Framleiðsluráð landbúnaðarins

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:39:13 (3276)

1999-12-17 16:39:13# 125. lþ. 48.12 fundur 205. mál: #A Framleiðsluráð landbúnaðarins# (breyting ýmissa laga) frv. 112/1999, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki halda hér langa ræðu. Ég vil þakka hv. þingmönnum málefnaleg umræðu og virði auðvitað þær skoðanir sem hafa komið hér fram. Þó að sjónarmiðin falli að einhverju leyti hvert í sína áttina þá virði ég þau. Þingmenn eru hér að leita leiða til þess að styrkja landbúnaðinn og bændastéttina og fyrir það þakka ég.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson ræddi um þá ráðagerð að láta þessar 190 milljónir fylgja verkefnunum og leggur til að þær verði felldar inn í Lífeyrissjóð bænda. Maður sér stundum að það borgar sig að spara sig í umræðunni og tala seint því að hv. þm. Þuríður Backman hélt prýðilega ræðu og tek ég undir hvert orð sem hún sagði um það atriði að ekki er gott hjá okkur að breyta þessu og þessi sjóður á auðvitað að standa undir verkefnum sem Bændasamtökin taka yfir með sér. Síðan gæti það kannski orðið önnur síðari tíma ákvörðun Bændasamtakanna eða búnaðarþings að þessum sjóði yrði ráðstafað annað, inn í lífeyrissjóðinn eða eitthvað. Það er annað mál. En ef við ekki létum þessar 190 milljónir fylgja þessum verkefnum þá yrði hér auðvitað hækkun á matvælaverði o.s.frv. til að standa undir kostnaði við verk sem þarna er gerð krafa um að verði unnin áfram.

Meginsparnaðurinn við þetta liggur auðvitað í því að mikið húsnæði sem heyrir undir Framleiðsluráð landbúnaðarins í dag kemur til með að hýsa önnur verkefni, framkvæmdastjóri hverfur frá störfum og ekki síst í hinu að 15 manna stjórn þarf ekki oftar að koma saman. Hennar hlutverki er lokið og aðrir taka við þeim verkefnum. Þarna er því heilmikill sparnaður.

Ég vil svo segja að auðvitað er búið að fara mjög vandlega yfir þetta mál, bæði lögfræðilega í landbrn. og hjá Bændasamtökunum þannig að ég held að það sé allt saman vel varðað, þetta stenst allt saman og er eðlilegt. En svo er hitt sem ég vil þakka hv. þm. sérstaklega og það er sá hugur sem þeir bera til Lífeyrissjóðs bænda og hversu mikilvægt þeir telja að skoða stöðu þessa sjóðs og styrkja hann. Það er auðvitað verkefni sem ég mun leita samráðs um. Þessar 190 milljónir mundu í sjálfu sér ekkert breyta veikri stöðu Lífeyrissjóðs bænda þannig að hægt yrði að greiða út hærri upphæðir. Þetta er einn af veikari sjóðunum. Hann var stofnaður seint og býr við sérstakar aðstæður þannig að það er bara annað verkefni sem þarf að setjast yfir hvernig hægt er að styrkja þann sjóð. Hann hefur orðið fyrir áföllum en er hins vegar mjög vel rekinn nú þannig að hann stendur sig að því leyti vel. En auðvitað vantar peninga til að standa undir öllum þeim skuldbindingum framtíðarinnar sem blasa við. Ég er ekki undirbúinn hér núna til að segja frá því hve mikla peninga vantar inn í þann sjóð, en þetta mundi ekki breyta miklu.

Ég kýs að frv. verði lögfest hér svona. Við erum að stíga þarna skref í átt til hagræðingar. Það er samstaða um málið meðal bænda og einu skrefi fylgir oft annað þannig að við erum á leið til nýrrar aldar með það í huga að reyna að draga úr kostnaði, að spara bæði fyrir bændur og neytendur og ekki síst að styrkja íslenskan landbúnað.

Hæstv. forseti. Ég er afar þakklátur fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar í dag.