Tollalög

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 14:58:33 (3134)

1999-12-16 14:58:33# 125. lþ. 47.9 fundur 209. mál: #A tollalög# (tölvuvædd tollafgreiðsla) frv. 109/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að óhætt sé að segja að mikill einhugur hafi verið í hv. efh.- og viðskn. um þá breytingu sem hér er lögð til og hv. formaður nefndarinnar lagði til. Þetta eru að vísu orðin nokkuð gömul lög sem hér er verið að biðja um ársfrest á framkvæmd á, þau voru lögfest 1996, en þá voru gerðar umfangsmiklar breytingar á ákvæðum tollalaga og lögfest ákvæði um tölvuvædda tollafgreiðslu sem í lögunum er nefnd SMT-tollafgreiðsla og kveðið var á um að tekin skyldi upp alsjálfvirk tölvuvædd tollafgreiðsla hjá aðilum sem stunda inn- og útflutning í atvinnuskyni. Það er ýmislegt út af fyrir sig sem mætti segja um þetta. Það er alveg ljóst að þetta getur verið mjög íþyngjandi kvöð sem þarna hefur verið sett á smá- og meðalstór fyrirtæki og það kemur reyndar fram í umsögn frá fjmrn. þar sem verið er að rökstyðja þessa breytingu, en það segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að 100--200 meðalstór og smærri fyrirtæki með frá 5--200 tollskýrslur í innflutningi á ári munu ekki vera tilbúin eða að búið verði að ljúka prófunum vegna gangsetningar þeirra í SMT.``

Síðan segir: ,,Heyrst hefur að ýmis þessara fyrirtækja telji stofnkostnað of háan til þess að réttlæta fjárfestingu í slíkum búnaði og vilja jafnframt ekki leggja kostnað í að kaupa þjónustu hjá flutningsmiðlurum. Almennt reikna þessi fyrirtæki sér ekki kostnað við tollskýrslugerð eða hlaup milli bæjarhluta með skjöl og valda þar með viðbótarkostnaði hjá tollstjóra vegna innsláttar á tollskýrslu o.fl.

Nokkuð hefur borið á því að fyrirtæki geri sér vonir um að einfaldari og ódýrari lausn sé hugsanlega í farvatninu og vilja því bíða. Ekkert er endanlega ljóst með kostnað og lausnir í þeim efnum og það þarf að kanna slíka möguleika frekar áður en hægt er að gefa sér niðurstöðu og að líkindum ekki fyrr en á næsta ári.``

Þetta er nokkur kjarnapunktur, herra forseti, í málinu. Mjög dýrt er fyrir þessi smærri fyrirtæki að koma sér upp nauðsynlegum búnaði í þessu efni og því eðlilegt og rétt að fresta gildistökunni og gefa málinu ársfrest eins og fjmrh. fer fram á í frv. Vonandi hefur tækninni þá fleygt það fram og hún orðin kannski eitthvað ódýrari þannig að viðráðanlegra verði fyrir smærri fyrirtæki, sem eiga í erfiðleikum með að koma sér upp slíkum búnaði, að gera það.

En það vakti líka athygli mína að í umsögn frá Tollvarðafélaginu stendur að jafnvel þó að þessi lög séu búin að gilda frá 1996, þó Tollvarðafélagið tæki ekki efnislega afstöðu til málsins, þá segir hér, með leyfi forseta, að líklega sé um eðlilega ákvörðun að ræða gagnvart félagsmönnum Tollvarðafélagsins þar sem nú, tæpum fjórum vikum fyrir gildistöku skjallausrar tollafgreiðslu, hafi lítil sem engin kynning verið fyrir tollverði almennt og enn sé beðið eftir verklagsreglum og vinnureglum vegna framkvæmda tolleftirlitsins.

Þó að það væri ekki nema vegna þessa, að enginn undirbúningur hefur farið fram, jafnvel þó að þessi lög séu búin að gilda í fjögur ár þá er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að verða við því sem hæstv. fjmrh. leitar eftir hjá hv. Alþingi, þ.e. að fresta gildistöku þessara tollalaga.