Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:22:22 (3143)

1999-12-16 15:22:22# 125. lþ. 47.10 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í frammíkalli hæstv. fjmrh. við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur komu áðan fram ýmis vafaatriði varðandi nál. og þær upptalningar sem hún var með. Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann tekur undir þá skoðun sem fram kemur í nál., að gerð verði heildarúttekt á innlendum og erlendum verðlaunum þar sem kannað verði hvort ástæða sé að undanþiggja fleiri verðlaun skattskyldu en frv. gerir ráð fyrir. Eins vildi ég vita hvort hann teldi rétt að þingið fjallaði sérstaklega um það, ef til slíkra ákvarðana kæmi, að veita sambærileg verðlaun og þau sem getið er um í þessu frv. Ég vildi gjarnan heyra skoðun hæstv. ráðherra á þessu, ekki síst vegna þess að undirritun okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar í nefndinni er bundin því að við þetta verði staðið.