, ef svo má að orði komast, sem er farin að velta á þriðja hundrað millj. kr.

Álagningarhlutföllin, herra forseti, eru kannski þrátt fyrir allt það tæknilega vandasama í þessu máli og það sem líklegt er að muni þurfa að koma til endurskoðunar. Ég held að það sé þó sjálfsagt illskásta leiðin til að reyna að stilla af gjaldtökuna gagnvart einstökum aðilum að hafa þetta í formi einhvers konar álagningarhlutfalla. Það hefur mikla kosti að hafa þannig sjálfvirkan útreikningsstuðul, en þá og því aðeins að mönnum hafi tekist vel til með að finna þar hóflegar viðmiðanir. Ég held að fyrra fyrirkomulag um einhvers konar hámarksálagningu hafi að mörgu leyti verið gallað. En aðalatriði málsins er, herra forseti, að það er alveg skýrt að hér er ekki um skattlagningu að ræða, hér á ekki að vera um tekjuöflun í hefðbundnum skilningi þess orðs að ræða, heldur gjaldtöku vegna kostnaðar sem til fellur við eftirlitið, í raun og veru er eins konar þjónustugjald þarna á ferðinni og ber því að reyna að stilla það af þannig að það sé sem næst kostnaðinum hverju sinni.

Herra forseti. Það má alveg ætla að Fjármálaeftirlitið gæti komið til með að hafa ærið að starfa á næstu missirum miðað við ýmsar sviptingar sem þar eru í farvatninu, sameiningu stofnana, breytt eignarhlutföll og guð má vita hvað. Við slíkar aðstæður gætu vaknað spurningar hvort ekki gæti tímabundið verið þörf fyrir aukna starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem ekki væri mætt af sambærilegum tekjuauka, innan árs eða eitthvað því um líkt ef sérstakar aðstæður eru uppi. Það mætti vel hugsa sér að reka þetta þannig að það væri borð fyrir báru og þá kannski í formi varasjóðs eða möguleika eftirlitsins til að vera með ákveðinn sveigjanleika í starfsemi sinni þegar slíkar aðstæður eru. Kannski lenda slíkir hlutir í öðrum tilvikum ekkert síður og jafnvel meira á borði samkeppnisyfirvalda ef þvílíkir hlutir eru farnir að valda mönnum áhyggjum og e.t.v. ekki mikil hætta á því að Fjármálaeftirlitið vegna þeirra grunnþátta í starfsemi fjármálastofnananna sem það er fyrst og fremst að sinna eftirliti gagnvart verði þarna fyrir miklum búsifjum.

Herra forseti. Þó að ég hafi haft fyrirvara á um stofnun þessa fyrirbæris á sínum tíma, eða vissa þætti sem því máli tengdust, þá styð ég það að sjálfsögðu að hlutir sem lúta að rekstrargrundvelli þess og færa innheimtu tekna til betri vegar nái fram að ganga.