Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 17:38:02 (3168)

1999-12-16 17:38:02# 125. lþ. 47.13 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil upplýsa hæstv. fjmrh. um að ég sit alltaf sömu megin borðsins.

Ég furða mig svolítið á þessum orðhengilshætti sem hér kemur fram í málflutningi hæstv. fjmrh. Ég hef aldrei neitað því að Alþingi Íslendinga hafi vald til þess að setja lög og breyta lögum ef því er að skipta. Ég er að vísa til þess að á sínum tíma var gert samkomulag (Fjmrh.: Það var efnt.) milli þriggja aðila. (Fjmrh.: Það er búið að efna það.) Það var efnt en nú er við að rifta því. Nú er verið að rifta því einhliða. Þetta eru leikreglur sem gilda milli þessara aðila um hvernig haga skuli kjaradeilum (Fjmrh.: Þá má Alþingi ekki breyta því?) og verkföllum ef því er að skipta. Alþingi má breyta því. Kannski átti ég ekki að tala um samningsbrot. Kannski átti ég að tala um drengskaparbrot.

Ég harma þann orðhengilshátt og þá útúrsnúninga sem koma hér frá hæstv. fjmrh. í þessu máli. En það má hann vita að verði reynt að fara fram með þessum hætti í samskiptum við launafólk á Íslandi þá lofar það ekki góðu.