Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:24:29 (3156)

1999-12-16 16:24:29# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Æ, æ. Mikil lifandis skelfingar ósköp er oft erfitt að skilja hv. síðasta ræðumann. Útúrsnúningarnir sem hann stundum getur látið renna upp úr sér í þessum ræðustól. Hvenær hef ég verið að taka upp hanskann fyrir Kaupþing? Þetta er bara bull hjá hv. þm.

Nú vil ég leggja fyrir þingmanninn eina spurningu af því hann virðist vera mjög mikið á móti einstæðum foreldrum, það hefur ítrekað komið í ljós í þessum ræðustól undanfarin ár. Hér kemur fram og er staðfest í skýrslu sem félmrh. hefur lagt fyrir þingið að meðalráðstöfunartekjur einstæðra foreldra árið 1997 voru helmingi lægri en ráðstöfunartekjur hjóna. Þá tökum við með barnabætur og allt sem fólkið fær. Yfirleitt eru ráðstöfunartekjur þeirra ekki nema 50--70 þús. kr. og varla ætlast hv. þm. til þess að einstæðir foreldrar borgi skatt af því. Þetta eru helmingi lægri ráðstöfunartekjur, þegar allt er tekið með, en er hjá hjónum --- um 1.400 þúsund á ári, liðlega 100 þús. þá á mánuði. Treystir hv. þm. sér, einn með tvö börn, að lifa af 100 þús. kr. á mánuði? Hvað þá af 70 þús. kr. sem sumir hafa? Getur hv. þm. gefið þessu fólki uppskrift að því hvernig lifa á út mánuðinn á 70 þús. kr., fólki sem kannski er ekki í eigin íbúð og þarf að borga 50--60 þús. kr. í húsaleigu? Þessi þingmaður ætlast auk þessa til, eins og fram kom hjá honum hér áðan, að þetta fólk borgi skatt.

Þetta fólk sveltur, herra forseti, margir hverjir einstæðra foreldra. Það staðfestir þessi skýrsla. Mér finnst það til skammar að hv. þm. skuli senda einstæðum foreldrum, sem varla eiga til hnífs og skeiðar nú rétt fyrir jólin gusu eins og hann sendi hér áðan.