Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:02:27 (3198)

1999-12-16 19:02:27# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:02]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mig langar sem starfandi formaður allshn. að hafa hér nokkur orð í lokin og þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hefur farið fram um frv. enda er þetta gott mál og um það eru allir sammála. Ég tel að við hv. þm. í allshn. höfum alveg vitað hvað við vorum að gera og við fórum ákaflega vel yfir alla þætti málsins og ekki síst yfir þann þátt málsins sem kannski snerti ekki frv. og þá er ég að tala um ættleiðingar samkynhneigðra. Að sjálfsögðu snerta þau málefni frv. óbeint en ekki beint að okkar mati og þess vegna er þetta niðurstaðan.

Ég vil halda því fram að mjög góður hugur hafi verið í nefndinni gagnvart því málefni sem varðar samkynhneigða og mikil samstaða og það finnst mér mjög mikilvægt. Ég held að við höfum öll þroskast svolítið við þessa umræðu og ég viðurkenni það með sjálfa mig og skammast mín ekki fyrir að segja að ég gerði það og ég held að það sé mikilvægt. Ég vona að sú umræða sem fór fram í nefndinni og sú umræða sem nú fer fram hér í þingsal hv. Alþingis geti orðið til þess að breyta hugsunarhætti vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða. Við sem sitjum í allshn. teljum að við höfum komið málinu í ákveðinn farveg og það vil ég meina að séu aðalskilaboðin frá Alþingi og það séu jákvæð skilaboð að málið sé í farvegi. En auðvitað getum við ekki sagt á þessari stundu hver niðurstaðan verður vegna þess að það er alltaf Alþingi sem ákveður og í dag er ómögulegt að fullyrða að þetta verði samþykkt. Það er ekki fyrr en hv. þingmenn hafa stutt á takkana sem það liggur fyrir. En við trúum því að málið sé að vinna sér fylgi almennt og það er gott.

Ég vil ekki að fólk trúi því að einhver hafi látið kúga sig og að hugrekki skorti í þessu máli. Við litum einfaldlega þannig á, og gerum það, að með því að hafa málsmeðferðina sem raun ber vitni þá séum við að vinna málstaðnum gagn. Það er aðalatriðið og það vil ég hafa mín lokaorð.