Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:33:39 (3275)

1999-12-17 16:33:39# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er frv. til laga um breytingar á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins komið til 3. umr. Ég vek athygli á því, herra forseti, að við 1. umr. veltu menn vöngum yfir þessu orðalagi, þessu heiti, þ.e. ,,vegna niðurlagningar``, og hvort ekki mætti finna þjálla orð en það. En það er í sjálfu sér ekki samt efnisatriði. Ég beini því til góðra íslenskumanna hvort þeim gæti dottið í hug nokkurt orð sem þjónaði betur og fyllti samt þann skilning sem því er þar ætlað að fylla.

Varðandi lögin og lagafrv. að öðru leyti vil ég aftur, eins og ég gerði í stuttri ræðu við 1. umr., vekja athygli á ákvæðum 11. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Í stað orðanna ,,Framleiðsluráð landbúnaðarins`` í 2. mgr. kemur: Framkvæmdanefnd búvörusamninga.``

Ég vil vekja athygli á því að stjórnsýsluleg staða framkvæmdanefndar búvörusamninga er ekki verulega sterk. Hún er tengd ákveðnum verkefnum og mun þess vegna geta fallið út. Þetta er í sjálfu sér í lagi, að því ég best veit, meðan þessi verkefni eru falin framkvæmdanefndinni samkvæmt verklagsreglum þar um. En það er aðeins veikt að vera að setja hana þarna inn í lög án þess að það sé neins staðar annars staðar skilgreint í lögunum hver hún sé í sjálfu sér. Ég geri ekki ágreining um þetta, herra forseti, en ég bendi á að að mínu mati er þarna viss veikleiki á ferð.

Herra forseti. Að lokum vil ég einnig fara í umræðu um þennan sjóð sem Framleiðsluráð á, 190 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir því að hann fylgi verkefnaflokknum og viðfangsefnunum til Bændasamtakanna og það getur verið, eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á, erfitt að slíta beint þar á milli þegar svona aðgerð er framkvæmd. Hins vegar er alveg rétt að taka undir og ítreka þá afstöðu hv. þm. Þuríðar Backman um að ekki er eðlilegt að ráðstafa þessu fé einhliða af hálfu Bændasamtakanna þó svo að þetta fé fylgi þar með. Það væri reyndar afar óeðlilegt ef svo stór sjóður, tiltölulega stór sjóður þegar um eignir á vegum landbúnaðarstofnana er að ræða, færi fram með þeim hætti. Sjálfsagt hefði verið rétt að skoða hvort gera ætti beinar tillögur um ráðstöfun hans eða eyrnamerkingu, a.m.k. er afar brýnt að það sé alveg ljóst, þ.e. sú skoðun eða ábending, að honum verði ráðstafað í fullu samráði við löggjafann, landbrn. og aðra sem þarna eiga að koma að.

Hér hefur réttilega verið dregin fram staða Lífeyrissjóðs bænda og hve brýna nauðsyn ber til að styrkja hann fjárhagslega. Ef þessir peningar eru nýttir þar til að styrkja eða koma sem mótframlag inn í þann sjóð þá getur það verið hið besta mál að góðra manna yfirsýn, en eftir stendur hin brýna nauðsyn á að styrkja lífeyrissjóðinn og það ber að skoða. Ég legg áherslu á það. Og þessir peningar og þessi sjóður gætu í sjálfu sér vel komið sterklega inn í þá umræðu.

Herra forseti. Að öðru leyti vil ég segja að þetta frv. er framfarafrv. Þarna er verið að færa til verkefni, einfalda stjórnsýslu og gera hana markvissari sem leiðir til hagræðingar og um það er allt mjög gott að segja. Ég óska þess að þessi ráðstöfun --- ég vænti þess að hún verði samþykkt eins og hún liggur hér fyrir í megindráttum --- verði til heilla fyrir íslenskan landbúnað.