Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:14:12 (3138)

1999-12-16 15:14:12# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er alltaf álitamál hvenær gefa á undanþágur frá sköttum og má vel spyrja sig hvort eðlilegt sé að undanþiggja verðlaunaveitingar og verðlaun sköttum fremur en launatekjur eða aðrar tekjur. Engu að síður hefur sú hefð skapast, og byggir það reyndar á samningum á milli norrænna þjóða, að veita undanþágu frá sköttum á norrænum verðlaunum. Ég styð fyrir mitt leyti að það verði gert, bæði vegna þess að þetta byggir á samkomulagi milli þjóðanna og þetta er ákveðinn virðingarvottur sem menn eru að sýna, þótt mér finnist persónulega virðing geta falist í því að greiða skatta til ríkisins þannig að ég styð þetta í grundvallaratriðum. Það sem þetta mál fjallar í raun um er að fara að stjórnarskrá landsins sem takmarkar heimildir ráðherra til að ákvarða fjárútlát á annan hátt en með beinni lagasetningu, þótt ég vilji reyndar vekja athygli á því að í fjárlögum ríkisins er að koma upp ákveðin mótsögn í þessu efni, vegna þess að í fjárlögunum er gert ráð fyrir auknum safnliðum, heimildum til einstakra ráðuneyta til ráðstöfunar. Þótt stjórnarskráin sé að herða eftirlit þannig að raunverulega sé kveðið á um það í lögum hvernig skattpeningum er ráðstafað eru menn samhliða smásparðatíningi af þessu tagi að víkka út valdsvið einstakra ráðuneyta til þess að útdeila peningum. Á fjárlögum er gert ráð fyrir sístækkandi safnliðum til ráðuneytanna, jafnvel svo milljörðum skiptir til einstakra ráðuneyta til úthlutunar þannig að í þessu er náttúrlega ein bullandi mótsögn.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hafa ýmis samtök listamanna gagnrýnt að verið sé að skerða heimildir til skattundanþágu. Að mínum dómi er svo í reynd ekki því þau verðlaun sem hafa verið í reglugerð, en er ekki að finna í þessum lögum, eru ekki peningaverðlaun þegar allt kemur til alls. Síðan er alltaf sá möguleiki fyrir hendi, eins og reyndar segir í greinargerð með frv., að setja lög um frekari skattafslátt.

Á þeirri forsendu að ekki sé verið að skerða þær heimildir sem hafa verið fyrir hendi í reynd leyfi ég mér að styðja þetta frv. en það væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. fjmrh. á þeirri bullandi mótsögn sem er annars vegar fólgin í því að taka upp smávægilegar og lágar fjárveitingar af þessu tagi og festa í lög um leið og í fjárlögunum er að finna sístækkandi safnliði þar sem einstökum ráðuneytum er gefinn laus taumurinn og frjálsræði um ráðstöfun fjármunanna. Þetta er hrópandi mótsögn að mínum dómi.

En hvað þetta tiltekna frv. snertir þá styð ég það.