Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:30:46 (3148)

1999-12-16 15:30:46# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem vissulega hafa verið allmargar í gegnum tímans rás og er ekkert í sjónmáli að verði lát á því.

Frv. sem hér liggur fyrir fjallar um það að millifæranlegur persónuafsláttur milli hjóna verði smám saman 100%, þ.e. að persónuafslátturinn verði millifæranlegur að fullu. Nú eru lögin þannig að aðeins 80% af persónuafslættinum eru millifæranleg milli hjóna. Nefndin fjallaði um þetta mál, sendi það til umsagnar og fékk á sinn fund aðila sem getið er í nefndarálitinu.

Gerð er tillaga um breytingu á frv. sem stafar fyrst og fremst af því að mistök urðu við samningu þess. Þannig er að með frv., eins og það yrði að samþykktri brtt. nefndarinnar, mundi strax verða tekið tillit fyrsta áfanga í hækkun á millifæranleika persónuafsláttar í staðgreiðslu á næsta ári, á árinu 2000, þ.e. að við álagningu tekjuskatts á árinu 2001 vegna tekna á árinu 2000 verður 80% af afslættinum millifæranlegur. Það þýðir að strax á árinu 2000 verður hægt að taka tillit til þess í staðgreiðslu að 85% af persónuafslættinum yrði millifæranlegur. Þetta hafði einfaldlega ruglast við samningu frv. upphaflega en með þeirri breytingu sem nefndin leggur til er þessu komið í rétt horf miðað við þá ætlan sem í frv. var.

Nefndin gerir sem sé tillögu um það að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hún leggur fram.