Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 14:22:44 (3250)

1999-12-17 14:22:44# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Vissulega má deila um það í hvaða ráðuneyti eigi að finna þessum málum, póst- og símamálum stað. En ég held að það sé ekki meginmálið á þessari stundu. Meginmálið í þessu er í fyrsta lagi, eins og kemur fram í lögunum, að meginmarkmiðið frv. er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði jafnframt því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fjarskiptaþjónustu eftir því sem unnt er.

Mér er það alveg ljóst að það er mjög ör þróun í þessum málum. Það er líka ljóst að ekki verða mörg fyrirtæki í hinni hörðu samkeppni þessa málaflokks. Mér er það alveg ljóst. Og þegar til þess er litið að við samþykktum á hinu háa Alþingi 27. desember 1996 lög um þetta sama efni þá er mér alveg ljóst að ekki líður á löngu þar til við tökum upp þetta mál upp aftur. Ég spái að innan tveggja ára þurfum við að taka þessi mál öll upp að nýju og fara yfir völlinn eins og hann lítur þá út. Það er mér alveg ljóst.

Ég tel að full ástæða sé til þess að ljúka þessu máli. Síðan má hefja umræðu um heimilisfang þessa málaflokks, þ.e. í hvaða ráðuneyti. Svo verður auðvitað að líta til framþróunarinnar sem, eins og ég sagði áðan, er geysilega ör.