Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:43:28 (3240)

1999-12-17 13:43:28# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Tómasi Inga Olrich fyrir að taka þetta mál til umræðu þannig að menn geti rætt það í ljósi þess að William Arkin hefur dregið yfirlýsingar sínar til baka sem voru tilefni umræðna um málið hér áður. Það er í þriðja sinn sem þessi vísindamaður dregur til baka yfirlýsingar sínar um það að á Íslandi séu kjarnorkuvopn. Ég mundi halda að allt væri þegar þrennt er í þessu tilviki og menn ættu ekki oftar að efna til umræðna utan dagskrár á Alþingi í tilefni af lausafregnum um þennan mann og vísindalegar rannsóknir hans að því er Ísland varðar.

Síðan kemur fram í viðtali sem hann hefur veitt að hann telur að þessi grunur um kjarnorkuvopn á Íslandi muni vera svo lengi sem Atlantshafsbandalagið starfar og svo lengi sem Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu. Hann er því sama sinnis og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og aðrir sem eru á móti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og hafa löngum dregið upp þá mynd af þeirri þátttöku að með því væri Ísland að dragast inn í stærri hluti en að tryggja eigið öryggi sitt og varnir.

En þessir aðilar eru einmitt þeir sem hafa kastað þeirri hulu yfir Ísland að hér séu kjarnorkuvopn og það hefur verið rauður þráður í öllum málflutningi þeirra um áratuga skeið að hér væru kjarnorkuvopn. Vísindamaðurinn staðfesti það enn í Morgunblaðinu þegar hann sagði að það væri tilvist Atlantshafsbandalagsins og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem réði úrslitum um það að hann mundi halda áfram að fullyrða að kjarnorkuvopn væri á Íslandi.

Menn þurfa ekki að lesa margar ályktanir og ályktunartillögur hér á Alþingi frá Alþb. sáluga eða þá frá vinstri grænum nú á tímum til þess að sjá að þarna er algjörlega samhljómur á milli en kosturinn er, herra forseti, að báðir hafa rangt fyrir sér.