Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:45:48 (3241)

1999-12-17 13:45:48# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa menn verið að aflétta trúnaði af ýmsum skjölum bæði austan hafs og vestan sem varpað hafa nýju ljósi á ýmsa viðkvæma þætti í samtímasögu okkar Íslendinga. Íslenskir sagnfræðingar eins og Valur Ingimundarson, Þór Whitehead og fleiri hafa skrifað bækur sem hafa einnig varpað nýju ljósi á ýmsa Íslendinga og íslenska atburði. Það er því mjög eðlilegt, herra forseti, þegar fréttir berast af því í erlendum stórblöðum að yfirlýsingar sem hafi verið gefnar íslenskum og bandarískum stjórnvöldum séu ekki réttar, að spurst sé fyrir um það og vakin athygli á því hér á Alþingi. Það er hið eðlilegasta af öllu eðlilegu.

Það sem ég tel hins vegar að við alþingismenn eigum að gera við þessar aðstæður er að Alþingi á að reyna að styðja eins og unnt er við þær rannsóknir á samtímasögu okkar sem eiga sér nú stað og hafa farið fram og varpað hafa nýju ljósi á ýmsa einstaklinga, menn og málefni á Íslandi sem varða samtímasögu okkar, við eigum að styðja við það.

Það er rétt sem hæstv. menntmrh. sagði, að þetta er í þriðja sinn sem þessi bandaríski fræðimaður, William Arkin, setur fram fullyrðingar varðandi kjarnorkuvopn á Íslandi sem ekki reynast réttar. Það hefur komið fram í öll þau skipti að þær upplýsingar sem íslensk stjórnvöld hafa fengið frá Bandaríkjunum og hafa sett fram við Íslendinga sem sínar fullyrðingar hafa reynst réttar, þær hafa ekki verið hraktar. Engu að síður eigum við að hafa opinn hug fyrir þeim uppgötvunum sem verið er að gera og styðja eins og Alþingi megnar við bakið á þeim, ekki síst ungum íslenskum sagnfræðingum sem eru núna að draga upp staðreyndir um samtímasögu okkar sem varða okkur miklu.