Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:10:12 (3153)

1999-12-16 16:10:12# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að það mætti taka sérstaklega á hvað varðar kjör og skattlagningu margra hópa í þjóðfélaginu. Það er auðvitað verið að gera það. Þetta eru ekki nema um 19 þúsund hjón eða fólk í sambúð sem koma til með að nýta sér þær breytingar sem frv. sjálft felur í sér. Eins og ég hef margsagt eru yfir 8 þúsund einstæðir foreldrar sem telja fram á síðasta ári, en hér er aðeins um að ræða úrbætur fyrir 1.927 einstæða foreldra, sem fá þessar sérstakar viðbótarbarnabætur upp á 31 þús. og hækkar það um 20 þús. kr., sem kostar 45 millj. Aðrar eins breytingar hafa nú verið gerðar á fjárlögum íslenska ríkisins og það að taka inn tillögu sem felur í sér viðbótarútgjöld upp á 45 millj. og ég býst við að þær forsendur sem við höfum rætt hér fram og til baka fyrir fjárlögunum gefi svo sem vonir um að þarna verði um tekjuafgang að ræða sem menn hafa ekki séð fyrir sem gæti dekkað þessa upphæð, þó tvöföld eða þreföld væri og jafnvel tíföld eða meira.

En við leggjum eindregið áherslu á það að sjálfsögðu að þessi tillaga verði afgreidd þannig að einstæðir foreldrar eigi sama rétt og aðrir til að fá úrbætur í samræmi við það sem gerist í þeirri breytingu sem frv. ríkisstjórnarinnar felur í sér.