Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 12:03:47 (3225)

1999-12-17 12:03:47# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og ekki síður hv. samgn. fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í við að fara yfir frv. Ég tel að það sem hér kom fram hjá frsm. meiri hluta nefndarinnar sé út af fyrir sig allt til bóta og til sátta við að ná fram málinu og ég geri engar athugasemdir við það. En vegna þess sem komið hefur fram í umræðunum vil ég minna hv. þingmenn á það og ekki síst hv. þm. Jón Bjarnason, 5. þm. Norðurl. v., að vitagjöld voru fyrst lögð á á Íslandi árið 1878. Þetta er því ekki neitt nýtt sem hér er að gerast. Og það sem kom fram hjá frsm. og formanni hv. samgn., Árna Johnsen, er auðvitað hárrétt að langstærsti parturinn af þessum vitagjöldum kemur frá skipum sem sigla hér við ströndina og eru undir fána annarra ríkja og þar eru farþegaskipin mjög stór partur.

Það sem verið er að gera með þessu frv., og ætti þá að vera nokkuð í anda jafnaðarmanna, er að sjá til þess að allir sem njóta þessarar þjónustu, vitaþjónustunnar, leggi nokkuð til vegna kostnaðar og þess vegna er engin undanþága veitt. Gert er ráð fyrir því samkvæmt frv. að öll skip, innlend og erlend sem við ströndina eru, greiði nokkurn hluta. En það er ljóst að þetta er mjög óveruleg upphæð í rauninni sem verið er að innheimta hjá minni bátum. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess sem fram kom hér í umræðunni.

Það er líka nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því vegna þess sem kom fram um athugasemdir Landhelgisgæslunnar að geysilega mikil breyting hefur orðið í þessari þjónustu. Það er ekki einungis verið að reka vitana heldur er um að ræða miklu meira. Það eru ljósvitarnir, það eru siglingamerki á sjó og landi, DGPS-leiðréttingakerfið, sem er náttúrlega geysilega mikilvægur þáttur af öryggiskerfinu og er inni í þessu, radarsvarar og hið nýja upplýsingakerfi um veður og sjólag sem Siglingastofnun hefur komið upp í samstarfi við hafnirnar við landið og er hluti af þeirri starfsemi sem þarf að kosta.

Ég tel því að þrátt fyrir vafalaust góða meiningu hjá forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar, þá hafi af hálfu samgn. þingsins verið farið mjög rækilega yfir það áður þegar verið var að fjalla um breytingar á Siglingastofnuninni á sínum tíma að ekki væri hagkvæmt að gera þá breytingu sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að sínum hugmyndum, þ.e. hugmyndir Landhelgisgæslunnar um að taka yfir þessa þjónustu, vegna þess að vitareksturinn er orðinn svo lítill hluti af því sem snýr að þjónustu við skipin sem sigla við strendur landsins. Þess vegna hefur ekki verið fallist á að Landhelgisgæslan taki við vitaþjónustu.

Aðeins að lokum, herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því sem kemur fram í nál. bæði 1. og 2. minni hluta nefndarinnar þar sem mikið er gert úr því sem kallað er skattheimta á smábáta. Við afgreiðslu fjárlaga komu fram tillögur um skattheimtu, ekki upp á neinar 6 eða 8 millj. á smábáta, heldur tillögur um að greiða 2.700 kr. fyrir hverja þorskígildislest sem átti að afla 750 millj. í ríkissjóð. Það ber því ekki allt upp á sama daginn í þessu og menn verða að gæta sín. En aðalatriðið er að verið er að samræma og tryggja að jafnræði gildi í þessu. Ég tel að samgn. hafi komist þarna að ágætri niðurstöðu sem ég sé og heyri í raun að er ágætissátt um.