Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:13:28 (3253)

1999-12-17 15:13:28# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur farið mjög ítarlega og vel yfir þetta mál. Ég vil þó víkja að örfáum atriðum.

Eins og hér hefur komið fram er markmið þessara laga að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samskipti á fjarskiptamarkaði. Nú má spyrja sem svo hvort það sé mikilvægt og ástæða til að setja slíka löggjöf sem eigi að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi. Svarið er já. Ég svara því játandi í ljósi þeirrar þróunar sem nú á sér stað á þessu sviði.

Á undanförnum árum og áratugum hefur verið byggð upp mjög öflug fjarskiptaþjónusta í okkar heimshluta af stofnunum og fyrirtækjum í eigu almennings og sem lotið hafa almannastjórn. Hugmyndafræðin sem þær hafa verið reknar samkvæmt eða sú hugsun sem þær hafa hvílt á er að þjóna almenningi; ,,Public Service`` hefur verið hugtakið sem menn hafa notað um þetta á enskri tungu.

[15:15]

Nú er öldin önnur. Hinn 24. nóv. sl. er haft eftir Þórarni V. Þórarinssyni, forstjóra Landssíma Íslands hf., eins og það heitir núna, að kjarnakrafan í rekstri fyrirtækisins væri arðsemin og allt annað yrði að lúta henni. Kjarnakrafan er arðsemin, allt annað verður að víkja. Þessu greindi Morgunblaðið frá 24. nóv. Sennilega hafa þessi orð verið látin falla daginn áður.

Þetta er mergurinn málsins. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því nú að setja lög sem tryggi að þeir sem ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hefur falið ábyrgð á þessum málaflokki sýni einhverja félagslega ábyrgð. Og við erum að ræða lagafrv. sem á að tryggja þetta. Við teljum að í því séu ekki nægilegar tryggingar á þeirri þjónustu sem allir þegnar landsins eiga að njóta, alþjónustu.

Í 13. gr. frv. er hún skilgreind. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Ef nauðsynlegt þykir til að tryggja fullnægjandi fjarskiptaþjónustu á sanngjörnum kjörum og þeirri þjónustu verður ekki við komið ef einungis er tekið mið af viðskiptasjónarmiðum getur Póst- og fjarskiptastofnun við útgáfu rekstrarleyfa mælt svo fyrir að rekstrarleyfishafi eða rekstrarleyfishafar skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu. Til alþjónustu teljast m.a. talsímaþjónusta, gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu og þjónusta við fatlaða eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið hámarksverð og lágmarksgæði alþjónustu.

Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur um synjun borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.

Samgönguráðherra setur reglugerð um alþjónustu.``

Gagnrýni okkar gengur út á að þetta sé ekki nægjanlega skilgreint. Hér kemur fram sú hugsun að sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tiltekna þjónustu þá komi til þetta úrskurðarferli. Síðan er spurning með fjármögnunina sem mun eiga að vera úr þar til stofnuðum sjóði. Það er verið að búa til endalausa sjóði og eftirlitsaðila sem eiga að fylgjast með því að samkeppnin gangi upp. Þetta er í samræmi við fyrirkomulag hjá öðrum ríkjum. Þetta hefur gerst í Bretlandi og Nýja-Sjálandi og þetta hefur gerst í Evrópu þar sem póst- og símastofnanir hafa verið einkavæddar. Þar hefur þetta víðast hvar leitt til mikils óhagræðis, endalausra reglugerðasmíða að ógleymdum hinum vinsælu eftirlitsstofnunum. Ég held að fá svið atvinnulífs í Bretlandi blómstri eins og einmitt eftirlitsstofnanirnar, eftirlitsnefndir að sovéskum hætti sem verið er að koma upp til að hafa hemil á nýjum samkeppnisaðilum sem láta stjórnast af arðsemi og láta allt annað víkja, eins og forstjóri Landssímans hf. lætur hafa eftir sér í Morgunblaðinu nýlega.

Ég ætla ekki að hafa hér mörg orð en vil taka undir þær spurningar sem hér voru bornar fram af hálfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar til hæstv. samgrh. um skilgreiningar á alþjónustunni. Ég vildi gjarnan fá svör við því hvernig farið er með sjómenn í því efni.

Sjómenn hafa notið alþjónustu á við aðra þegna landsins. Það hefur verið reynt að tryggja þeim jöfn réttindi, sambærileg við réttindi annarra landsmanna. Ég vil heyra hæstv. samgrh. skýra það fyrir okkur hvort svo verður áfram, hvort þeir njóti allrar þeirrar þjónustu sem öðrum landsmönnum er ætlað að njóta. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri að sinni en ég bíð spenntur eftir að hlýða á mál hæstv. samgrh.

Einu vil ég þó bæta við. Frv. þau sem hér liggja fyrir vísa inn í framtíðina. Það er mjög slæmt hve framtíðin er óljós. Ég tek eftir því að við þessar umræður er ekki einn einasti framsóknarmaður viðstaddur, enginn framsóknarmaður. (Gripið fram í: Þeir eru að undirbúa lögin.) (SvanJ: Það er af því að við erum að tala um framtíðina.) Já, nú erum við að tala um framtíðina. Nú hefur heyrst að ágreiningur sé innan ríkisstjórnarinnar um þessa sömu framtíð, t.d. um hvort ætlunin sé að selja grunnþjónustuna, grunnnetið. Hver er afstaða manna í þeim efnum?

Hæstv. samgrh. hefur lýst sínum sjónarmiðum. Hann vill selja allt gumsið og koma öllu á markað. Hann hefur gert það og skýrt heiðarlega frá því. Framsóknarmenn hafa sumir lýst efasemdum um þetta og talið óráðlegt að selja grunnnetið. Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Er eining um þetta á milli stjórnarflokkanna? Við eigum kröfu á því að heyra álit beggja aðila um þetta efni.

Þegar annað þessara frv. kom fram á sínum tíma var það gagnrýnt hér í þessum ræðustóli af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna. Í gagnrýni okkar vísuðum við á þetta atriði sérstaklega. Við vildum vita hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar væri. Sjónarmiðið í þingflokki okkar er að grunnnetið beri að aðskilja annarri þjónustu ef menn á annað borð ætla að selja þessa stofnun, sem við erum andvíg. Við erum mjög eindregið andvíg því að selja þessa stofnun. Ef menn á hinn bóginn ætla að gera slíkt þá er það grundvallarforsenda að skilið verði á milli grunnnetsins annars vegar og þjónustunnar hins vegar. Mér sýnist skynsemin og sanngirnin mæla með því að svo verði gert. Það var ágæt samlíking sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að þetta væri sambærilegt við vegakerfið að mörgu leyti. Vegakerfið er á vegum ríkisins, í eigu almennings en síðan færi fram samkeppni á þessum vegum. Hér virðist meiningin hjá hæstv. samgrh. vera að fela einum aðila yfirráð yfir hvoru tveggja. Það finnst mér vera óráðlegt.

Að lokum, herra forseti, þá auglýsi ég eftir afstöðu, ekki aðeins hæstv. samgrh. heldur einnig fulltrúa Framsfl. Mér finnst erfitt að ljúka þessari umræðu fyrr en afstaða beggja aðila um þetta efni liggur fyrir .