Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:39:35 (3160)

1999-12-16 16:39:35# 125. lþ. 47.12 fundur 25. mál: #A innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta# (EES-reglur) frv. 98/1999, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Undir þetta nál. rita reyndar fjórir nefndarmenn með fyrirvara, þau hv. þm. Pétur Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson. Fyrirvari þeirra mun væntanlega koma fram er þau gera grein fyrir máli sínu á eftir.

Frv. þetta gengur út á í fyrsta lagi að sameina Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða, þó með því að settur er upp sérstakur lánasjóður sem tengist sparisjóðadeildinni. Í öðru lagi er það nýmæli að tekið er upp sérstakt tryggingakerfi vegna verðbréfaviðskipta.

Þetta frv., ef að lögum verður, mun leysa af hólmi þau lög sem gilda núna um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða. Það var líklega 1996 sem þessum lögum var breytt síðast og þá var mikil umræða um það sameina Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða. Af því varð ekki vegna þess að það náðist ekki samkomulag um ýmis atriði sem skiptu máli í því sambandi. Því er það fagnaðarefni að nú skuli hafa tekist að ná öllum fjármagnsmarkaðnum saman í einn tryggingarsjóð. Það styrkir einfaldlega alla þessa starfsemi og gefur sjóðnum þá meiri möguleika til þess að grípa inn í ef á þarf að halda. Vonandi verður þetta samt sjóður sem getur safnast upp og aldrei þarf að greiða úr. Reynslan sýnir þó að óvarlegt er að gera ráð fyrir því. Þess vegna er þetta tryggingakerfi sett á fót og reynt að haga því þannig að það sé með eðlilega tryggingafræðilega stöðu gagnavart þeirri áhættu sem er í þessum viðskiptum.

Nefndin sendi þetta mál til umsagnar þeirra aðila sem við þetta þurfa að búa eða hafa skoðun á þessu og fékk umsagnir og kallaði menn á sinn fund. Lagðar eru til breytingar á frv. af hálfu nefndarinnar. Þessar breytingar eru í fimm liðum.

Í fyrsta lagi er það varðandi 4. gr. frv. sem snýr að skipan stjórnar og ráðningu framkvæmdastjóra. Gert er ráð fyrir því að viðskiptaráðherra tilnefni fulltrúa innstæðueigenda og fjárfesta sem áheyrnaraðila með málfrelsi og tillögurétt í stjórn sjóðsins, til að þeir geti fylgst með starfsemi hans. Reiknað er með því að slíkur fulltrúi komi frá Samtökum fjárfesta. Enn fremur er gert ráð fyrir því að stjórn sjóðsins skuli á a.m.k. tveggja ára fresti gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins skv. 6. og 7. grein. Í því felst að stjórn sjóðsins meti á grundvelli tryggingafræðilegra forsendna stöðu sjóðsins og gefi út formlegt mat á því hvort hún telji að eignir sjóðsins séu nægar og ef ekki þá hverjar þær þurfi að vera til þess að þær teljist nægilegar. Það fari sem sé fram einhvers konar formlegt tryggingafræðilegt mat á vegum stjórnarinnar sem verði síðan sent formlega til ráðherrans.

Í 2. lið brtt. er gert ráð fyrir breytingu á 6. gr. en meginefni þeirrar brtt. er að kveða nánar á um ábyrgðaryfirlýsingar sem gefnar eru út ef þarf að greiða inn í sjóðinn. Í frv. er 6. gr. ekki með neinni nákvæmri lýsingu á ábyrgðaryfirlýsingunni en í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir því að nokkuð ítarlega sé kveðið á um það hvernig ábyrgðaryfirlýsingu skuli háttað.

Þriðji liður brtt. snýr enn fremur að því sama en nú gagnvart verðbréfafyrirtækjum en ekki bönkum en er sambærilegs eðlis.

Við 4. lið brtt. er gert ráð fyrir því að ef aðildarfyrirtæki sinnir ekki skyldum sínum gagnvart sjóðnum sé hægt að beita dagsektum og síðan afturkalla starfsleyfi þeirra ef sektirnar skila ekki tilætluðum árangri. Ef aðildarfyrirtæki uppfyllir ekki skyldu sína gagnvart sjóðnum samkvæmt lögum þá skal stjórn hans tilkynna ráðherra og Fjármálaeftirlitinu. Þá fer í gang ferli þar sem reynt er að fá viðkomandi aðila til að bæta úr en sé það ekki gert getur stjórn sjóðsins að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins lagt dagsektir á fyrirtækið. Þær geta numið 50--500 þús. kr. á dag.

Í 5. lið brtt. er kveðið hreint á um að sjóðurinn yfirtaki þá eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða. Tryggingarsjóður viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða verði bæði lögð niður frá þeim tíma en lánadeild sem hefur starfað á vegum sparisjóðanna mun starfa áfram.

Þetta eru þær breytingar á frv. sem boðaðar eru af hálfu nefndarinnar. Mál þetta var allmikið rætt í nefndinni og um þær breytingar sem hér eru lagðar fram varð samstaða en hins vegar lýsti ég því fyrr að hv. nefndarmenn hafa nokkra fyrirvara sem koma þá fram í brtt. sem þeir flytja.