Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 18:12:26 (3175)

1999-12-16 18:12:26# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim viðhorfum sem hv. þm. Ólafur Örn hefur hér talað fyrir og hann hefur talað fyrir þeim oftar en einu sinni á hinu háa Alþingi. Það málefni sem hann ræddi var það málefni sem mest var rætt í hv. allshn. og einkum út frá því hvort rétt væri að setja ákvæði þess efnis sem hv. þm. talaði fyrir inn í þetta frv. eða hvort því væri betur fyrir komið í frv. til laga um staðfesta samvist.

Það liggur fyrir að nefndin ræddi það sín á milli og komst að samkomulagi um að það yrði ekki gert að þessu sinni en jafnframt að hæstv. dómsmrh. muni nú eftir áramót leggja fram frv. um staðfesta samvist og að þá verði væntanlega opnað á það hér við afgreiðslu þess á vordögum að það ákvæði sem hv. þm. talaði fyrir verði að lögum í vor. Ég vænti þess, virðulegi forseti, að svo geti orðið. Mér fannst örla ögn á því í ræðu hv. þm. að þetta væri út af borðinu. Svo er alls ekki. Það er samkomulag í nefndinni um að fara með málið á þennan hátt og ég trúi ekki öðru, fyrr en ég tek á því, en að það muni standa hér.