Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:27:09 (3272)

1999-12-17 16:27:09# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, Frsm. meiri hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Það er rétt að þessir peningar eru ekkert eyrnamerktir og Alþingi kemur ekki til með að hafa vald á þeim neitt lengur. Hitt er annað að það eru auðvitað Bændasamtök Íslands sem koma til með að fara með þetta fé og Bændasamtökunum og búnaðarþingi er að sjálfsögðu ágætlega til þess treystandi eða ég treysti þeim a.m.k. vel til þess að fara með hagsmuni bænda.

Varðandi þessa upphæð, 190 milljónir, þó að hún komi óskipt, óskert inn í Lífeyrissjóð bænda skilar hún samt bændum sem þiggja greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda engu því að hún fer ekki upp fyrir tekjutrygginguna hvort eð er, þeir eru langt fyrir neðan hana samt sem áður. Í raun og veru skiptir þetta bændur ekki máli nema upphæðin verði talsvert miklu hærri. Þess vegna tel ég eðlilegt að þessar 190 milljónir fari yfir til Bændasamtakanna, búnaðarþing getur tekið ákvörðun, hugsanlega með mótframlag frá ríkinu í huga, um að hækka verulega og bæta kjör eða hagsmuni, bæta hag Lífeyrissjóðs bænda þannig að hann fari að skila meiru en lágmarkstekjutryggingu.