Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 14:07:46 (3249)

1999-12-17 14:07:46# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. til laga um fjarskipti sem hér er til umræðu er mjög mikilvægt. Það skiptir miklu máli að við Íslendingar fylgjumst vel með, endurskoðum löggjöf okkar og lögum að aðstæðum á þessu sviði en eins og menn þekkja eru breytingar á því mjög örar. Tæknibreytingar eru miklar og til þess að við getum nýtt okkur möguleikana sem skapast þarf umgjörðin, leikreglurnar að vera þannig að henti.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er markmið laganna, verði frv. samþykkt, að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samskipti á fjarskiptamarkaði. Það að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi er ótvírætt mjög mikilvægt. Ég vek athygli á því að það ákvæði er látið ganga framar því ákvæði að efla þurfi samkeppni á fjarskiptamarkaðnum. Ástæða er til þess að vekja athygli á 13. gr. frv. í því samhengi. Þar eru fyrirheit um að öllum notendum verði tryggð fullnægjandi fjarskiptaþjónusta á sanngjörnum kjörum. Það á að felast í því að allir rekstrarleyfishafar tryggi að notendur fjarskiptaþjónustunnar fái svokallaða alþjónustu.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að þessi grein skuli vera í lögunum og að menn vilji að markaðurinn starfi samkvæmt þessari reglu. Hér er auðvitað verið að gefa tóninn um að þegnunum skuli ekki mismunað þegar veitt er fjarskiptaþjónusta.

Ég ætla þá að koma að hinu atriðinu, herra forseti, þ.e. að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Ég tel að það sé ekki síður mikilvægt. Ég er ekki í hópi þeirra sem telja að samkeppni sé vond fyrir landsbyggðina. Þvert á móti þá tel ég að vandi landsbyggðarinnar felist m.a. í því að þar sé ekki nægjanleg samkeppni, að þar gæti of mikillar miðstýringar. Ég tel að þar séu ákvarðanir of oft teknar út frá sjónarmiðum samræmingar eða miðstýringar og það hafi á ákveðinn hátt skapað atgervisflótta. Menn þekkja að ef umhverfið byggir allt á miðstýrðum ákvörðunum þá verður minna svigrúm fyrir þá sem vilja hreyfa sig, fyrir frumherja eða þá sem gætu gert hlutina á annan hátt.

Nei, herra forseti, ég er á þeirri skoðun að samkeppni á þessum markaði sem öðrum geti skapað landsbyggðinni betri lífskjör og gert hana byggilegri, ef nota má það orð, en hún er við núverandi aðstæður. Ég hef því ekki áhyggjur af því þó lögð sé áhersla á samkeppni og tek undir það sem fram kemur í nál. 2. minni hluta samgn. um þá þætti málsins. Af þessum ástæðum hef ég áhyggjur af því sem fram kemur í því nál., að ekki sé lagt mikið upp úr því í frv. að ná markmiðum um hagkvæmni og samkeppni á þessum markaði, að frv. taki fyrst og fremst mið af hagsmunum Landssíma Íslands. En eins og fram hefur komið er Landssíminn með yfirburðastöðu á þessum markaði.

Ef við trúum því að samkeppni sé til góðs þá ætti eitt af markmiðum okkar auðvitað að vera að reyna að skapa þær aðstæður að hún geri þjónustuna hagkvæmari, ódýrari og stuðli að því að fleiri geti komið inn á markaðinn. Af því að við höfum þessa ágætu 13. gr., eins og ég gat um áðan, finnst mér ekki ástæða til þess að bera ótta í brjósti um að samkeppnin muni bitna á landsbyggðinni. Ég tel, eins og fram hefur komið, að landsbyggðinni hái oft og tíðum skortur á samkeppni.

Herra forseti. Af því að ég er að tala um samkeppnisþáttinn vil ég áfram vísa til álits 2. minni hluta nefndarinnar, álits fulltrúa Samfylkingarinnar, þar sem fjallað er um forræði samgrh. á eignarhaldi ríkissjóðs að Landssíma Íslands. Maður hlýtur að velta því fyrir sér, ef niðurstaðan er sú að frv. taki fyrst og fremst mið af hagsmunum Landssímans en ekki því að skapa hér eðlilegar forsendur fyrir samkeppni fyrir önnur fyrirtæki til að koma inn á markaðinn, hvort þar muni ekki hafa ákveðin áhrif að frv. er samið í samgrn. og flutt af hæstv. samgrh. Auðvitað hlýtur það að lita viðhorfið að Landssími Íslands var ekki fyrir svo löngu hluti af Póst- og símamálastofnuninni og þá með einokunaraðstöðu hér á markaði, vistað í samgrn. varðandi eignaumsýslu og leikreglur.

[14:15]

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að það sé alls ekki rétt að haga málum þannig að hæstv. samgrh. á hverjum tíma sé sá sem bæði fer með eignarráð, fer með yfirráð, fer með hlutabréfið í þessu mikilvæga fyrirtæki og hafi jafnframt reglugerðarvald á þessum markaði. Ef rennt er yfir frv. um fjarskipti annars vegar og Póst- og fjarskiptastofnun hins vegar úir og grúir af ákvæðum þar sem gert er ráð fyrir að hæstv. samgrh. setji reglugerð. Í frv. um fjarskipti eru ákvæði um að ráðherra geti sett reglugerð um 13. gr., um efni 15. gr., um efni 29. gr., um efni 40. gr. og síðan kemur í restina í 50. gr. almenn opin heimild til reglugerða hvað varðar nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, opin heimild til reglugerða um lagabálkinn eins og hann leggur sig.

Ég hlýt að spyrja, herra forseti, hvort ekki sé ástæða til tortryggni fyrir önnur fyrirtæki sem eru að reyna að fóta sig á þessum markaði að einn og sami aðili skuli fara með eignarráð í fyrirtækinu sem hefur þessa yfirburðastöðu á markaðnum og sá sem er með reglugerðarvaldið og setur leikreglur á markaðnum fyrir öll fyrirtækin, hvort það hljóti ekki að vera tilefni til tortryggni að sá sem fer með hlutabréfið í Landssímanum skuli jafnframt á hverjum tíma vera sá sem veit hvaða stjórnvaldsaðgerðir eru í undirbúningi.

Í frv. um Póst- og fjarskiptastofnun er sambærilegt ákvæði í 13. gr. um að ráðherra geti verið með nánari fyrirmæli, opið reglugerðarvald um framkvæmd þeirra laga. Þetta samanlagt, herra forseti, hlýtur enn að auka áhyggjur manna sem vilja komast inn á þennan markað og veita þar ákveðna þjónustu, taka þátt í uppbyggingu fjarskipta á Íslandi.

Herra forseti. Ég hef lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, og hefur því verið dreift í þinginu. Þar er lagt til að í stað orðsins ,,samgönguráðherra`` í 2. mgr. 6. gr. laganna komi fjármálaráðherra. Þetta er ekki stórt frv., herra forseti, en skiptir verulegu máli og á fullt erindi inn í þessa umræðu því að þar er lagt til að hlutabréfið í Landssímanum verði tekið úr höndum samgrh. og flutt til fjmrh. Það er mun eðlilegri tilhögun að gera það þannig og í samræmi við reglugerðina um Stjórnarráð Íslands þar sem það er meginregla að fjmrn. fari með hlut ríkisins í fyrirtækjum en ekki viðkomandi fagráðuneyti þó að hægt sé að leggja mál til einstakra ráðuneyta. En meginreglan er hin vegna þess að það hlýtur að orka tvímælis, og gerir það, að sami aðili fari með æðsta vald í fyrirtæki og setji jafnframt almennar leikreglur. Þó að umsvif hins opinbera í samkeppnisrekstri hafi minnkað þá eru þau enn umtalsverð og það er auðvitað full ástæða til þess að löggjafinn hugi að því hvaða breytingar sé eðlilegt að gera í ljósi breyttra aðstæðna vegna þess að aðstæður hafa verið að breytast og eru að breytast mjög hratt.

Það sem mönnum hefur helst orðið fyrir og það sem Samkeppnisstofnun hefur gert kröfu til í einhverjum tilfellum er að fjárhagslegur aðskilnaður eigi sér stað í rekstri einstakra fyrirtækja. En það, herra forseti, nær ekki að jafna þann mun sem er á aðstöðu opinbers fyrirtækis og einkafyrirtækis á markaði ef sami ráðherra hefur með höndum yfirstjórn fyrirtækisins og setur jafnframt almennar leikreglur fyrir markaðinn, hefur það reglugerðarvald sem hæstv. samgrh. á hverjum tíma hefur og ég vék að hér áðan.

Herra forseti. Á undanförnum árum þegar Alþingi hefur verið að hlutafjárvæða, hefur verið að ,,háeffa`` einstaka ríkisstofnanir, þá hefur þeirrar tilhneigingar gætt að eignarráðin væru áfram í höndum þess fagráðherra sem fór eða fer með málið. Ég tel að það væri betra, bæði fyrir þau fyrirtæki sem eru í opinberri eigu að öllu eða einhverju leyti og líka fyrir markaðinn, að þessu yrði skipt, að þarna yrði skilið á milli þannig að fagráðherra á hverjum tíma væri að sönnu ráðherra málaflokksins og þar með ráðherra allra þeirra fyrirtækja sem starfa á viðkomandi markaði en ekki sérstakur ráðherra einstakra fyrirtækja eins og okkur hefur stundum fundist brenna við, einkum og sér í lagi þegar baráttan á markaðnum er orðin hörð eins og sérstaklega hefur kannski átt við um Landssímann á undanförnum árum þar sem önnur fyrirtæki hafa mjög oft talið að þau hefðu ekki eðlilega samkeppnisstöðu og hafa þess vegna þurft að leita ásjár Samkeppnisstofnunar mun oftar en eðlilegt getur talist þó svo að við séum að fjalla hér um markað sem breytist ört.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi míns máls þá lít ég svo á að hér sé á ferðinni mjög mikilvægt mál og að í þessu frv. séu mörg ákvæði mjög til bóta og bind vonir við að þau skapi betri umgjörð, betri ramma um þann markað sem við hér erum að fjalla um. En eins og fram hefur komið í máli mínu er nauðsynlegt að menn hafi auga á því, umfram það sem hér er, að skapa samkeppnisforsendur, skapa forsendur fyrir þau fyrirtæki sem eru að reyna að fóta sig á markaðnum og að menn horfi til þess í fullri alvöru að skapa það traust sem þarf með því að aðskilja á milli þess sem fer með umsýsluvaldið, sem fer með hlut ríkisins í viðkomandi fyrirtæki og þess sem fer með reglugerðarvaldið.