Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 14:26:49 (3252)

1999-12-17 14:26:49# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um fjarskipti er í sjálfu sér mjög stórt mál og verðskuldar alla athygli, ekki bara frv. sjálfs vegna heldur þeirra hluta sem eru í farvatninu eða hafa verið að gerast í okkar fjarskiptamálum á undanförnum árum má segja og blasa við fram undan, sérstaklega auðvitað áform stjórnvalda um stórfellda einkavæðingu og í orði kveðnu a.m.k. um að innleiða samkeppni á ýmsum sviðum fjarskipta þar sem henni hefur ekki verið fyrir að fara áður, annaðhvort vegna þess að um lögbundin einkaleyfi hefur verið að ræða eða vegna þess að tæknin hefur ósköp einfaldlega ekki boðið upp á samkeppni. Því er augljóst mál að þetta er eitt af þeim málasviðum sem eru að taka miklum breytingum um þessar mundir, bæði að segja má af pólitískum ástæðum og tæknilegum.

Ég verð að segja fyrst, herra forseti, að mér hefur oft gramist það í þessari umræðu á undangengnum árum, síðustu tveim til fjórum þó sérstaklega, sem ég get eiginlega ekki kallað annað en róginn um Póst og síma. Það hefur markvisst verið reynt, að því er ég tel, að sverta frammistöðu þeirrar stofnunar gegnum tíðina og jafnvel læða því að mönnum að við Íslendingar höfum búið þar við einhverja sérstaklega hamlandi og skaðlega einokun og ríkisstofnun sem hafi drepið allt í dróma í þessum efnum. Ég hef jafnvel heyrt menn lýsa því á dramatískan hátt að menn hafi bara eins og verið leystir úr álögum þegar þeirri stofnun var þó ekki nema breytt í ,,háeff`` og að þá hafi bara allt farið að blómstra og færst til hins betri vegar í fjarskiptum á Íslandi, þá hafi tæknin komið til sögunnar og guð má vita hvað. Það er eins og menn hafi bara skipst hér á skilaboðum með reykmerkjum fram að þeim tíma.

En svo var nú ekki, herra forseti. Staðreyndin er sú, og það er alveg ástæða til að halda því til haga, að þessi ríkisstofnun var nú ekki verri en það að henni hafði tekist að byggja upp tiltölulega mjög nútímalegt fjarskiptakerfi í þessu stóra og strjálbýla landi og það var ekki verr rekið en svo að Íslendingar bjuggu sannarlega við einn lægsta símkostnað í Evrópu. Og hvers vegna er þá þessi hamagangur og ósköp? Bendir þetta til að það hafi verið sérstaklega ófarsælt fyrir íslensku þjóðina að þetta var á hendi einnar öflugrar stofnunar sem gat þó í krafti stærðar sinnar veitt mönnum hér býsna góða þjónustu? Nei, ég held ekki.

[14:30]

Staðreyndin er algjörlega hin gagnstæða. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef við Íslendingar hefðum verið fastir í klónum á einhverjum einkaeinokunarfyrirtækjum eða þó það væru tvö eða fleiri fyrirtæki sem hefðu verið að baslast við að veita fjarskiptaþjónustu í formi einkarekstrar í ágóðaskyni þá hefðum við verið mun verr á vegi stödd en raun ber vitni.

Það mætti taka ýmis dæmi um það. Það er kannski ekki mikið vit í samanburði milli Íslands og Bandaríkjanna en þó má gera tilraun til slíks. Það vita þeir sem ferðuðust t.d. fyrir tíu til tuttugu árum eða þaðan af lengri tíma um Bandaríkin að það gat verið býsna skrautlegt, satt best að segja, að vera þar að ferðast milli svæða þar sem hin ólíku símafyrirtæki veittu þjónustu því stundum fór svo að nánast enginn hafði áhuga á því að veita þjónustu úti á afskekktum svæðum og þar var fjarskiptaþjónusta oft hin hörmulegasta. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem hafa ferðast eitthvað um strjálbýli á afskekktum svæðum í Bandaríkjum Norður-Ameríku geti borið um þetta.

Það væri líka hægt að taka annað dæmi frá Argentínu. Þar vantaði ekki að síminn væri einkarekinn um áratuga skeið og það vantaði ekki þar væri einkaframtakið að blómstra. Ef ég man rétt voru það engir aðrir en frændur okkar Svíar sem áttu að mestu leyti símkerfið í Argentínu, svo var a.m.k. um áratuga skeið. Var það mjög burðug þjónusta sem þar var veitt? Ekki held ég það. Ekki held ég að það hafi verið þeim sérstaklega til framdráttar eða auðveldað þeim að vera í hópi forusturíkja hvað varðar nútímalega fjarskiptaþjónustu þegar kom fram undir lok aldarinnar. Þvert á móti.

Ég held að það sé algjörlega staðreynd að fyrirkomulagið á Norðurlöndunum með stórum og öflugum ríkisreknum símafyrirtækjum eða opinberum almannaþjónustufyrirtækjum á þessu sviði hafi skilað Norðurlöndunum í fremstu röð í þessum efnum. Ekki bara hvað fjarskiptaþjónustuna, grunnþjónustuna, snertir heldur var líka tækni á háu stigi. Þessir aðilar eiga sinn þátt í því að t.d. norræn fyrirtæki á tæknisviðinu eru í fremstu röð á heimsvísu í dag vegna þess að þau eru sumpart sprottin út úr eða hafa byggst upp til hliðar við þjónustu í tengslum við hin stóru, öflugu, opinberu símafyrirtæki á Norðurlöndum. Auðvitað þekkja menn að fyrirtæki eins og Ericsson og Nokia og svo stóru símafyrirtækin eins og Telia í Svíþjóð og Telenor í Noregi eru forustufyrirtæki í sínu sviði, sprottin beint upp úr þeim grunni sem ég er að tala um.

Þannig er það að mínu mati einnig á Íslandi. Landssími Íslands er það sem hann er í dag vegna þess að hann byggir á þeirri arfleifð og þeirri stöðu sem hann fékk frá Pósti og síma. Ég bið menn því að láta af þessum leiðindarógi og baknagi um frammistöðu þessarar stofnunar. Auðvitað var þar ekki allt fullkomið og að sjálfsögðu hafa menn gert þar mistök eins og gerist og gengur en ég leyfi mér að fullyrða að þetta fyrirkomulag hafi þjónað okkur Íslendingum býsna vel og skilað okkur merkilega góðri þjónustu. Við höfum aftur og aftur verið í fararbroddi í heiminum þegar kemur að því að innleiða og innleiða hratt tækninýjungar. Það á t.d. við þegar farsíminn kom, NMT-kerfið kom á sínum tíma, og það á líka við hvað varðar GSM-gervihnattarsímann.

Þá hefur þetta fyrirtæki í krafti styrks síns og stærðar, og vegna þess að það hefur allt landið undir, getað brugðist fljótt við og getað byggt þjónustuna hratt upp og boðið hana svo til öllum landsmönnum á mjög skömmum tíma. Svo bætist náttúrlega það við, herra forseti, að við Íslendingar höfum þá náttúru að þegar svona tækninýjungar koma þarf hver einasti maður að kaupa þetta og helst strax í gær þannig að viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr og öll þjóðin veit að GSM-sími er álíka nauðsynlegur hlutur og tannbursti. Notkunin verður á auga lifandi bragði gríðarleg og það má nokkuð treysta á það að ef um einhverjar slíkar tækninýjungar er að ræða þá seljast þær eins og heitar lummur á Íslandi.

Í öðru lagi, herra forseti, aðeins um samkeppnina. Nú er það boðorð dagsins að alls staðar skal koma við samkeppni, alls staðar skal reyna að troða inn samkeppni bara samkeppninnar vegna, bara af því bara. (PHB: Lækka verðið.) Já, lækka verð, segir hv. þm. Pétur Blöndal og trúin er óbiluð eins og vænta mátti á þeim bæ. En nú er það svo, herra forseti, að ég held að samkeppni, svo ágæt sem hún getur verið þar sem auðvelt er að koma henni við og forsendur eru fyrir henni, sem eru að vísu ekki nálægt eins víða og menn vilja vera láta, því miður þá plata menn sig mjög víða með því að þeir séu að innleiða einhverja samkeppni, eiginlega og eðlilega samkeppni þar sem engu slíku er til að dreifa. Það er bara plat, það er bara blöff eins og sagt er á vondu máli.

En segjum að menn hefðu þá skoðun, þá trú og þann vilja að æskilegt væri að koma við þarna samkeppni og fara að velta fyrir sér hvort forsendur séu þá til þess. Ég fer fram á að menn ræði og skoði hvort forsendur eru fyrir einhverju sem hægt er að kalla ,,frjálsa`` samkeppni eða heilbrigða samkeppni, sem mér finnst nú skárra hugtak, á þessu fjarskiptasviði. Ég held að svarið sé nei. Út af fyrir sig er hægt að sjá fyrir sér að á afmörkuðum sviðum þessarar þjónustu séu forsendur fyrir samkeppni þannig að hún geti verið alveg heilbrigð. Það er fyrst og fremst þar sem tæknin hefur komið til dögunnar og gert mögulegt að veita þessa þjónustu án gríðarlegs stofnkostnaðar og án þess að landfræðilegar aðstæður skipti kannski sköpum eða það er ekki óviðráðanlegt verkefni að veita þjónustuna þannig að hún geti tekið til landsins alls. En það á ekki við nema um hluta af þjónustunni eins og hún er starfrækt og þekkt í dag. Sumir halda því fram að tæknin eigi eftir að þróast enn frekar og hraðar á næstu árum og gera allar fyrri viðmiðanir að þessu leyti úreltar, þ.e. að allt sem heita grunnlínur og net og ljósleiðarar og annað slíkt verði bara úrelt, í besta falli geti það keppt við aðrar mögulegar leiðir sem fjarskiptin eigi kost á, og þá fyrst og fremst gervihnattasambönd eða jafnvel rafræna miðlun svona upplýsinga í gegnum orkudreifingarnetin eða hvað það kynni að verða.

Ég held þess vegna, herra forseti, að það verði að gera mjög skýran greinarmun á því þegar þessi samkeppnisvaðall kemur upp: Erum við að tala um þá hluta þessarar þjónustu þar sem tæknilegar forsendur eru fyrir hendi að um eiginlega samkeppni geti verið að ræða eða erum við að tala um málið allt í heild sinni? Það skiptir alveg sköpum.

Herra forseti. Það verður ekki bæði sleppt og haldið að öllu leyti í þessu máli frekar en í öðrum. Við getum þurft að kaupa það dýru verði að ýmsu leyti að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við höfum haft, að hafa öfluga opinbera þjónustustofnun á þessu sviði sem hefur bæði réttindi en líka skyldur. Sem hefur þau réttindi að hafa allt landið undir og hafa á sínum snærum það net sem byggt hefur verið upp í opinberri eigu en um leið þær skyldur að veita þessa þjónustu um allt land. Að þessu leyti hefur staða Landssímans verið nátengd og náskyld stöðu Ríkisútvarpsins enda mikið samstarf þar á milli.

Menn verða að horfast í augu við það að ekkert er endilega víst að það sé auðvelt að bæði sleppa og halda. Að halda þeim möguleikum að tryggja þessa þjónustu með slíkum hætti með opinberri stefnumótun og/eða þess vegna lagasetningar og hins vegar að sleppa þessu öllu lausu og fela þetta einkaaðilum til rekstrar. Menn geta, herra forseti, ekki skýlt sér á bak við einhverja pólitíska frasa um einkarekstur versus ríkisrekstur, samkeppni versus eitthvað annað. Þetta er praktískt úrlausnarefni eins og það blasir við þjóðinni og við skulum ræða það bara eins og það liggur fyrir tæknilega og fjárhagslega fyrir þessa tæplega 280 þúsund manna þjóð í þessu 104 þúsund ferkílómetra landi. Það er viðfangsefnið eins og ég nálgast það, herra forseti, og ég leyfi mér að halda því fram, þó maður eigi kannski aldrei að gefa sjálfum sér slíkar einkunnir, að ég reyni að nálgast þetta tiltölulega kreddulaust.

Ég vil reyna að velja þá leið sem ég tel að muni þjóna landsmönnum og landsmönnum öllum best á komandi árum í þessum efnum og er í sjálfu sér tilbúinn til þess að skoða ýmislegt í þeim efnum. En ég vil láta sannfærast áður en ég hverf frá stuðningi við þó það fyrirkomulag, a.m.k. að verulegu leyti, sem hefur skilað okkur þó því sem við höfum í dag í þessum efnum. Ég fullyrði að það er ekki slæm staða fyrir þessa þjóð að búa við þó þau fjarskipti sem við gerum og höfum gert á undanförnum árum, hafandi átt þess kost að taka inn tækninýjungar tiltölulega hratt og vera í fremstu röð, stundum í fyrsta eða öðru sæti hvað varðar það að nýta okkur nýja hluti eins og gervihnattasíma, alnetið eða aðra slíka hluti. En það er staðreynd að þannig er staðan, að Íslendingar eru á ýmsum vígstöðvum í þessum efnum í hópi þeirra þjóða heimsins sem nota sér slíka hluti mest.

Í þriðja lagi, herra forseti, finnst mér að jafnréttishugtakið verði að vera alveg í miðju umræðunnar þegar við ræðum um breytingar á þessu afdrifaríka og mikilvæga sviði. Jafnrétti landsmanna gagnvart fjarskiptum, þeim hluta samgöngukerfis landsins sem fjarskiptin eru er algjör þungamiðja málsins í mínum huga og þróunarinnar fyrir íslenskt samfélag á komandi árum. Enginn vafi er á því að mikilvægi þessa samgöngusviðs þar sem eru fjarskiptin er sífellt vaxandi, það að vera í góðum og greiðum samgöngum hvað fjarskipti snertir án tillits til búsetu í landinu er að taka við, það er að taka yfir að sumu leyti hvað mikilvægi snertir eða forgangsröð í mínum huga samanborið við hinar fýsisku samgöngur eða efnislegu samgöngur, ef svo má að orði komast, þ.e. að komast milli staða í eigin persónu með góðum og greiðum hætti. Að sjálfsögðu er það áfram mikilvægt og verður en fjarskiptasamgöngurnar eru þarna algjörlega að verða úrslitaatriði. Þær eru það fyrir einstaklingana svo að þeir geti verið fullgildir þátttakendur í okkar nútímalega upplýsingasamfélagi, þær eru það fyrir þjónustuaðilana, þær eru það fyrir sveitarfélögin og þær eru það fyrir atvinnulífið. Þær eru algjör undirstaða þess að menn geti verið fullgildir þátttakendur í hinu tæknivædda samfélagi nútímans. Með jafnrétti á ég bæði við verð og gæði.

Þetta er að sínu leyti, herra forseti, þar af leiðandi að verða eitt af stóru jafnréttismálum nútímans, þ.e. aðstaða manna gagnvart þessum hlutum. Þess vegna mega menn ekki spila út úr höndunum á sér neinu því eða fara út í breytingar að óyfirveguðu máli sem geta kostað menn eitthvað í þessum skilningi, ég tala ekki um afturför. Af því, herra forseti, hef ég verulegar áhyggjur, að menn geti þarna verið að lenda í stöðu sem verður snúin viðureignar hvað varðar það að framfylgja þeim markmiðum sem ég gef mér að flestir vilji hafa uppi, að það eigi að tryggja landsmönnum öllum, án tillits til búsetu, sem jafnasta aðstöðu í þessum efnum.

Að sjálfsögðu er einnig mikilvægt út frá jafnréttishugtakinu að þjónustan sé sem ódýrust þannig að sem flestir og allir eigi kost á því að nota sér hana. Það er t.d. gríðarlega mikilvægt að nettengingar séu auðveldar og ódýrar þannig að við förum t.d. ekki að fá upp stéttaskiptingu í samfélaginu hvað varðar það hverjir hafa óheftan aðgang að upplýsingasamfélaginu og hverjir ekki, það er mjög mikilvægt. Að því leyti til er notendabúnaðurinn að sjálfsögðu líka afgerandi, að hann sé ekki of dýr, og ég verð að segja alveg eins og er að ég er að mörgu leyti mjög hrifinn af slíkri hugsun eins og kom fram hjá jafnréttissinnanum, hæstv. menntmrh. Birni Bjarnasyni, að leggja bara öllum skólabörnum til notendabúnað af einhverju þessu tagi og gott að hafa eignast slíkan liðsmann í baráttunni fyrir jafnrétti þegnanna, eins og í því tilviki. Það er að sjálfsögðu hið besta mál ef við tryggjum af opinberu fé, sem á auðvitað þá að vera, öllum nemendum á einhverjum tilteknum skólastigum að þessu leyti algjörlega jafnan rétt og jafnan aðgang að mikilvægum þáttum eins og þessum.

En það gagnar lítið að menn eigi fín tæki, hvort sem þeir kaupa þau sjálfir eða þeim er auðveldað slíkt af opinberum aðilum ef aðstaða manna til að nota er svo mjög misjöfn eða í sumum tilvikum alls ekki fyrir hendi.

[14:45]

Ég held í fjórða lagi, herra forseti, að þegar við förum svo að skoða stöðu ríkisins sem eiganda og í rauninni þjónustuveitandans fram að þessu og áform um einkavæðingu og einkarekstur á þessu sviði, þá vakna mjög mörg álitamál. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, með þetta frv. í höndunum um breytingar á fjarskiptalögunum þar sem menn vísa inn í framtíðina og frekari vinnu mörgum afgerandi þáttum eins og t.d. skilgreiningu á alþjónustu, þá undrar mig að heyra á sama tíma menn eins og hæstv. samgrh. sem ég þykist hafa tekið rétt eftir að einhvern tíma í sumar úttalaði sig um það sem alveg sérstaklega brýnt verkefni að koma Landssímanum úr eigu ríkisins. Telur hæstv. samgrh. virkilega að það mál sé, burt séð frá pólitískum grundvallar\-ágreiningi, svo þroskað að einhver glóra sé í því að fara að rjúka til og ætla að einkavæða Landssímann?

Og til hvers er það, herra forseti? Hvaða tilgangi þjónar það öðrum en þeim pólitíska, að geta sagt að menn hafi gert það? Að menn hafi verið einkavæðingarherleiðingunni trúir og djöflað Landssímanum með góðu eða illu úr eigu ríkisins og hana nú. En er það ekki dálítið ábyrgðarleysi, herra forseti? Í ljósi þess að við erum með þá stöðu uppi í málinu að það er algjörlega ófyrirséð með hvaða hætti pólitísk markmið um jafnrétti og jafna stöðu og aðgang allra að þessu yrðu tryggð. Ég fullyrði, herra forseti, að það er skrifað í skýin, og líka þrátt fyrir þessa tilraun til lagasetningar sem á að heita að sé hér á ferðinni í þeim efnum. Að einhverju leyti tilraun sem á að taka mið af breyttum aðstæðum og horfa fram á veginn, gerir það kannski mögulegt að hægt sé að breyta því með þessi lög til grundvallar. En þá nægja mér, herra forseti, ekki þeir hlutir sem hér eru til lagðir.

Það er líka spurning, herra forseti, hvaða ástæða er til þess fyrir Íslendinga að æða áfram með miklum asa í þessum efnum. Ég held það væri hollt fyrir okkur að líta áfram til fordæma frá t.d. nágrannalöndunum, Noregi og Svíþjóð, skoða einnig fordæmi frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi, Ástralíu og annars staðar þar sem menn hafa verið að prófa aðrar leiðir og spyrja okkur síðan ósköp einfaldlega og heiðarlega: Hvaða fyrirkomulag af þessu, sem annaðhvort við sjálf hugsum upp eða leiðir sem aðrir hafa reynt, viljum við hafa? Viljum við fara leið hinna Norðurlandanna sumra, sem hafa farið mjög varlega í þessa hluti, breyttu að vísu ríkissímafyrirtækjum sínum í hlutafélög um svipað leyti eða aðeins á undan okkur en hafa á hinn bóginn ákveðið að halda í eignarhald ríkisins, a.m.k. að miklu leyti, og hafa farið mjög varlega í sakirnar? Eða viljum við prófa að fara út í æfingar af því tagi sem Nýsjálendingar gerðu? Hvað gerðu þeir? Það var nú harmsaga nýsjálensku þjóðarinnar á níunda áratugnum að þar komst til valda svona nýkrataflokkur sem var alveg heltekinn af frjálshyggju og gekk lengra og var forstokkaðri í frjálshyggjunni en eiginlega allir aðrir flokkar á jarðríki um þær mundir og ákvað að breyta nýsjálenska þjóðfélaginu yfir í tilraunastofu fyrir nýfrjálshyggjuna um árabil --- og að sjálfsögðu hjóluðu þeir í símann og póstinn.

Afleiðingin er sú að á Nýja-Sjálandi eru aðallega tvö símafyrirtæki, ef ég veit rétt, og þau voru síðast þegar ég vissi bæði í amerískri eigu, því að það var ekki þannig að þeir gætu einkavætt þetta og haldið síðan öllum hlutum í sínum höndum, þeir réðu auðvitað ekkert við það. Þetta var komið á alþjóðlegan markað og hver sem er gat keypt og ég veit ekki betur en að amerískir risar, sem hafa verið að seilast til áhrifa á þessu sviði víða í heiminum, hafi komið og tekið nýsjálensku símafyrirtækin í nefið og með afleiðingum m.a. sem leiddu til þess að Ástralir slógu því á frest að fara út í sambærilegar breytingar hjá sér því að þeir voru nokkuð hugsi, þeir frændurnir hinum megin við sundið, þegar þeir skoðuðu hvernig þetta hafði tekist hjá vinum sínum, Kíwí-búum, eins og þeir kalla þá Nýsjálendingana. Þannig að það er nú svona og svona hvernig þetta hefur tekist hjá mönnum.

Pósturinn var nú bærilega einkavæddur á Nýja-Sjálandi. Nú vill svo til að pósturinn á Nýja-Sjálandi var mikilvæg þjónustustofnun, dálítið í ætt við sænska póstinn sem hefur í raun og veru miklu víðtækara hlutverki að gegna en því einu að koma bréfum og bögglum milli manna. Pósturinn rak þar, eins og hann gerir í Svíþjóð, öflugt póstgíró, er í rauninni banki, einhvers konar almenningsbanki og veitir ýmsa frekari þjónustu. Þetta var svipað á Nýja-Sjálandi. Þar annaðist pósturinn sem opinber stofnun um þjónustu fyrir almannatryggingakerfi Nýsjálendinga og það var mjög praktískt og hagkvæmt fyrirkomulag. Í sveitum Nýja-Sjálands sem eru víðlendar býr stór hluti þjóðarinnar af því að Nýsjálendingar eru mikil landbúnaðarþjóð og að mörgu leyti skyldir Íslendingum hvað það snertir að þeir eru frekar fámenn þjóð í stóru landi, byggja tvær stórar eyjar og nokkrar litlar, sem eru líklega um þrisvar sinnum stærri að flatarmáli en Ísland, en að vísu er þjóðin talsvert fjölmennari, þar búa um 3,5 millj. manna. Og þeir höfðu komið sér upp því fyrirkomulagi, sem var eins og ég segi ákaflega praktískt, að pósturinn annaðist um margvíslega þjónustu og var oft í mörgum minni byggðarlögum og samfélögum eina opinbera þjónustustofnunin sem hafði þar viðveru og hafði þar opið. Það voru lítil pósthús vítt og breitt í smábæjum og sveitum sem --- ég sé að formaður samgn. er mjög upptekinn. Hann er mikill áhugamaður um samgöngur og hefur búið til pappírsskutlu sem hann gengur með um þingsalinn og er þetta til marks um hversu geysilega mikill áhugamaður formaður samgn. er um samgöngumál á öllum mögulegum formum samgangna, held ég að hv. þm. ætti nú að reyna að láta fyrirbærið fljúga um salinn. --- En hvað gerðist síðan á Nýja-Sjálandi, herra forseti, þegar nýfrjálshyggjukrataverkamannaflokkurinn þar hafði náð fram því draumamarkmiði sínu að einkavæða póstinn? Hann var auðvitað keyptur upp af ákveðnum aðilum sem fóru að gera mjög stífar arðsemiskröfur á þetta fyrirbæri, sögðu: Ja, okkur kemur ekkert við þetta almannatryggingakerfi Nýsjálendinga, það er ekki okkar hausverkur. Og þeir lokuðu nokkrum hundruðum póstútibúa út um allt Nýja-Sjáland. (KLM: Komast þá jólakortin ekki til skila sem þú varst að senda?) Það er nú það, spurningin um jólakortin sem menn hafa verið að senda þangað. Einhvern veginn rata þau nú vonandi á leiðarenda, en það sem verra er að gamla fólkið á Nýja-Sjálandi lenti í bullandi erfiðleikum með að fá ellilífeyrinn sinn vegna þess að kerfið sem hafði verið byggt upp og byggði m.a. á útibúum póstsins úti um allt land hrundi af því að einkaaðilanum kom það ekkert við þó að gamalt fólk yrði þess vegna að ferðast hundruð kílómetra til að fá ellilífeyrinn sinn sem það hafði áður getað sótt á póstútibúið eða pósthúsið í sinni litlu heimabyggð, sínum litla þorpskjarna eða sveitaþéttbýlis.

Og er það nú ekki þannig, herra forseti, að við höfum aðeins byrjað að finna lyktina af þessu? Hefur ekki einmitt það verið að gerast? Er ekki Landssíminn, eftir að hann var háeffaður, farinn að draga úr þjónustunni víða úti um land? Svarið er jú. Það lét að sjálfsögðu ekki á sér standa að Landssíminn byrjaði að hugsa öðruvísi, enda er mér sagt það. Það er haft eftir núv. forstjóra Landssímans og einum aðalhöfuðpaur og gúrú einkaframtaksins í landinu, engum öðrum en fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands sem stökk yfir í forstjórastólinn, að eina markmið fyrirtækisins nú og skylda sé að reka fyrirtækið með hagnaði, það sé að græða.

Auðvitað er það sá hugsunarháttur sem yfirtekur þetta smátt og smátt og Landssíminn breytist frá því að vera þjónustumiðað almenningsfyrirtæki yfir í það að vera eins og hvert annað einkafyrirtæki sem fer yfir á verðbréfamarkaðinn, fer að fá á sig harðar kröfur um arðsemi og réttlætir það með því skera niður þjónustuna á þeim endum þar sem hún er minnst hagkvæm eða jafnvel óhagkvæm. Nákvæmlega eins og gerðist með einkavædda póstinn á Nýja-Sjálandi. Og litlu útibúin og þjónustustöðvarnar fjúka. Landssíminn er, herra forseti, þegar byrjaður á þessari þróun og það er bara forsmekkurinn, hv. þm. Hjálmar Árnason, af því sem í vændum er ef að líkum lætur. Það er í reynd þannig að Landssíminn er hættur að veita þjónustu og hafa opið á fjölmörgum stöðum þar sem hið sameinaða fyrirtæki Póstur og sími var áður. Það á kannski að heita svo að pósturinn veiti Landssímanum að einhverju leyti þjónustu, sé umboðsaðili fyrir hann, en mér er þó sagt af ólygnum mönnum að dæmi séu um að menn verði að keyra 300 km til að fá framlengingarsnúru. Það þurfi að keyra hátt í 300 km, t.d. á norðausturhorni landsins og upp undir það svipað sums staðar annars staðar, ef menn ætla að kaupa eina framlengingarsnúru við símann hjá sér af því að Landssíminn er hættur að veita þjónustu nema með höppum og glöppum eftir að hann var háeffaður. Er þetta ekki framför, hv. þm. Hjálmar Árnason, sem alveg ríghlær að þessu öllu saman? Jú, það er nú líkast til að það sé framför og nútímalegt, ha? Ég skyldi nú ætla það.

Nei, herra forseti, ég held að menn ættu að fara rólega og ég batt satt best að segja vonir við að hæstv. samgrh., sem ég hef reynt að því að vera frekar traustan mann, mundi ekki láta einhverja frjálshyggjuvitleysu og hugmyndafræði villa sér sýn í þessum efnum heldur stæði hann í lappirnar og færi varlega í þessum málum og glutraði ekki út úr höndunum á sér þó þeim möguleikum sem felast í eignarhaldi ríkisins á þessu opinbera þjónustufyrirtæki sem Landssíminn þó þrátt fyrir allt er á meðan hann er 100% í eigu ríkisins. Það liggur ekkert á nema síður sé að fara að atast í Landssímanum. Látum hann bara í friði um sinn og leggjum honum þær skyldur á herðar í staðinn að sem ríkisfyrirtæki þá gerum við til hans miklar kröfur um að sinna hlutverki sínu vel, rækja það við alla landsmenn, ekki bara suma. Og hann getur vel rekið þjónustustöðvar til að selja mönnum framlengingarsnúrur jafnvel þó að ekki verði stórgróði á þeim í hverjum einstökum tilvikum. Grímseyingar eða aðrir slíkir menn eiga einnig rétt á þjónustu á þessum sviðum.

Herra forseti. Í fimmta lagi er spurningin um valkostina nátengd þessu, ef menn vilja horfa og fara eitthvað yfir þá, sem ég tel að hæstv. samgrh. þurfi að fara gríðarlega vandlega yfir. Það er spurningin um meðferð grunnnetsins eða grunnkerfisins og þjónustuna sem á því er veitt að öðru leyti sem menn hafa auðvitað rætt hér. Nú færa menn fram fyrir því rök og ég hef heyrt hæstv. ráðherra hafa þau rök uppi gegn hugmyndum um að aðskilja þjónustuna og sjálft fjarskiptakerfið, eins og menn hafa vissulega skoðað og velt rækilega fyrir sér, að það hafi engir aðrir gert þetta og að það sé ekki skynsamlegt í rekstrarlegu tilliti vegna þess að það sé mikill styrkur fólginn í einni einingu sem bæði reki grunnnetið og veiti þjónustuna á því, og það er út af fyrir sig alveg sjónarmið, en þá segi ég á móti: Þetta eru mjög sterk rök fyrir því að hrófla ekki við eignarhaldi ríkisins.

Ég held að valkostirnir séu í rauninni þeir að halda þessu inni í einu fyrirtæki en láta þá líka ríkið eiga það með þeim skyldum sem þar með er hægt að leggja því á herðar, þar með talið að opna öðrum aðgang, eða skipta þessu upp og reka grunnnetið í sjálfstæðu fyrirtæki sem ríkið eigi og hafi þá þessa skyldu að selja, óháð eignarlegum tengslum við þjónustuaðilana, öllum þjónustu með sama hætti. Og þá má segja að við værum að velja í því tilliti sama fyrirkomulag og við höfum á vegakerfinu. Vegakerfið er einmitt svoleiðis fyrirkomulag. Ríkið á vegina og leggur það öllum til sem annast flutninga á þjóðvegum landsins eða aka eftir þeim. En við höfum ekki það fyrirkomulag að einhver einkaaðili, einn af nokkrum sem t.d. heldur úti flutningaþjónustu í landinu, eigi og reki vegina. Það er ekki þannig og ég held að það væri satt best að segja afar vandræðalegt fyrirkomulag.

Þess vegna skil ég ekki, herra forseti, og fæ þá hugmynd ekki til að ganga upp að einkavæða Landssímann en láta hann jafnframt halda grunnnetinu í sinni eigu. Ég held að það muni skapa endalaus vandræði og illindi og leiða til áfloga og verða til ófarnaðar. Ég held að miklu gáfulegra sé að velja annan tveggja kostanna og sá sem mér hugnast best er sá að þetta sé eitt opinbert þjónustufyrirtæki með ýmsum skyldum sem líka snúa að mögulegum samkeppnisaðilum á afmörkuðum sviðum samkeppninnar, þjónustunnar, eða jafnvel allri þjónustunni.

[15:00]

Að ætla að leysa þetta eingöngu með lagasetningum og skyldum í löggjöf gagnvart einkaaðilum mun ekki ganga upp held ég. Það mun ekki ganga upp. Menn munu gefa eftir. Það hefur alltaf gerst. Það hefur gerst t.d. í tilviki sjósamgangna og það hefur gerst í mörgum öðrum tilvikum. Þetta er heldur alls ekki, herra forseti, nein ný hugsun sem hér er verið að hreyfa og menn hafa rætt hana og velt henni fyrir sér á öðrum sviðum.

Þetta er mjög náskylt þeim bollaleggingum sem uppi hafa verið t.d. um fyrirkomulag raforkudreifingar. Þar hafa menn horft á þá stöðu að opinber fyrirtæki eða hálfopinber fyrirtæki eins og Landsvirkjun og Rarik, eru í þeirri stöðu að framleiða að hluta til orkuna og/eða kaupa orku og dreifa henni til smásöluaðila, kaupendanna eða þjónustuaðilanna. Orkusviðið er eitt sviðið enn þar sem menn dreymir um að innleiða samkeppni og menn hafa að sjálfsögðu áttað sig á því að það er ekki hægt. Það er ekki hægt nema að leysa þau vandamál sem snúa að því að einhver þarf að eiga og reka dreifingarkerfið. Og hver á það þá að vera? Getur það verið einn af samkeppnisaðilunum eða á það að vera einhver annar? Niðurstaðan hefur oftast orðið sú að það verður að skipta fyrirtækjunum upp, reka dreifikerfin sem sjálfstæð fyrirtæki óháð þeim sem keppa um að selja orku inn á netið og eðlilegasti aðilinn til að reka slíkt fyrirtæki er þá auðvitað ríkið sjálft eða eitthvert eignarhaldsfélag eða félag sem hefur mjög skylda stöðu og um opinbert fyrirtæki væri að ræða.

Herra forseti. Versti kosturinn af öllum blasir við í þessari stöðu. Versti kosturinn er auðvitað að missa þetta svið yfir í einkaeinokun. Það er alveg augljóslega versti kosturinn. Það er það fyrirkomulag sem hefur alls staðar og ævinlega gefist verst af öllum sem menn hafa prófað í svona tilvikum. En það er því miður svo, herra forseti, að það svona glittir í að sú gæti orðið niðurstaðan að um hálfgerða einkaeinokun eða a.m.k. verulega fákeppni í einkarekstri yrði að ræða. Þetta verður í raun og veru aldrei annað en fákeppni. Það er held ég alveg augljóst mál. Ég sé ekki fyrir mér að það sé líklegt að margir aðilar, að tæknin t.d. geri það kleift að margir aðilar fari að veita þjónustu á sviði af þessu tagi. Til þess er grunnuppbyggingin sem til þarf ósköp einfaldlega of dýr. Það mun ekki gerast. Þetta verður eitthvað í líkingu þá í besta falli við það sem gerist í --- ég veit ekki hvort ég á að segja beinlínis í besta falli --- eitthvað í líkingu við það sem gerist á þeim hefðbundnu klassísku fákeppnissviðum sem við þekkjum í olíudreifingu og sjó- og landflutningum eins og þeir eru orðnir o.s.frv.

Herra forseti. Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í ein tvö, þrjú atriði. En nú er skaði. Má ég aðeins víkja mér úr ræðustólnum, herra forseti, því ég gleymdi þingskjalinu sem ég var búinn að merkja við í. (Gripið fram í: Þetta er bannað.) Þetta er ekki bannað. Þetta hefur oft verið gert, hv. þm., með leyfi forseta.

Ég vil fara fram á það við hæstv. samgrh. að hann útskýri fyrir okkur, herra forseti, í miklu ítarlegara og nákvæmara máli en er að finna í frv. sjálfu eða skýringum með því fyrirbærið alþjónustu. Mér sýnist, herra forseti, svo mikið hanga á því hugtaki að eigi menn að fá einhvern botn í það hvernig menn hugsa sér þetta geta gerst með samkeppnina og kvaðir sem lagðar yrðu á leyfishafa, þá verði að liggja til grundvallar miklu skýrari og geirnegldari útskýring á þessu hugtaki. Ég er alveg sáttur við að hæstv. samgrh. taki sér tíma ef hann óskar til þess að koma með skriflega skýringu eða í formi yfirlýsingar hér sem gæti orðið lögskýringargagn síðar ef á þarf að halda. Mér nægir ekki þessi orðskýring í 3. gr. þar sem sagt er, með leyfi forseta:

,,Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.``

Þarna eru að vísu tvö alveg afdráttarlaus skilyrði, þ.e. ,,allir notendur`` og ,,óháð landfræðilegri staðsetningu``. En það eru þrjú mjög afstæð hugtök eða jafnvel gildishlaðin hugtök inni í þessu líka, þ.e. ,,afmarkaðir þættir``. Hvað þýðir það? Hvað eru ,,afmarkaðir þættir`` í þessu tilviki? Hvað þýða ,,tiltekin lágmarksgæði`` í þessu tilviki og hvað þýðir ,,viðráðanlegt verð``? Á þessu hangir í raun allt í þessu máli. Ef þarna ber að skilja orðin ,,allir notendur`` þannig að alþjónusta geti ekki talist alþjónusta nema hún nái til hvers einasta mögulegs notanda þá er það auðvitað mjög mikilsverð breyta í þessu máli. Ég óska þar af leiðandi eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra fari rækilega yfir þessa orðskýringu og reyni að afmarka og skýra mun nákvæmar en þarna er gert hvað felst í hverjum þætti fyrir sig. Ber að skilja orðin ,,öllum notendum`` þannig að alþjónusta verði að taka til landsins alls, 100%, að hver einasti notandi geti átt og eigi rétt á því að tengjast? Þá er það auðvitað mjög ströng og afdráttarlaus krafa. En hún er forsenda þess að eitthvert hald sé í þessari hugsun. Um leið og menn fara að slaka þar á, eins og ég hef heyrt hugmyndir um, t.d. að alþjónusta gæti staðið undir því nafni ef 90% notendanna væru tengdir, þá erum við strax komin í miklar ógöngur. Mega þeir 10% vera hvar sem er? Geta það t.d. verið allar sveitir landsins? Í slíkri prósentutölu gæti falist mestallt strjálbýli Íslands. Og ég gef ekki mikið fyrir þá alþjónustu ef menn geta leyst málin með því að hirða bara upp þéttbýliskjarnana, höfuðborgarsvæðið og/eða nokkra stærstu kaupstaðina. Um leið og menn eru komnir t.d. niður í 80% þá er þetta hrunið, þá er það ekkert landsþjónusta lengur því að hér búa núna samkvæmt nýjasta manntali frá 1. desember sl. yfir 60% á einum bletti landsins og fer hratt fjölgandi.

Herra forseti. Sömuleiðis dugar 13. gr. frv. engan veginn og ég hef óskað eftir því að hæstv. samgrh. útlisti þetta í og með vegna þess að þar er laus endi í lokin. Þar segir ósköp einfaldlega í síðustu mgr.: ,,Samgönguráðherra setur reglugerð um alþjónustu.``

Herra forseti. Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, og mér er ljóst að það er kannski ekki beint úr efni þessa frv. en ég tel að það sé ástæða að hæstv. ráðherra upplýsi í þessari umræðu sín sjónarmið og sín svona viðhorf í þessum efnum, ósköp einfaldlega: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að átak verði gert á næstu missirum í því að bæta fjarskiptaþjónustuna hvað gagnaflutningagetu í kerfinu snertir, sérstaklega til minni þéttbýliskjarna og strjálbýlisins?

Við erum held ég öll sammála um að það er ákaflega mikilsverður hlutur að þar verði gert átak. Þar reka menn sig nú á það að flutningsgetan er ekki nóg og kröfunum í þeim efnum fleygir svo fram eða þær hafa aukist svo hratt að það sem menn töldu ásættanlegt fyrir nokkrum mánuðum næstum að segja er það ekki lengur í dag. Þar af leiðandi er þar ekkert annað fram undan, ef menn ætla ekki að dæma ákveðin svæði á landsbyggðinni úr leik hvað varðar t.d. möguleikana á því að keyra öflugan hugbúnað tengdan netinu, en að gera stór\-átak í að stórauka afkastagetuna, flutningsgetuna, annaðhvort með lagningu t.d. ljósleiðara út frá ljósleiðaranetinu, út frá hringnum, á alla stærstu þéttbýlisstaðina þar fyrir utan eða með því að stórefla örbylgjusamböndin eða með einhverjum öðrum hætti. Viðbótarvandamál í þessu eru svo að sjálfsögðu lagnirnar í sveitunum sem líka þarf að gera átak í.

Herra forseti. Af því að menn hafa verið að ræða hér um þenslu og spurninguna um mögulega arðbæra fjárfestingu eða hvernig ætti að koma fjármunum ríkissjóðs í lóg --- það var eiginlega orðið dálítið kostulegt að upplifa umræðu sem hér geisaði í vikunni um það hvernig menn ættu að leysa þetta vandamál um alla peningana í ríkissjóði --- þá hef ég bent þar á fimmta kostinn sem mér fannst ekki koma fram í þeirri umræðu og hann er arðbær fjárfesting af því tagi t.d. að slá margar flugur í einu höggi og setja fjármuni í að bæta fjarskiptanetið á landsbyggðinni þannig að allir landsmenn séu í sem allra bestri aðstöðu hvað varðar þátttöku í upplýsingaþjóðfélaginu margtuggða. Það mundi ekki valda mikilli þenslu þó menn endurbættu línur í sveitum, þó menn legðu ljósleiðara út frá hringnum á þéttbýlisstaðina, bættu örbylgjusamböndin eða annað í þeim dúr. Það væru framkvæmdir sem fyrst og fremst ættu sér stað í afskekktari landshlutum.

Mér finnst mjög mikilvægt, herra forseti, að hæstv. ráðherra lýsi aðeins viðhorfum sínum í þessum efnum, hvernig hann sér fyrir sér að hægt sé að ráðast í stórátak í þessum efnum. Ég sé ekki að það geti gerst eða muni gerast öðruvísi en í gegnum uppbyggingu hjá því fyrirtæki sem fyrir er í dag. Ég held að hugmyndir um að nýir einkaaðilar muni koma til sögunnar og valda straumhvörfum í þessum efnum séu algjörlega óraunhæfar. Þeir munu að sjálfsögðu byrja á því að fjárfesta hér á stærsta markaðssvæðinu. Það liggur í hlutarins eðli. Nema þeir yrðu einhvern veginn þvingaðir til annars, sem ég sé ekki að auðvelt sé að gera. Jafnvel þó að menn væru mjög strangir á öllum hugmyndum um alþjónustu og annað slíkt þá gæti það aldrei gerst öðruvísi en þannig að menn hefðu eitthvert svigrúm, einhvern aðlögunartíma o.s.frv. því ekki er hægt að búast við því að fyrirtæki spretti upp úr jörðinni alskapað með fjarskiptanet sem nái til hvers einasta sveitabæjar í landinu bara á einum degi. Það gerist ekki þannig. Það þarf eitthvað til, tíma, fjármuni, og þá eru menn komnir út í það að verða að veita þarna aðlögunartíma o.s.frv.

Herra forseti. Ég lýk þá máli mínu og vonast til þess að hæstv. samgrh. geti svarað þessum spurningum. Ég ætla ekki að gera lítið úr möguleikum ráðherra til þess að orða hugsun sína markvisst og skarpt og svara í andsvörum, en mér fyndist, herra forseti, jafnvel ástæða til þess að hæstv. ráðherra gerði þetta með ítarlegra máli, jafnvel í formi einhvers konar yfirlýsingar, sérstaklega hvað varðar skilgreiningu á hugtakinu ,,alþjónustu`` sem mér býður í grun að gæti átt eftir að reynast jafnvel lögskýringargagn eða mikilvæg skilgreining þegar fram líða stundir ef svo heldur sem horfir.