Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 10:47:00 (3210)

1999-12-17 10:47:00# 125. lþ. 48.6 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að þessi brtt. nái fram að ganga. Þær lagabreytingar sem hér liggja fyrir fela það í sér að líta beri á hjón sem skattalega einingu í ríkari mæli en þó hefur verið með því að gera persónuafslátt að fullu millifæranlegan. Þetta er og hefur verið umdeilt mál í þjóðfélaginu en hitt ætti ekki að þurfa að deila um að ef menn ætla sér að líta á fjölskylduna sem skattalega einingu, þá er það alger forsenda af okkar hálfu að einstæðir foreldrar með börn á framfæri verði ekki hlunnfarnir og miðar brtt. að því að einstæðir foreldrar njóti persónuafsláttar vegna barna sinna. Þetta mundi kosta um 40 millj. kr. á ári en tillaga ríkisstjórnarinnar mundi hins vegar kosta um 400 millj. þegar hún er komin til framkvæmda að fullu.

Ef þetta verður fellt, eins og mér sýnist verða raunin á, þá munum við sitja hjá við frv. að öðru leyti.