Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 16:53:44 (3278)

1999-12-17 16:53:44# 125. lþ. 48.31 fundur 291. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (ellilífeyrisgreiðslur, samsköttun félaga og ríkisverðbréf) frv. 101/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með formanni efh.- og viðskn. að það ber að reyna að hafa skattareglur réttlátar og koma í veg fyrir misnotkun á þeim. Mig langar til að spyrja, vegna hugsanlegrar framkvæmdar á þessum nýju reglum sem verið er að setja hér, hvort það sé meiningin og verði þá staðreynd, að hlutabréf sem hingað til hafa einungis notið ákveðins eignarskattsfrelsis með því að vera frádráttarbær frá heildareignum með þaki upp á rúmlega 2,5 millj. fyrir hjón, að með 3. gr. séu hlutabréf orðin hluti af öllum þeim bréfum sem eru frádráttarbær frá eignum og þar er ekkert þak. Þýðir það að hlutabréfaeign, hvaða nafni sem hún nefnist ef hlutabréfin eru innlend á annað borð, geti öll dregist frá eignum og þar með séu þau orðin eignarskattsfrjáls?

Ef svo er þá er búið að opna fyrir miklu meira eignarskattsfrelsi en nokkurn tíma hefur verið og það væri fróðlegt að vita frá hv. formanni efh.- og viðskn. hvort þetta sé niðurstaðan, sem mér hefur verið tjáð að sé, en mér þætti vænt um að vita hver skilningur nefndarinnar er á þessu máli.