Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 14:24:32 (3251)

1999-12-17 14:24:32# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri á hv. þm. að hann telur að þessi lög muni ekki verða langlíf. Innan tveggja, þriggja ára telur hann að við verðum aftur komin með kannski sambærilegt plagg í hendurnar til þess að fjalla um.

Herra forseti. Ég er ekkert endilega viss um að þess þurfi ef við stöndum vel að því sem við erum að gera núna. Þar held ég einmitt að deilan um hvar á að vista málaflokkinn skipti máli, vegna þess að ef við ætlum að efla samkeppni og skapa forsendur fyrir henni, jákvæðar forsendur, búa til ramma sem fyrirtækin geta unað við, þá skiptir verulegu máli að sá aðili sem fer með málaflokkinn njóti trausts og að það fyrirtæki sem er með þessa yfirburði á markaðnum, Landssíminn, liggi ekki linnulaust undir þeirri gagnrýni og tortryggni að það hafi eitthvert forskot bara út á það að vera undir forsjá þess sem líka fer með reglugerðarvald á markaðnum, fyrir utan það forskot sem það hefur auðvitað vegna nánast aldarlangrar einokunar sinnar og hinnar miklu markaðshlutdeildar.

Ég tek alveg undir það með hv. þm. að það skiptir auðvitað verulegu máli sem segir í 1. gr. frv., þ.e. að hér eigi að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti. Ég er sjálf í tvígang búin að fara yfir 13. gr. í minni ræðu sem mér finnst skipta verulegu máli. En ég er sannfærð um að við þurfum að ganga lengra hvað varðar samkeppnisþáttinn. Þess vegna er það mín skoðun að ef við göngum lengra þar og gerum það betur þá getum við hugsanlega unað lengur en virðist vera trú hv. þm. við þau lög sem þetta frv. getur leitt til.