Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 11:18:25 (3218)

1999-12-17 11:18:25# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, Frsm. meiri hluta ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn. um frv. til laga um vitamál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Helga Jóhannesson og Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgrn., Hermann Guðjónsson og Sigurberg Björnsson frá Siglingastofnun Íslands og fulltrúa frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum, og fjallað ítarlega um málið. Grundvallarbreytingin er að þétta reglur um vitamálin og gjald af þeim.

Með frv. er lagt til að lagagrunni fyrir vitagjald verði breytt en því er ætlað að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði Siglingastofnunar Íslands á leiðsögukerfi fyrir skip. Er lagt til að lagagrunnurinn verði styrktur á þann veg að hann uppfylli skilyrði stjórnarskárinnar um lagagrunn skattlagningarheimilda. Verði því fjárhæð gjaldsins tilgreind í lögunum sjálfum.

Til að mæta auknum kostnaði við rekstur vita er lagt til í frv. að vitagjaldið verði látið ná til allra báta á skipaskrá.

Að vísu er takmörkuð heimild fyrir afnot af hluta smábátaflotans, sérstaklega er varðar veiðiheimildir, en engu að síður er öryggisþátturinn sá sami fyrir alla daga ársins og öll skip ársins í nýtingu og aðgengi að vitakerfi landsins. Lagt er til að fjárhæð gjaldsins sé tilgreind í lögunum sjálfum og að lágmarksgjaldið verði 64,70 kr. á hverju brúttótonni skips en þó skuli þetta gjald aldrei vera lægra en 5.000 kr. Meiri hlutinn leggur hins vegar til að lágmarksgjaldið verði lækkað í 3.000 kr. en á móti verði gjald fyrir hvert brúttótonn hækkað í 68,60 kr. Með því næst sama heildarhækkun vitagjalds.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með eftirfarandi breytingum sem lúta að hækkun á hverju brúttótonni en lækkun á lágmarksgjaldi.