Skráð trúfélög

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:21:56 (3205)

1999-12-16 19:21:56# 125. lþ. 47.16 fundur 69. mál: #A skráð trúfélög# (heildarlög) frv. 108/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:21]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að mæla fyrir brtt. við það frv. til laga sem hér er til umræðu. Þetta frv. sem væntanlega verður að lögum fjallar að verulegu leyti um skilgreiningar og mín brtt. lýtur að skilgreiningum.

Í 3. gr. frv. er fjallað almennt um skilyrði til skráningar trúfélaga og þar segir, með leyfi forseta:

,,Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.``

Ég er með tillögu um breytingu við þessa grein sem er svohjóðandi, með leyfi forseta:

,,Skilyrði fyrir skráningu félags samkvæmt lögum þessum er að það leggi stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sterkar sögulegar eða menningarlegar rætur eða sinni samsvarandi trúarlegum eða félagslegum skyldum og hafi unnið sér sess.``

Hér er verið að víkka hugtakið allnokkuð en eins og við vitum gegna trúarbrögðin tvíþættu hlutverki. Annars vegar trúarlegu, fyrir einstaklinginn, og hins vegar samfélagslegu. Þannig er kirkjan samfélagsstofnun sem gegnir ýmsum skyldum og veigamiklu hlutverki í samfélagi okkar og lífi.

Í lífi þorra Íslendinga gegnir þjóðkirkjan félagslegu hlutverki og á opinberum vettvangi hefur hún slíka stöðu. En aðrir aðilar eru einnig að koma til sögunnar, bæði kristilegir söfnuðir og aðrir, múhameðstrúarmenn, búdda, brama og þar fram eftir götunum. En önnur félög gegna einnig þessum félagslegu skyldum, þessu samfélagslega hlutverki. Þannig tíðkast t.d. borgaralegar fermingar svo að eitthvað sé nefnt. Ég vil víkka þessa skilgreiningu og tillagan snýr að því.

Er þetta þá opið og sveigjanlegt og teygjanlegt á alla lund? Já, það er það en þannig er lagagreinin eins og tillaga er gerð um núna. Hún er mjög sveigjanleg. Þar segir:

,,Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.``

Þetta er mjög opið og mjög teygjanlegt. En menn hafa ekki miklar áhyggjur af því vegna þess að til sögunnar er kallaður aðili sem á að túlka þessar lagaheimildir. Í 4. gr. frv., 4. lið, segir um þann aðila, með leyfi forseta:

,,Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags skal leita álits nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipar á eftirfarandi hátt: Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félagsvísindadeild Háskóla Íslands og sá þriðji tilnefndur af guðfræðideild Háskóla Íslands.``

Mér finnst heldur þröngt skipað í nefndina, að einvörðungu þessir aðilar komi þar við sögu. Sannast sagna finnst mér álitamál að guðfræðideild háskólans skipi í þessa nefnd. Ég nefni þetta aðeins til að skýra hvers vegna það er ekki endilega mikil hætta í því fólgin að hafa lagaheimildina um skilgreiningu á trúfélögum allrúma.