Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:31:59 (3236)

1999-12-17 13:31:59# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Í október sl. efndi hv. þm. Margrét Frímannsdóttir til umræðna utan dagskrár vegna frétta virtra vísindamanna, eins og hún orðaði það, um að hér á landi væru geymd kjarnavopn. Svo mikið írafár var á hv. þm. að hann treysti sér ekki til að bíða komu hæstv. utanrrh. frá útlöndum og varð hæstv. forsrh. fyrir svörum.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagði trúnað á fréttaflutninginn þótt sýnt væri fram á í umræðunni að fréttirnar byggðust á hreinum getgátum. Hv. þm. tók ekki mark á yfirlýsingum bandarískra stjórnvalda sem forsrh. kynnti þingheimi. Þingmaðurinn krafðist þess að umræðunni lyki þannig að Alþingi og þjóðin fengi áreiðanlegar upplýsingar. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lauk umræðunni fyrir sitt leyti með því að taka það skýrt fram að hún treysti ekki upplýsingum forsrh. Fullyrti þingmaðurinn að á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fram komu við umræðurnar, hefði hún ekki getað metið það hvort fréttin væri sönn eða ekki.

Nú hefur hinn svokallaði virti vísindamaður, heimildarmaður hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, gjört kunnugt að hann hafi farið með fleipur og þar með afvegaleitt þá sem honum trúðu, gengisfellt bæði sjálfan sig og þá sem kusu að trúa honum. Nú er því kærkomið tækifæri til að ljúka þeirri umræðu, að utanrrh. viðstöddum, sem hafin var af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur 20. október sl. og þingmaðurinn taldi að hefði ekki verið lokið.

Í þessu dæmalausa upphlaupi tóku margir þingmenn þátt og fóru mikinn. Lengst gekk hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hann tók ekki aðeins getgáturnar alvarlega heldur trúði hann þeim eins og nýju neti og var slegið upp í stórfyrirsögn í DV ummælum hans um leynimakk og lygar Bandaríkjamanna. Gekk hv. þm. Steingrímur Sigfússon svo langt að fullyrða að fullveldi þjóðarinnar hefði verið svívirt og spurði hvort svo væri enn. Hv. þm. sakaði bandarísk stjórnvöld um að hafa logið til um tilvist kjarnavopna á Grænlandi en það var hins vegar hreinn uppspuni hjá þingmanninum, Bandaríkjamenn höfðu aldrei neitað tilvist kjarnavopna á Grænlandi, þeir gáfu Dönum upp allar upplýsingar en létu hins vegar dönskum stjórnvöldum eftir að fara með þær upplýsingar eins og þau kysu og allir þekkja lok þess máls.

Herra forseti. Með hliðsjón af því sem að framan greinir beini ég þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann telji ekki að allar forsendur séu til þess að ljúka þessum umræðum um kjarnorkuvopn á Íslandi nú. Nú hefur nefnilega komið í ljós að heimildarmaðurinn, William Arkin, hefur játað að sú flugufregn sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kaus að gera að tilefni til umræðu utan dagskrár hafi reynst uppspuni frá rótum.

Herra forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu máli til að því verði lokið sómasamlega lokið í þinginu og staðfest verði í þingtíðindum hverjir það voru sem fóru með fleipur og hverjir hinir voru sem gerðu það ekki. Ég vil jafnframt óska þess að niðurstaðan verði til þess að þingmenn hugsi sig tvisvar um í framtíðinni áður en þeir hlaupa upp til handa og fóta yfir getgátum óvandaðra lobbíista og leiða slíkar getgátur til öndvegis í umræðum á Alþingi.

Herra forseti. Í lokin vil ég geta þess að í Ríkisútvarpi, sjónvarpi var viðtal við Margréti Frímannsdóttur 14. desember, sýnist mér að hér sé, þar sem hún, talsmaður Samfylkingarinnar, lýsir því yfir ,,að Samfylkingin hafi reyndar áður fengið yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda sem okkur datt ekki í hug að draga í efa``, að hér hefðu væntanlega verið kjarnavopn og þessi yfirstrikun ætti ekki við um Ísland. Þessi yfirlýsing í Ríkisútvarpinu fer í bága við þingræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur við utandagskrárumræðuna þar sem hún lýsti því alveg sérstaklega yfir í lok umræðunnar að hún tæki ekki mark á þeim upplýsingum sem hér hefðu komið fram við umræðuna.