Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 15:56:23 (3260)

1999-12-17 15:56:23# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðuna og svörin sem hann gaf. Ég hefði út af fyrir sig vel getað kosið að fá ítarlegri útlistun og skilgreiningu á t.d. hugtakinu alþjónusta en það var þó viðleitni uppi höfð.

Ég vil segja í fyrsta lagi að ég er í raun og veru sammála hæstv. samgrh. um spurninguna um eignarhaldið. Ég er enginn sérstakur áhugamaður um að fara að færa þetta fjarskiptafyrirtæki undir fjmrh. Það fyndist mér vera vísbending í þá átt að hér væri um hreint fyrirtæki á arðsemisgrunni að ræða sem hefði enga sérstaka skírskotun til samgöngupólitíkur eða fjarskiptastefnu þjóðarinnar. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að svo lengi sem þetta fyrirtæki er opinbert fyrirtæki og hefur kvaðir og skyldur á fjarskiptasviðinu sé eðlilegt að samgrh. fari með forræðið í því og þess vegna hið svokallaða eignarhald. Mér finnst í sjálfu sér engin slík breyting hafa orðið með stöfunum hf aftan við. þetta fyrirtæki að það kalli á að það færist frá samgrh. eða ráðuneyti yfir til fjmrn. Ég er ekki í þeim hópi sem gerir það að miklu máli nema síður sé.

Í öðru lagi varðandi það að ekki séu alls staðar forsendur fyrir samkeppni sem við hæstv. ráðherra erum þó sannarlega sammála um, þá held ég hins vegar að sú leið sem hér á að fara að feta sig eitthvað inn á, að opna fleiri aðilum inngang inn á kerfi sem einn aðili á og rekur, muni reynast mönnum mjög krókótt og erfið. Sérstaklega vara ég við henni ef menn ætla að fara að selja síðan Landssímann og gera það fyrirtæki sem á grunnnetið að einkafyrirtæki. Það mun skapa endalaus vandkvæði, árekstra og djöfulgang og nóg hefur nú Samkeppnisstofnun haft að gera hingað til en það verða smámunir hjá því sem klögumálin munu hljóða upp á þegar það fyrirkomulag væri komið á.

Herra forseti. Mikil er trú hæstv. samgrh. ef hann heldur að einkafyrirtæki, ný einkafyrirtæki í fjarskiptum verði brautryðjendur í því að bæta t.d. flutningsgetu grunnnetsins í Strandasýslu.