Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:12:14 (3154)

1999-12-16 16:12:14# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki mikið að bæta við það sem fram kom hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur sem skýrði vel sjónarmið okkar fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni. Ég taldi þó rétt að standa hér upp vegna þeirrar brtt. sem við flytjum þar sem það eru nokkur atriði til viðbótar því sem hv. þm. nefndi sem ég taldi rétt að koma á framfæri, ekki síst í ljósi þess sem fram kom í andsvörum hjá hæstv. ráðherra.

Það olli mér vissulega vonbrigðum að hæstv. ráðherra skyldi setja fyrir sig formið á þessu máli og tæknilegar hindranir í því sambandi fremur en að ræða um efni brtt., sem hann að vísu fór nokkuð inn á í síðara andsvari sínu. Ég held að í þessu efni sé vilji allt sem þarf vegna þess að það eru alveg örugglega mörg fordæmi um það á þessu þingi og hægt að grafa það upp að fluttar hafi verið brtt. við 2. umr. mála sem ekki beinlínis voru beintengdar við ákvæði frv. sem á hverjum tíma er verið að flytja. Fyrir utan það, herra forseti, ef viljinn væri fyrir hendi til að taka inn slíka brtt. --- og hæstv. ráðherra ber fyrir sig að tillagan fái ekki eðlilega þingskapalega umræðu af því að eina umræðu vanti upp á það, þá er auðvitað ekkert í vegi fyrir því að forseti úrskurði þá að málið skuli fara í þrjár umræður. Það er auðvitað ekkert í vegi fyrir því að við sitjum undir slíkri umræðu ef vilji væri fyrir hendi.

Herra forseti. Umhugsun um stöðu einstæðra foreldra vaknar óhjákvæmilega upp í tengslum við frv. um heimild hjóna eða sambýlisfólks til þess að nýta að fullu óráðstafaðan eða ónýttan persónuafslátt barna. Ég hef í gegnum árin flutt frv. um að heimila einstæðum foreldrum að nýta óráðstafaðan persónuafslátt barna sinna upp að ákveðnum aldri. Og nú þegar svigrúm skapast til þess að heimila hjónum og sambýlisfólki að nýta að fullu ónýttan persónuafslátt þá vaknar auðvitað þessi umræða, hvort ekki sé rétt á sama tíma að gera eitthvað fyrir einstæða foreldra.

Margir hafa talað fyrir því að hjón og sambýlisfólk eigi að geta nýtt ónýttan persónuafslátt að fullu, að það eigi að vera eðlilegt svigrúm fyrir annan hvorn makann að vera heima til að vera hjá börnum. Þetta eru sjónarmið sem mér finnst mjög rétt og eðlileg. Ég styð þetta frv., ég vil taka það fram svo það valdi ekki misskilningi. En það kemur fram í útreikningi á ónýttum persónuafslætti hjóna eða sambýlisfólks við álagningu árið 1999, að rúmlega helmingur þeirra sem eru með ónýttan persónuafslátt er ekki með barn á framfæri. Þetta hlýtur að kalla líka á það að við berum aðeins saman stöðu einstæðra foreldra sem ekkert fá vegna þess skattalega svigrúms sem ríkisstjórnin telur sig hafa, sem ekkert fá við þessa breytingu og þá fyrstu breytingu sem ríkisstjórnin gerir á skattalögunum á nýju kjörtímabili, og menn reyni að skoða hvort ekki sé hægt á sama tíma að gera eitthvað fyrir einstæða foreldra.

[16:15]

Ný skýrsla sem við höfum fengið hér á þingi, sem enn er órædd og sjálfsagt verður ekki tími til að ræða fyrr en þing kemur saman að loknu jólahléi, staðfestir raunverulega fátækt einstæðra foreldra. Í því sambandi má bera saman tekjur, atvinnutekjur, ráðstöfunartekjur og meðalheildartekjur einstæðra foreldra við tekjur hjóna sem nú fá mörg hver skattalegt hagræði af breytingunni sem við ræðum hér.

Meðalheildartekjur einstæðra foreldra árið 1997 voru 1.440 þús. kr. en hjóna og sambýlisfólks 3.563 þús. kr. sem er 2,5 sinnum hærra. Ef við lítum á tekjurnar þá voru hjón með 250% hærri árstekjur en einstæðir foreldrar. Ef við tökum meðalráðstöfunartekjur, sem er kannski eðlilegri viðmiðun, þá voru einstæðir foreldrar á árinu 1997 með helmingi lægri ráðstöfunartekjur en hjón voru með árið 1997 eða 1.483 þús. kr. Þetta tek ég fram vegna þess að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn virðist ekkert ætla að gera fyrir einstæða foreldra nú þegar skattalegt svigrúm skapast til þess.

Við skoðuðum þetta mál í efh.- og viðskn. og fengum m.a. útreikninga fjmrn. á ónýttum persónuafslætti einstaklinga 16--20 ára. Þar kemur fram að ef hann er miðaður við 16 ára aldurinn og fram til 20 ára aldurs, að báðum árum meðtöldum, þá er ónýttur persónuafsláttur þessara einstaklinga tæpir 2 milljarðar eða 1.933 milljónir. Ef við miðum við 16--18 ára aldurinn, ónýttan persónuafslátt einstaklinga á þeim aldri, þá hafa 10.400 einstaklingar á aldrinum 16--18 ára ónýttan persónuafslátt sem nemur 1,5 milljörðum kr. Það mundi sennilega kosta um 800 milljónir ef heimilt væri að nýta ónýttan persónuafslátt barna á aldrinum 16--18 ára. Ef það væri einskorðað við einstæða foreldra þá værum við sennilega að tala um sömu fjárhæð, um 400 milljónir sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. ætla nú að setja til að hægt sé að heimila að fullu að nýta persónuafslátt hjóna. Þetta er því líka spurning um forgang og það að meta stöðu hópa í ákveðnu skatta- og tekjusamhengi þegar við höfum skattalegt svigrúm til þess að gera betur við ákveðna þjóðfélagshópa eins og hér er verið að gera og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir rakti og vitnaði þar til umsagnaraðila sem komu á fund nefndarinnar.

Þess vegna, herra forseti, höfum við leyft okkur að flytja hér litla brtt. Hún gengur út á að þessar sérstöku viðbótarbarnabætur, sem eru nú fyrir hendi og eru ekki háar, þær eru um 31 þús. kr. á ári, verði hækkaðar lítillega. Þær ganga til einstæðra foreldra með tvö börn yngri en sjö ára á sínu framfæri. Þar erum við að tala um 20 þús. kr. á ári. Einstæðir foreldrar sem fá viðbót vegna barna umfram eitt yngra en sjö ára eru 1.927 og fá þeir hana vegna 2.247 barna. Þetta kostar ekki mikið vegna þess að samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. mundi kostnaður við þessa hækkun nema um 45 millj. kr. á ári. Ég held að þar muni ekki voðalega miklu fyrir stöðu ríkissjóðs eða efnahagshorfur eins og við sjáum þær fram undan, þó að rétt fyrir jólin, í 23 milljarða tekjuauka umfram fjárlagafrv. árið 1999, yrðu veittar 45 millj. kr. til einstæðra foreldra með þessi 2.247 börn á framfæri sínu.

Þess vegna er tillagan flutt, herra forseti. Við í minni hluta efh.- og viðskn. erum hér að freista þess að ná fram smákjarabót fyrir einstæða foreldra sem eru með tvö börn á framfæri sínu yngri en sjö ára.

Herra forseti. Lokaorð mín eru þau að viðbrögð hæstv. fjmrh. við þessari tillögu valda mér miklum vonbrigðum og tala ég þar örugglega fyrir munn einstæðra foreldra sem margir búa við mikla fátækt. Þessi viðbrögð hæstv. ráðherra hljóta líka að valda þeim miklum vonbrigðum.