Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:55:45 (3246)

1999-12-17 13:55:45# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það hefur vakið athygli mína við þessa umræðu að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerir ekki minnstu tilraun til að reyna að skýra út þau orð sem hún viðhafði í Ríkisútvarpinu um að hún hefði tekið trúanlegar þær fullyrðingar sem hér fóru fram við utandagskrárumræðuna þegar forsrh. vitnaði beinlínis í yfirlýsingar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hún lýsti því yfir við umræðuna að hún hefði ekki tekið mark á þessum yfirlýsingum né öðrum þeim upplýsingum sem fram komu.

Nú reynir hv. þm. að snúa þessu við og segist alltaf hafa tekið mark á þessum yfirlýsingum. Svona málflutningur af hálfu talsmanns Samfylkingarinnar í þessum málum er ekki trúverðugur og er í raun og veru óafsakanlegur. Það er alveg ljóst að hin virtu tímarit sem hér er vitnað í af mikilli virðingu greindu heiðarlega frá því að þarna væri um hreinar getgátur að ræða. Það var talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum sem kaus að taka þær getgátur sem gjaldgengan hlut og byggja málflutning sinn á því. Það hefur nú komið í ljós að þetta var allt úr lausu lofti gripið, þannig að ekki er nú málflutningur Samfylkingarinnar á traustum grunni reistur.

Ég tek líka eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er ekki mikið að afsaka það hér að hann hafi fullyrt það á þessum dögum í október að fullveldi íslensku þjóðarinnar hefði verið svívirt. Nei. Og er nú langt gengið í þeim yfirlýsingum verð ég að segja.

Það sem hefur komið síðan í ljós við þessa umræðu er að auðvitað vakir það fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og talsmanni Samfylkingarinnar að gera samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna, sem hefur reynst afskaplega farsælt, ótrúverðugt. Og þó að þeir séu staðnir að því að fara með fleipur þá breytir það engu í afstöðu þeirra.