Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 12:22:09 (3234)

1999-12-17 12:22:09# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, Frsm. 1. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um fjarskipti. Til samgn. komu allnokkrir aðilar eins og hv. frsm. meiri hlutans og formaður samgn. gerði grein fyrir.

Fjarskiptamálin eru einn mikilvægasti þátturinn fyrir íslensku þjóðina. Við byggjum stórt land og dreifbýlt. Við byggjum land þar sem eru verulegar andstæður í búsetu. Við byggjum land þar sem stór hluti þjóðarinnar er saman kominn á tiltölulega afmörkuðu svæði á suðvesturhorninu en við byggjum líka land vítt og breitt úti um hinar dreifðu byggðir meðfram ströndum og inn til dala.

Herra forseti. Það er afar mikilvægt í meðferð máls eins og hér er verið að fjalla um að allir geri sér grein fyrir því að við erum ein þjóð. Við erum ekki tvær eða þrjár þjóðir. Hvar sem við búum á þessu landi eigum við réttlátan og sanngjarnan aðgang að þessari sameiginlegu grunnþjónustu ríkisins.

Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að það skein óneitanlega í gegn hjá ýmsum þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar til þess að greina frá áherslum sínum í því hvernig ætti að byggja upp fjarskipti og fjarskiptaþjónustu úti um land, hvernig ætti að reka það, hvernig ætti að greiða kostnað af því og hverjir ættu að eiga aðgang að því. Hugtakið samkeppni og arðsemi kom hvað eftir annað upp. Það var meira að segja svo að það lá við þegar samkeppnis- og arðsemisumræðan fór á flug að þá minntust menn á að það væri sitt hvað samkeppnin á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu eða Stór-Kópavogssvæðinu eða hvort það væri samkeppni á Vestfjörðum eða á Melrakkasléttu.

Ég geri alls ekki lítið úr þeim áhuga og þeirri sýn í sjálfu sér að hlutir sem samgöngur og fjarskipti skuli vera sem best rekin og að þessi þjónusta nái til og verði sem fjölbreyttust þjónusta til allra. En það verður þó að taka fyrst og fremst tillit til þjónustukrafnanna og öryggis þjónustunnar. Ég fékk á tilfinninguna hvað varðar arðsemiskröfuna að notendur á Stór-Reykjavíkursvæðinu væru sérstakur neytendahópur, að þeir væru sérstakur hluti þjóðarinnar, að þeir væru hópur sem ætti að taka sérstaklega tillit til. Hér starfaði Samkeppnisstofnun og hér ætti þess vegna allt að lúta miklu frekar þeim lögmálum.

Ég vil þó, herra forseti, taka skýrt fram að í þessu frv. til fjarskipta er samt dregið skarpt fram á ákveðnum sviðum sýn og vilji til þess að jöfnuður ríki við aðgang að grunnneti og fjarskiptum um allt land. Þeirri sýn ber ég mikla virðingu fyrir. Ég tel, herra forseti, að kannski verði meginvandinn bæði í útfærslu og að framfylgja ákveðnum þáttum, ákveðinni sýn í þessu frv., að fylgja því eftir með þeim hætti að það verði gert með jöfnuði gagnvart öllum landsmönnum. Að það verði ekki gert með þeim hætti að það séu tvær eða þrjár þjóðir, það séu tveir, þrír, fjórir eða fimm neytendahópar í landinu. Að Íslendingum sé ekki skipt í neytendahópa sem geta gert mismunandi kröfur og sem eru þá mismunandi áhugaverðir í einhverju svokölluðu samkeppnisumhverfi.

Auðvitað gerum við okkur líka grein fyrir því að það kostar að byggja stórt land eins og Ísland. En við viljum ekki sjá af neinum landshluta. Ég vona að við viljum í raun að Ísland sé allt og við berum öll ábyrgð á því frá innstu dölum til ystu stranda. Við verðum einmitt að hafa það mjög alvarlega í huga varðandi fjarskiptin. Það er þetta, herra forseti, sem ég legg áherslu á í nál. 1. minni hluta samgn. sem ég leyfi mér, herra forseti, að gera hér grein fyrir.

Með frumvarpi til laga um fjarskipti er að nokkru leyti verið að bregðast við breyttum aðstæðum og ýmsum skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á herðar með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þrátt fyrir það er mjög athugavert hversu mikið skortir á stefnumótun og skýra framtíðarsýn í fjarskiptamálum í frumvarpinu. Þá eru óljós ýmis atriði sem snerta veigamikla þætti í fjarskiptum landsmanna til framtíðar.

Í 1. gr. frumvarpsins segir að íslenska ríkið skuli tryggja ,,eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu``. Ég vek athygli á þessu orðalagi ,,eftir því sem unnt er``. Ég dreg ekki í efa vilja og áhuga hæstv. samgrh. til þess að þetta verði túlkað gagnvart öllum Íslendingum.

Ég veit að hæstv. samgrh. hefur mikinn metnað gagnvart öllum íbúum landsins hvar sem þeir búa. Engu að síður sýnir þessi setning að það er hægt á vissum lagalegum grunni að draga fólk í dilka eftir aðstæðum, búsetu og öðru, ,,... eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu ...``

[12:30]

Í 13. gr. segir orðrétt, herra forseti:

,,Ef nauðsynlegt þykir til að tryggja fullnægjandi fjarskiptaþjónustu á sanngjörnum kjörum og þeirri þjónustu verður ekki við komið ef einungis er tekið mið af viðskiptasjónarmiðum ...``

Ég legg áherslu á þetta, herra forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir viðskiptasjónarmiðum en það á að nefna þjónustuna, öryggi þjónustunnar, á undan viðskiptasjónarmiðunum. Það er okkar sýn.

,,... getur Póst- og fjarskiptastofnun við útgáfu rekstrarleyfa mælt svo fyrir að rekstrarleyfishafi eða rekstrarleyfishafar skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu.``

Þarna er vissulega verið að hnykkja á. Samgrh. og Póst- og fjarskiptastofnun geta haft þarna veruleg ítök. Alþjónustan er ekki að fullu skilgreind í frumvarpinu en skv. 13. gr. á samgönguráðherra að setja um hana reglugerð. Að mati 1. minni hluta er engan veginn nógu skýrt að orði kveðið um skyldur væntanlegra rekstrarleyfishafa við landsmenn.

Herra forseti. Skilgreiningin á þessari þjónustu, á þessum kröfum kemur til með að ráða hvort landinu og íbúunum verði skipt í hópa eftir öryggi og aðgengi að þessari þjónustu.

Í athugasemdum sem frv. fylgja er tilgreint að meginbreytingar frv. miði að því að örva samkeppni. Samkeppni er fín. Samanburður er drifkraftur samfélags, þ.e. að við sækjum fram ef við sjáum að einn kann að gera eitthvað sem til heilla horfir þá reynum við einnig að gera það, að sjálfsögðu. En samkeppni má ekki verða til þess að einn, í krafti samkeppninnar, fái betri þjónustu en annar vegna stöðu sinnar, búsetu eða annarra þátta sem með lagalegum grunni geta komið á misskiptingu meðal þjóðarinnar.

Í athugasemdum sem frumvarpinu fylgja er tilgreint að meginbreytingar frumvarpsins miði að því að örva samkeppni og tryggja aðgang allra landsmanna að talsíma- og gagnaflutningsþjónustu. Á sama tíma ráðgerir ríkisstjórnin (Gripið fram í.) --- það er yfirlýst stefna --- að einkavæða Landssíma Íslands hf. en hann gegnir lykilhlutverki í fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Allt bendir því til þess að með Landssíma Íslands hf. verði grunnnetið svokallaða selt einkaaðilum.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að þetta frv. fjallar í sjálfu sér ekki um þá sölu. En það læðist að manni sá grunur að einn af undirtónunum við samningu frv. og einnig líka undirtónn sem ég þóttist heyra hjá ýmsum þeim aðilum sem komu á fund samgn. væri að búa í haginn fyrir einkavæðingu bæði á Landssímanum og grunnnetinu. Ég tek það bara skýrt fram hér, herra forseti, að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjumst gegn öllum hugmyndum um að selja Landssímann og við leggjumst gegn því að grunnfjarskiptanetið verði markaðssett og samkeppni og arðsemi ein ráði þar ferð.

Mun vænlegra hefði verið, og er, að hafa áfram öflugt fyrirtæki á þessu sviði í eigu hins opinbera til að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að þjónustunni, meira að segja að hafa öruggt rafmagn, öruggt ljós. Ef við bjóðum út rafkerfi þá koma einhverjir og fara að fikta í ljósunum. Ég bendi á það, herra forseti, að það getur verið alvarlegt mál ef þetta er einkavætt. (Gripið fram í: Það er hægt að fikta í þeim þó ekki sé einkavætt.) Já, ég veit að það er hægt að fikta í þeim þó það sé ekki einkavætt. Þetta er bara spurning um hve nálægt hver er einmitt takkanum. (Gripið fram í.) Já.

Þetta á sérstaklega við um grunnnet Landssímans sem 1. minni hluti telur nauðsynlegt að verði rekið af ríkinu eða að minnsta kosti á ábyrgð þess í áðurnefndum tilgangi.

Herra forseti. Við styðjum marga góða þætti í þessu frv. Við teljum að mörg af þeim góðu markmiðum sem þar eru sett til þess að efla og styrkja gunnnet fjarskipta um allt land séu lofsverð. Og við fögnum, þó við vildum hafa þær sterkari, þeim yfirlýstu meiningum frv. um að jöfnuður ríki, að fjarskipti, grunnfjarskipti og netið nái til allra landsmanna jafnt. Við fögnum þessu öllu saman og við teljum að margt í frv. sé til bóta og til eflingar.

Herra forseti. En svo er þetta stöðuga samkeppnis- og arðsemistal. Þegar við spurðum um öryggi þjónustunnar, þegar við spurðum um gæðastuðla fyrir þjónustuna þá varð lítið um svör. Þeir sögðu að vísu: ,,Arðsemiskrafan á að tryggja öryggið.`` Það getur vel verið að arðsemiskrafan tryggi öryggið hér á Stór-Kópavogssvæðinu, það má vel vera. En ég er viss um, herra forseti, að það er langsótt að halda því fram að arðsemiskrafan tryggi viðbragðsflýti og öryggi á Melrakkasléttu, á Vestfjörðum, inn til dala og út til stranda í slæmum veðrum. Oft verður nú bilun einmitt þegar veður eru slæm eða öryggið er mikilvægast. Ég sé ekki, herra forseti, að allir landsmenn fái að njóta öryggiskröfunnar og þjónustukröfunnar sem eiga að vera miklu æðri arðsemiskröfunni gagnvart landsmönnum öllum, eins og þeir eiga rétt á.

Herra forseti. Ég vil bara benda á að þjónustan hefur ekki alls staðar batnað úti um landið einmitt nú eftir að Landssíminn var gerður að hlutafélagi. Viðgerðarþjónustan hefur dregist saman, þ.e. viðbragðsflýtirinn því æ lengra er nú á milli ýmissa notenda og þeirra sem eiga að leysa úr þjónustuvanda. Hvaða drifkraftur er þarna að baki? Það er ekki þjónustukrafan. Það er ekki öryggið. Nei, það er arðsemissjónarmiðið. Þegar fyrirtæki sem við Íslendingar höfum montað okkur af að hafa byggt upp á þeim grunni að það skyldi þjóna öllum landsmönnum, leggur á ársfundi sínum meiri áherslu á að tilkynna að það ætli að setja hærri arðsemiskröfu á næsta ári en því síðasta, en nefnir ekki einu orði hvernig það ætlar að styrkja eða auka öryggi þjónustu og bæta hana, þá erum við á hættulegri leið.

Herra forseti. Þetta tel ég að Alþingi verði að vera sér rækilega meðvitað um. Það er grunnkrafa í okkar samfélagi að við séum ekki dregin í dilka í eina þjóð hér og aðra þjóð þar, að samkeppni sé bara hér en samkeppni sé ekki þar. Ég get sagt, herra forseti, að mér blöskraði stundum þegar ég heyrði talið um arðsemiskröfuna og samkeppniskröfuna en ekki var minnst á öryggiskröfuna eða þjónustukröfuna.

Ef þessi hugsjón á einhvers staðar heima þá er það hér, herra forseti. Hér á öryggið og þjónustu- og viðbragðsflýtir úti um allt land á að vera í öndvegi en ekki það hvernig slegist er hér á stór-höfuðborgarsvæðinu um neyslugleði íbúanna. Það er ekki þjónusta fyrir alla landsmenn þó svo að ég beri fulla virðingu fyrir því að allt skuli rekið á hagkvæman hátt.

Herra forseti. Ég ítreka að það er um hagsmuni íbúa landsins alls að tefla, hvar sem þeir búa. Við ætlum ekki að stýra búsetusamþjöppun á fólki á Íslandi á grundvelli þessara laga. Þessi lög eiga ekki að verða til þess að mismuna fólki. Þau eiga að verða til þess að auka þjónustuna. Þau eiga að verða til þess að styrkja búsetu um allt land, herra forseti.